Almannatryggingar

Fimmtudaginn 18. janúar 2001, kl. 11:04:31 (3878)

2001-01-18 11:04:31# 126. lþ. 61.1 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, fjmrh.
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 126. lþ.

[11:04]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Áður en ég kem að öðrum atriðum langar mig að rifja eilítið upp aðdraganda þessa máls og forsögu.

Eins og við vitum má rekja upphaf málsins sem hér er til umræðu til lagabreytinga sem gerðar voru 1993. Þá þótti nauðsynlegt vegna ákvæða í hinum nýja EES-samningi að skipta gömlu almannatryggingalögunum, annars vegar í lög um almannatryggingar og hins vegar í lög um félagslega aðstoð, þar sem væru ýmsar greiðslur og bætur sem ekki væri skylt að greiða en kæmi til greina að inna af hendi við sérstakar aðstæður. Þetta var gert.

Þá bar svo við að í lögunum um almannatryggingar féll brott lagastoð undir ákveðnum reglugerðarheimildum í samræmi við þá framkvæmd sem tíðkast hafði í þessum efnum frá upphafi. Við lagabreytingarnar 1993 láðist að ganga þannig frá málum að áframhaldandi útgáfa reglugerðar um skerðingu tekjutryggingar örorkulífeyrisþega vegna tekna maka héldi áfram. Það láðist að tryggja lagastoð fyrir slíkri reglugerð.

Hvað var hér á ferðinni, eitthvert pólitískt mál, ágreiningsmál, ásetningur um að fella þetta brott úr lögum? Nei, það segir skýrt í dómi Hæstaréttar um þetta atriði: Það var ekki vilji löggjafans. Það stóð til af allra hálfu sem greiddu um það atkvæði á sínum tíma að hafa þetta óbreytt eins og það var. Það hefur verið vitnað í ræðu ráðherrans í umræðum á þeim tíma. Hvað gerðist? Þetta var handvömm. Þetta var lagatæknileg handvömm ef svo mætti segja. Hver bar ábyrgð á henni? Vitanlega flutningsmaður málsins? Hver var það? Það var ráðherra Alþfl. í heilbrrn. sem flutti þetta mál inn í þingið. Hann ætlaði sér ekki að gera þarna neinar breytingar. Löggjafinn ætlaði sér ekki að gera neinar breytingar. Menn voru inni á þessu frv. eins og hann lagði það fram. Þetta gleymdist í heilbrrn. Það var að sjálfsögðu á ábyrgð ráðherrans. Sá ráðherra er einn af varaforsetum þingsins núna eins og við vitum. Það skiptir reyndar ekki máli þó að hann hafi hægt um sig í þessari umræðu vegna þess að við vorum aðilar að því stjórnarsamstarfi og studdum þetta mál. Við vissum ekki betur en að þarna væri óbreytt ástand miðað við það sem áður var. Við vissum ekki betur og studdum því heilbrrh. okkar á þeim tíma í því að gera þessar nauðsynlegu lagabreytingar, að skilja í sundur lög um almannatryggingar og félagslega aðstoð. Engum datt í hug að þarna hafi verið sá ásetningur að gera einhverja efnisbreytingu. Það datt engum í hug.

Síðan kemur í ljós, þegar menn fara að skoða það mál betur og núna hefur verið dæmt um það, að reglugerðin sem seinna er gefin út, að vísu af núv. heilbrrh. eftir að búið var að ganga frá henni í ráðuneytinu, stenst ekki vegna þess að auðvitað er gerð sú krafa að reglugerðin hafi lagastoð. Um þetta er ekkert deilt. Um þetta er fjallað með mjög skýrum hætti í dómi Hæstaréttar og það er ekkert vafamál. Mönnum varð á í messunni við löggjafarstarfið, að vísu óvart, en þetta eru afleiðingarnar. Menn komast ekki upp með að setja reglugerðir án þess að fyrir þeim sé skýr lagastoð. Þannig var þetta 1993 og við þetta gerði umboðsmaður Alþingis síðan athugasemd, eins og kunnugt er. Þá var lögunum breytt og sett inn heimild fyrir þessari reglugerð.

Í dómsorði Hæstaréttar er skýrt vikið að tímabilinu 1994--1998, þar til nýju lögin eru sett. Við þetta hefur enginn gert athugasemdir, ekki einu sinni minni hluti Hæstaréttar sem er sammála þessu. Hins vegar snýst ágreiningurinn í þessu máli um það sem við tók eftir að lögum var breytt í annað sinn vegna þessa máls með gildistöku 1. janúar 1999. Menn greinir á um það, bæði dómarana í Hæstarétti og marga hv. þm., hvort hægt sé að túlka þau lög sem stjórnarskrárbrot. Þá ætla ég einmitt að koma að því sem gerðist hér í millitíðinni árið 1995 þegar stjórnarskránni var breytt.

Við munum það mörg sem sátum þá á Alþingi að við tókum höndum saman um það, í tilefni af 50 ára afmæli lýðeldisins 1994 þar sem samþykkt var þál. um að endurskoða VII. kafla stjórnarskrárinnar, svokallaðan mannréttindakafla, að leggja til breytingar í því efni á næsta þingi á eftir, 1994--1995. Þær voru endanlega afgreiddar eftir kosningarnar árið 1995. Það vill svo til að þetta frv. um breytingar á stjórnarskránni, frv. til stjórnarskipunarlaga, var flutt af fulltrúum þingflokka og ég er sá eini sem sit enn á Alþingi úr þeim hópi. Ég var 1. flm. að því máli og hafði forustu um það í hópi þingflokksformanna að undirbúa þetta mál. Ég var sömuleiðis formaður í stjórnarskrárnefnd þingsins sem fékk þetta mál til meðferðar. Eins og margir muna urðu býsna miklar deilur og átök í samfélaginu um þetta mál og skiptar skoðanir um ýmis atriði en að lokum náðum við góðri sátt um málið í þinginu og þessi ákvæði eru núna í gildandi stjórnarskrá.

Það var ekki tekist á um ákvæðin sem komu til skjalanna, að því er varðar efnahagsleg og félagsleg réttindi, á þessum tíma. Það var ekki mikil ágreiningur um þau ákvæði sem þá voru sett inn í stjórnarskrána, m.a. vegna þess að ekki var talið að neinar stórfelldar efnisbreytingar væru gerðar á þeim ákvæðum sem áður giltu í ljósi þróunar réttarins, breyttrar réttarvitundar og túlkunar þessara ákvæða í ljósi gildandi og ríkjandi viðhorfa. Þessi ákvæði voru með öðrum orðum færð í átt til nútímans, út úr 19. aldar orðalagi og hugarfari inn í nútímann, m.a. með hliðsjón af mannréttindasáttmálum sem Íslendingar höfðu í millitíðinni gerst aðilar að.

Ég er ekki þeirrar skoðunar að þarna hafi orðið grundvallarbreyting í stjórnarskrárlegu tilliti varðandi þessi réttindi. Það er tekið fram í grg. stjórnarskipunarlagafrv. og í framsögu minni á þeim tíma hvað þarna er um að ræða. Hins vegar er ekki tekið fram í ræðu minni það sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson lagði mér í munn í umræðunum í gær, að ég hafi sagt að þessi ákvæði ættu aldeilis ekki að verða einhverjar skrautfjaðrir í stjórnarskránni. Það er auðvitað bara tilbúningur hv. þm. sem greinilega hefur ekki flett þessu upp eða kynnt sér það sem fór hér á milli manna frekar en ýmislegt annað í þessu máli.

Á þessum tíma barst til stjórnarskrárnefndar þingsins athugasemd og umsögn frá Mannréttindaskrifstofu Íslands, undirrituð af formanni hennar, Ragnari Aðalsteinssyni hæstaréttarlögmanni. Þar er sérstaklega vikið að þessari grein. Hann gerir athugasemd við að í ákvæðunum skuli standa að nánar skuli kveðið á um tiltekin réttindi í lögum. Í ákvæðunum stendur að allir sem þurfa skuli eiga rétt á aðstoð vegna sjúkleika, örorku, elli, atvinnuleysis og sambærilegra atvika, eftir því sem nánar er ákveðið í lögum. Hann gerir athugasemd við að þar skuli standa ,,eftir því sem nánar er ákveðið í lögum`` og telur að það sé merkingarlaust. Hann telur ekki hægt að bera þessi ákvæði fyrir sig í dómsmáli vegna þess að rétturinn sé eingöngu sá sem er ákveðinn í lögum. Þetta sagði viðkomandi lögmaður.

[11:15]

Við gerðum að vísu orðalagsbreytingu við meðferð málsins í þinginu og greinin hljóðar örlítið öðruvísi eins og hún stendur núna í stjórnarskránni. Núna stendur að öllum sem þessi atvik nái til skuli tryggður réttur í lögum. Það er sérstaklega tekið fram í nál. með þessu ákvæði að ekki sé um efnisbreytingu að ræða heldur sé verið að skerpa á orðalaginu. Ég tek það sérstaklega fram í framsögu með nál. að ég telji að ekki sé um efnisbreytingu að ræða. Með öðrum orðum þá standa væntanlega ummæli hæstaréttarlögmannsins um að í þessu felist engin sérstök réttindi umfram það sem áður var.

Þetta er kannski ekki heldur kjarni málsins. Það sem ég er að segja er að með þessum stjórnarskrárbreytingum varð engin grundvallarbreyting í íslenskum rétti að því er þetta varðar. Það var verið að færa þessi ákvæði í nútímalegan búning og taka tillit til alþjóðlegra skuldbindinga sem eru þó eins og við vitum öll svo almenns eðlis að þar er í flestum tilfellum eingöngu tekið fram að þeir sem eru aðilar að samningnum skuldbindi sig til þess að hafa almannatryggingakerfi með einhverjum lágmarksgreiðslum. Auðvitað vita allir að Íslendingar standa flestum öðrum þjóðum miklu framar í því efni og eru langt umfram þær lágmarksskuldbindingar sem er að finna í slíkum sáttmálum. Þess vegna er furðulegt að menn byggi kröfur sínar eða úrskurði á því að við séum undir einhverjum lágmörkum í slíkum sáttmálum.

Þetta vildi ég að kæmi fram, herra forseti, um aðdraganda þessa máls og þær breytingar sem gerðar voru á stjórnarskránni.

Í greinargerðinni með frv. til stjórnarskipunarlaga, sem síðar varð að lögum, er sérstaklega tekið fram að ekki er lögð til breyting frá gildandi reglu sem þá var að því leyti að ekki er ráðgert að sá sem geti séð nægilega fyrir sér sjálfur þurfi að njóta réttar til opinberrar aðstoðar þó svo að að sjálfsögðu sé heimilt að veita mönnum slíkan rétt með lögum. Við getum auðvitað á Alþingi veitt ótal aðilum alls kyns réttindi umfram það sem segir í stjórnarskránni. En okkur er ekki skylt að veita með lögum fólki rétt til aðstoðar ef það getur séð nægilega fyrir sér sjálft. Þetta er líka mikilvægt atriði og snertir náttúrlega það mál sem við erum að tala um. Okkur ber ekki skylda til að útvega hátekjufólki aðstoð úr ríkissjóði. Okkur ber engin skylda til þess. Ef við viljum megum við setja um það lög, en ekki er skylt að gera það.

Herra forseti. Ég kem þá að nokkrum öðrum atriðum í þessu máli en ég tel nauðsynlegt að menn hafi þennan aðdraganda nokkuð í huga, þá handvömm sem varð við lagasetninguna 1993, sem við bárum öll ábyrgð á í stjórnarmeirihlutanum á þeim tíma, þar sem er yfirlýst í dóminum að það var ekki vilji Alþingis að gera breytingar þá frá fyrrverandi framkvæmd en þar urðu mistök sem núna þarf að greiða fyrir og um það er ekki deilt. Fyrri hluti dómsorðs Hæstaréttar tekur af tvímæli í því efni.

Síðari hluti dómsorðsins er hins vegar annars eðlis. Þar er ekkert vikið að því að tekjutryggingu örorkulífeyrisþega í hjúskap megi skerða með því að telja helming samanlagðra tekna beggja hjóna til tekna lífeyrisþegans í því tilviki er maki hans er ekki lífeyrisþegi. Ekki er vikið orði að því í síðari hluta dómsorðsins. Það er eingöngu sagt að óheimilt hafi verið að skerða tekjutryggingu örorkulífeyrisþega í hjúskap frá 1. jan. 1999 skv. 5. mgr. 17. gr. viðkomandi laga. Það er ekki sagt: Sömuleiðis er viðurkennt eða tínt til í seinni hluta dómsorðsins það sem segir í fyrri hlutanum um þessar aðstæður sem verið er að fjalla um. Þetta er lykilatriði í túlkun dómsins.

Ég ætla aðeins áður en lengra er haldið að koma að því sem varðar eðli þessa dómsorðs og þess sem menn hafa verið að spyrja okkur um og segja við okkur: Af hverju borgið þið þetta ekki bara út? Það er sagt við okkur úti um allt: Af hverju er þetta ekki bara borgað, af hverju ekki bara að senda ávísanir og greiða fólki þetta? Það er vegna þess að það er ekki hægt, vegna þess að þetta er ekki aðfararhæfur dómur eins og kemur skýrt fram í honum sjálfum. Þetta er nefnilega viðurkenningardómur eins og hefur margoft komið fram og nauðsynlegt er að setja ný lög til þess að fullnægja dóminum. Það er það sem verið er að gera hérna.

Einnig vakna ýmis álitamál sem tekið er á í skýrslu starfshópsins, t.d. varðandi þá einstaklinga þar sem réttindi mundu versna ef dómurinn er túlkaður algjörlega bókstaflega um að það eigi að meðhöndla hvern og einn í hjúskap sem einstakling utan hjúskapar. Það er alveg ljóst að einhverjir aðilar færu verr út úr því en er í dag. En það er tekin afstaða til þess, bæði í skýrslu starfshópsins og í frv. ríkisstjórnarinnar, að enginn skuli verða fyrir slíku, enginn skuli tapa þannig réttindum eða verða fyrir tjóni af völdum dómsins. Það eru tiltekin dæmi um það í skýrslu starfshópsins við hvaða aðstæður það getur gerst. En litið er fram hjá því, ekki er gert ráð fyrir því að dregið sé úr réttindum þeirra örorkulífeyrisþega sem hafa notið hærri örorkulífeyris vegna hjúpskapar síns en vera mundi utan hjúskapar.

Ef menn væru samkvæmir sjálfum sér og segðu: Borgið þið bara. Þá hefðum við líka þurft að taka af viðkomandi aðilum sem þetta á við um réttindi þeirra. (Gripið fram í: Þetta er ekki rétt.) Er þingmaðurinn búinn að ljúka sér af?

Það sem er það mikilvæga að því er varðar innihald þessa dóms er að ekki er lagt bann við því að skerða tekjutryggingu öryrkja vegna tekna maka. Sagt er að það hafi ekki mátt á árabilinu fyrir 1998, 1999. En það er ekki sagt að ekki hafi mátt gera það síðan. Það er kannski ekkert skrýtið vegna þess að það er auðvitað grundvallaratriði þegar litið er til félagslegrar stöðu og efnahags að menn hafi í huga fjárhag þess fjárfélags sem verður til þegar stofnað er til hjúskapar. Eins og menn vita er í hjúskaparlögum kveðið á um sérstaka gagnkvæma framfærsluskyldu einstaklinga í hjúskap. Það er reyndar líka tekið fram í tiltekinni alþjóðlegri samþykkt sem heitir Samþykkt Alþjóðavinnumálastofnunarinnar um lágmark félagslegs öryggis frá 1953, sem vitnað er til í forsendum dómsins, að tilteknar bætur megi lækka einmitt vegna fjárráða eða tekna fjölskyldu bótaþegans við ákveðnar aðstæður sem þar er vitnað til. Mér þykir því tilvitnun Hæstaréttar í þessa samþykkt eilítið undarleg í ljósi þess sem segir í 67. gr. b í þessum sáttmála. Það er viðurkennt víðar en á Íslandi og víðar en á Norðurlöndunum að taka megi tillit til tekna maka. Þess vegna er ekkert skrýtið að það sé niðurstaðan í þessu máli að það sé áfram leyfilegt. En það er ekki leyfilegt að gera það með þeim hætti sem gert var vegna þess að farið var niður fyrir ákveðin lágmarksmörk, að því er virðist í dómi Hæstaréttar, sem samrýmast 76. gr. stjórnarskrárinnar eins og hún lítur út í dag. Með öðrum orðum, dómsorðið gengur út á að skerðingin hafi verið meiri en svo að það geti samrýmst þessu ákvæði.

Þá er verkefnið það að búa þannig um hnútana í lögunum að þessum ákvæðum sé mætt. Það verður að sjálfsögðu ekki gert nema í lögum bæði vegna þess sem segir í stjórnarskránni og hefur verið vitnað til í umræðunni að það skal gert með lögum, og líka vegna þess að engin leið er að fá neitt vit í slíkt kerfi nema það sé útlistað í lögum hvernig eigi að standa að því og eftir atvikum í reglugerð hvernig eigi að standa að slíkum greiðslum.

Þetta er lykilatriði í þessu. Verkefnið er að koma þessu máli í þann búning að það standist þessi ákvæði og dóminum sé þar með fullnægt.

Ríkisstjórnin hefur verið gagnrýnd fyrir að fá sérfræðinga til að hjálpa sér við að rannsaka þetta mál, valinkunna lögfræðinga sem hafa komist að sameiginlegri niðurstöðu um túlkun á dóminum. En það kemur í ljós þegar menn skoða málið, eins og ég veit að margir hafa nú verið að gera betur og betur í þessum sal, að það er gríðarlega flókið. Það sjá menn bæði ef þeir lesa dóminn og ekki síður ef þeir lesa skýrslu starfshópsins um þetta atriði. Upp hafa komið í sambandi við þetta ýmis álitamál sem ég hef þegar nefnt, eins og með þá sem hefðu orðið fyrir skertum réttindum vegna hugsanlegrar túlkunar á niðurstöðu dómstólsins.

Verkefnið er að leysa úr þessu með þessum hætti. Ríkisstjórnin hefur sinnt þeirri skyldu sinni með því að leggja fram þetta frv. Það er gert til þess að gera ákvæði 5. mgr. laganna, en reyndar einnig 6. og 7., vegna þess að þar eru atvik sem má með réttu jafna til þeirra atvika sem um getur í 5. mgr., gert þannig að 5. mgr. standist örugglega ákvæði stjórnarskrárinnar.

Þess vegna er það svo fáránlegt sem hér hefur verið haldið fram af löglærðum manni í þessum þingsal, hv. þm. Lúðvíki Bergvinssyni, að 5. mgr. hafi fallið úr gildi. (Gripið fram í.) Ekki er hægt að halda því fram að þessi ákvæði séu úr gildi fallin. Það þarf að laga þau, það er það sem við erum að gera. Ef 5. mgr. hefði verið úr gildi fallin, eins og ég heyrði ekki betur en hann segði í gær, þá hefði ekki mátt borga neitt út samkvæmt ákvæðum 5. mgr.

[11:30]

Það sem athugavert er við 5. mgr. samkvæmt dóminum er sá efnisþáttur í þessu ákvæði sem gerði bæturnar lægri en svo að þær stæðust ákvæði 76. gr. stjórnarskrárinnar. Það var það sem var athugavert og það var það sem dómurinn fellir úr gildi.

Að því er varðar þetta verkefni sem við höfum fengið upp í hendurnar varðandi niðurstöðu dómsins þá er ljóst að útbúa þarf þetta frv. þannig að það standist þessi ákvæði en þó þannig að lágmarksgreiðslan sem Hæstiréttur telur greinilega að þurfi að vera hærri en hún er í dag, sé réttilega til fundin, að hún sé með þeim hætti að hún geti talist vera fullnægjandi sem lágmarksgreiðsla. (Gripið fram í.) Og þá kemur upp spursmálið: Við hvað á að miða í því efni? Við hvað á að miða almennt þegar verið er að ákveða upphæð tekjutryggingar, hv. þm.? Við hvað á að miða almennt í því efni? (Gripið fram í.)

Viðmiðunin í því efni er þá: Hvað fær einstaklingur í sinn hlut sem tekjutryggingu? Það er það sem menn hafa margnefnt hér í salnum, 51 þús. kr. þegar búið er að bæta tekjutryggingunni ofan á grunnlífeyri. Hvað á þá einstaklingur í hjúskap að fá þegar tekið er tillit til þess lögmæta sjónarmiðs að skerða megi tekjutryggingu hans með tilliti til tekna maka? Þetta er vissulega umhugsunarefni.

Niðurstaðan í því varð sú að á bilinu frá 18 þús. kr. sem menn gátu mest farið niður í síðast og upp í 51 þús. var staðnæmst við 43 þús. kr. sem eðlilegt frávik frá 51 þús. (Gripið fram í: Eðlilegt frávik!) Og þá verða menn líka að hafa í huga t.d. að grunnlífeyrir hjóna er skertur vegna hjúskapar þeirra og fleiri slík atriði. En auðvitað eru hvorki á bak við þessa tölu frekar en sjálfa tekjutryggingarupphæðina einhver sérstök reiknivísindi. Það er það auðvitað ekki. Það var það ekki þegar hv. þm. Össur Skarphéðinsson sat í ríkisstjórn og var að fjalla um þessar tölur sem ráðherra, eða þegar hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson var heilbrrh. og bar ábyrgð á þessum tölum. En þetta er hins vegar hækkun úr 18 þús. upp í 43 þús., u.þ.b. 140% sem er gríðarlega mikil hækkun og uppfyllir alveg örugglega að mínum dómi kröfur Hæstaréttar um þetta ákveðna lágmark. Alveg örugglega.

Eitt atriði enn sem hér hefur borið mjög á góma og kannski ég bæti við út af ummælum hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar hér í gær og fleiri þingmanna að fólk í hjúskap verði hvort eð er fyrir skerðingu vegna þess að það missir heimilisuppbótina og sérstöku heimilisuppbótina og þar með sé komin skerðing miðað við hjúskap og það sé fullnægjandi ef miða eigi við hjúskaparstöðuna. En þessar bætur eru ekki sama eðlis og tekjutryggingin og þær eru reyndar eingöngu miðaðar við einhleypa en það eru ekkert allir einhleypir sem fá þessar bætur, þannig að þetta á ekki við. Það eru ekki allir sem fá þær, þetta eru heimildarbætur, það er rétt hjá hv. þm., þannig að þetta er ekki sama eðlis og tekjutryggingin, enda er ekkert um það fjallað í hæstaréttardóminum sem snýr eingöngu að tekjutryggingunni. Og dómurinn segir að það sé í lagi að skerða hana (SJS: Nei.) samkvæmt okkar túlkun. (SJS: Það stendur hvergi í ...) (Forseti hringir.)

(Forseti (GuðjG): Forseti biður hv. þingmenn að leyfa ræðumanni að flytja mál sitt án frekari truflana. Það er allt of mikið snakk og gjamm hér í salnum meðan verið er að flytja ræður.)

Það er túlkun okkar á þessum dómi að heimilt sé að skerða tekjutrygginguna sem er hér til umræðu, en hvorki heimilisuppbót né sérstaka heimilisuppbót, með tilliti til tekna maka. Þannig að tilvitnanir í hinar bæturnar eiga ekki við um þetta.

Að því er varðar fyrninguna og þau atriði sem menn hafa verið að gagnrýna, þá tala menn dálítið á þá leið eins og fyrirliggjandi sé eitthvert úrval af fyrningarkostum sem menn geti bara valið sér úr og ákveðið sisona: Við skulum þá bara hafa þetta tvö ár, fjögur ár, sex ár, átta ár, tíu ár. En það er ekki þannig vegna þess að það er alveg skýr regla í lögum um fyrningu af þessu tagi og þá gildir hún en ekki eitthvert huglægt mat á því hvað menn hefðu kannski viljað miða við.

Þetta er í rauninni ósköp einfalt og ég tel satt að segja að handhafar fjárveitingavaldsins þyrftu líka að skoða svolítið hug sinn gagnvart greiðslum úr ríkissjóði sem eru fyrndar samkvæmt lögum. Telja menn það í alvöru skyldu sína og rétt að inna af hendi greiðslur úr ríkissjóði sem samkvæmt lögum eru fyrndar? Ég held að menn ættu aðeins að hugleiða hvað þeir eru að segja þegar þeir halda því fram.

Ég tel, herra forseti, að þetta mál sé í rauninni afskaplega skýrt þegar búið er að fara yfir alla efnisþætti þess og dómsorðið, sem eins og ég hef margsagt, er tvíþætt og það er enginn að gera ágreining um fyrri hlutann. En ef hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon og aðrir hér inni eru svona vissir í sinni sök að því er varðar túlkunina á síðari hluta dómsorðsins, sem er náttúrlega kjarni málsins varðandi frammíkall hans hér áðan, af hverju skyldi þá ekki standa í dómsorðinu jafnskýrum stöfum og hann telur sig geta fullyrt hér það sem hann er að segja? (Gripið fram í.) Það stendur ekki. (SJS: Stefnan liggur fyrir.) Það stendur ekki. Þetta er því bara svona. Það er ekkert hægt að lesa í þetta annað en þarna stendur. (LB: Dómurinn staðfestir stefnuna.)

(Forseti (ÍGP): Má ég biðja hv. þingmenn um að gefa ræðumanni hljóð.)

Ég fer að ljúka máli mínu, þá komast þeir að hér. Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta, herra forseti. Ég tel að búið sé að greina í sundur þetta flókna mál mjög skýrt í skýrslu starfshópsins. Og frv. ríkisstjórnarinnar byggir á skýrslunni, þó með einu fráviki sem menn hafa kannski ekki tekið eftir en það er eitt frávik frá skýrslunni sem ekki er kannski veigamikið en eykur réttindi ákveðinna aðila við ákveðnar aðstæður sem nánar er tilgreint í frv. En það var ákvörðun ríkisstjórnarinnar að bæta þar heldur við frekar en að staldra eingöngu við tillögur starfshópsins í því efni, enda segir í skýrslunni að ef menn vilji bæta einhverju frekara við sé það auðvitað pólitísk ákvörðun.

Ég tel mjög brýnt, herra forseti, að þetta mál verði afgreitt hratt þannig að hægt sé að borga út samkvæmt þessum dómi um mánaðamótin, sem okkur ber að hlíta hvort sem okkur líkar innihald hans eða ekki. Ég segi það fyrir sjálfan mig og sem flm. þeirra tillagna sem ég reifaði áðan frá 1995, að túlkun dómstólsins á þeim ákvæðum kemur mér á óvart, ég er ekki sammála þeim. En ekki kemur annað til greina en að fara eftir þessu áliti, þessum dómi. Ég hef mínar hugmyndir um hver var vilji stjórnarskrárgjafans í því efni á sínum tíma. Dómstóllinn túlkar þetta svona núna, ég tel að það sé undarleg túlkun en við hana búum við eins og kunnugt er.

Við þurfum að ljúka þessu máli. Það þarf að afgreiða þetta þannig að Tryggingastofnun fái skýr fyrirmæli um að hún eigi að greiða út samkvæmt þessu. En ástæðan fyrir því m.a. að hún gat ekki greitt út var að hún hafði hvorki lagafyrirmæli um það né dóm sem sagði fyrir um hvernig hún ætti að borga þetta út vegna þess að ekki var hægt að byggja rétt einstaklinga á þessum dómi, eins og segir í honum sjálfum, heldur var hér eingöngu um að ræða viðurkenningu á ákveðnum almennum sjónarmiðum.