Almannatryggingar

Fimmtudaginn 18. janúar 2001, kl. 11:44:55 (3882)

2001-01-18 11:44:55# 126. lþ. 61.1 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 126. lþ.

[11:44]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Herra forseti. Þarna fer hv. þm. enn einu sinni rangt með því að hann vitnar ekki í rétt ákvæði stjórnarskrárinnar. Hæstiréttur vitnaði ekki í ákvæðið um jafnan rétt og jafna stöðu. (ÖS: Í lög.) Hæstiréttur vitnar í 65. gr. stjórnarskrárinnar um að allir skuli jafnir fyrir lögunum, sem er orðalag sem við vorum með í höndunum á sínum tíma. Það er því betra fyrir þingmanninn að temja sér að fara rétt með.

Hann hefur ekki rökstutt þetta með skrautfjaðrirnar sem hann talaði um í gær. (Gripið fram í: Hvað er að því?) Hann hefur ekki dregið til baka það sem ég sagði. Hann vitnaði í gær rangt í mál mitt frá 1995. Honum er náttúrlega alveg sama um það.

En kjarni málsins er auðvitað sá varðandi þetta að ekki var verið að gera neinar grundvallarbreytingar frá þeim rétti sem þá var við lýði og var gildur. Það kemur þess vegna á óvart að það skuli hafa verið túlkað svo að þar hafi orðið einhver grundvallarbreyting.