Almannatryggingar

Fimmtudaginn 18. janúar 2001, kl. 12:01:32 (3896)

2001-01-18 12:01:32# 126. lþ. 61.1 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, RG
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 126. lþ.

[12:01]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Herra forseti. Það er með ólíkindum hvað Sjálfstfl. hefur verið með ósæmilegan málflutning í þessari umræðu. Sérstaklega á það við um formann Sjálfstfl. Hann hélt langa ræðu hér í gær sem var eiginlega samhangandi skítkast um aðra og honum tókst að komast í gegnum þessa löngu ræðu án þess að koma nokkru sinni að efni málsins sem hér er til umræðu. Það er athyglivert og hefur vakið athygli þeirra sem hafa orðið sér úti um ræðuna og lesið hana yfir aftur.

Nú er ljóst að menn hafa sett hér alveg óvart svo sterkt mannréttindaákvæði í stjórnarskrána að Hæstiréttur hefur byggt úrskurð sinn á þeim ákvæðum og hittir nú ríkisstjórnina fyrir og nú hafna þeir bæði því að hafa ætlað að setja þessi mannréttindaákvæði í stjórnarskrá, hvað þá heldur að það eigi að leggja þau til grundvallar dómi eins og Hæstiréttur hefur gert og það er með ólíkindum hvernig Sjálfstfl. talar um dóm Hæstaréttar og í raun virðir ekki úrskurð þessa æðsta dómsvalds.

Þetta eru þau viðbrögð sem maður situr með í upphafi umræðu annan dag sem umræða stendur á Alþingi um þetta stóra mál sem á við mannréttindi og fjallar um viðbrögð stjórnvalda við úrskurði sem Hæstiréttur hefur fellt við kröfugerð Öryrkjabandalagsins sem hefur komist alla leið fyrir Hæstarétt og gleymist af og til í þessari umræðu það ferli sem hér hefur átt sér stað.

Herra forseti. Ég ætla að hefja mál mitt á því að flytja Ingibjörgu Pálmadóttur, hæstv. heilbrrh., kveðjur mínar og Samfylkingarinnar með ósk um skjótan og góðan bata. Auðvitað söknum við þess að hún er ekki hér í umræðunni í dag. Hún er að sjálfsögðu í krafti embættis síns lykilmanneskja í að svara ýmsum áleitnum spurningum sem hafa vaknað í þessari umræðu og ekki allar kannski hlotið skýr svör. Ég fagna því að hæstv. utanrrh., formaður Framsfl., er við umræðuna. Ég geri mér grein fyrir því að hann mun leitast við að svara þeim spurningum sem hér verða bornar fram og mundu hafa verið bornar fram til bæði Framsfl. og heilbrrh.

Herra forseti. Ég ætla að byrja á því að renna enn á ný yfir það hvaða bótaflokkar falla til öryrkja í dag. Mér hefur stundum fundist að umræðan sé á þá lund að menn forðist að horfast í augu við hvernig við greiðum til öryrkja. Það er í fyrsta lagi grunnlífeyririnn sem hefur verið og þróast í að verða mjög lágur og tekjutrygging. En þetta tvennt, grunnlífeyrir og tekjutrygging hefur myndað þann grunn bótaflokks sem við yfirleitt miðum við þegar við erum að tala um greiðslur úr almannatryggingum til öryrkja. Þar að auki eru viðbótarheimildargreiðslur sem heita heimilisuppbót og sérstök heimilisuppbót. Eins og fram hefur komið í þessari umræðu falla þær greiðslur eingöngu til einstaklinga og geta ekki fallið til þeirra sem eru í hjúskap. Það hefur líka komið fram að þessar fjárhæðir eru um 22 þús. kr. og sá sem er í hjúskap fær þær aldrei.

Herra forseti. Ég vil líka rifja það upp að tekjutrygging kom inn í almannatryggingarnar árið 1971 og var strax þá tengd bæði tekjum lífeyrisþegans sjálfs og tekjum maka hans samkvæmt reglugerð sem átti stoð í lögum og það er 1977 sem Matthías Bjarnason setur reglugerð um tekjutengingar og gildir hún til 1995 þegar hæstv. heilbrrh. Ingibjörg Pálmadóttir setur nýja reglugerð um þessar tekjutengingar.

Eins og hér hefur verið rætt og nú síðast í ræðu fjmrh., sem flutti það mál alveg einstaklega smekklega eða hitt þó heldur, voru sett ný lög um almannatryggingar og félagslega aðstoð árið 1993 og var þá verið að skipta almannatryggingalögunum í tvennt og tóku þau tvenn lög gildi í upphafi árs 1994. Það er auðvitað umhugsunarefni að ráðuneytið áttaði sig ekki á því að við þessa breytingu féll reglugerðarheimild niður en það er miklu alvarlegra að mínu mati að Alþingi hafi ekki áttað sig á því og segir okkur nokkuð um það í hvaða stöðu Alþingi lendir oft og minnir okkur á umræðu sem oft hefur farið hér fram um að það sé í raun mikilvægt að reglugerðir sem settar eru í kjölfar laga komi hingað til Alþingis og til fagnefnda. Það þýðir ekkert fyrir Alþingi sem slíkt að fría sig ábyrgð. Ef vanbúið frv. af einhverjum orsökum kemur hingað inn og hlýtur ekki lagfæringu hér í meðferð Alþingis þá er ábyrgðin Alþingis sjálfs. Það er frammi fyrir slíku dæmi sem við stöndum í dag að Alþingi hefur sett lög og hefur verið snuprað fyrir af Hæstarétti.

Allir dómarar Hæstaréttar voru sammála um að ekki hafi verið heimilt að tekjutengja við tekjur maka frá 1995 til ársbyrjunar 1999 þegar lögin tóku gildi sem sett voru 1998. Og meiri hluti Hæstaréttar kvað upp sinn úrskurð sem, eins og heilbrrh. orðaði það í umræðunni hér í gær, var á þá leið að Hæstiréttur dæmir gjörning löggjafans ómerkan. Þetta er grundvallarsetning og hún féll úr munni hæstv. heilbrrh.: ,,Hæstiréttur dæmir gjörning löggjafans ómerkan.``

Í kjölfar þessa hafa menn endalaust verið að velta fyrir sér orðalagi og ákvæðum í lögum og hvort ákvæðin í heilu lagi falli brott eða ekki, hvort þá falli brott grunnur til þess að greiða öryrkjum út frá 1. janúar eða ekki. En ég tek undir nákvæmlega þetta orðalag hæstv. heilbrrh., að Hæstiréttur dæmir gjörning löggjafans ómerkan.

Þetta þýðir í fyrsta lagi að Hæstiréttur viðurkenndi að ekki hefði verið lagastoð fyrir reglugerð sem tók gildi 1. janúar 1994 um skerðingu tekjutryggingar öryrkja vegna tekna maka og hins vegar að lög um slíka skerðingu sem tóku gildi 1. janúar 1999 væru andstæð mannréttindaákvæðum stjórnarskrárinnar. Um þetta var tekist á og Hæstiréttur klofnaði. Meiri hlutinn kemst að þessari niðurstöðu. Meiri hluti Hæstaréttar úrskurðar að gjörningur löggjafans hafi verið ómerkur 1998.

Við verðum að horfast í augu við þetta. Þetta er staðan sem Alþingi stendur frammi fyrir. Svo geta menn hártogað orðalag og ákvæði 17. gr., 5. mgr. 17. gr., og hvort þessi eða hin staðan væri uppi ef hún félli brott. Það vita allir að eftir að dómar hafa fallið og einhver ákvæði hafa ómerkst þá gerist það mjög oft að ákvæðið stendur eftir í lögum í þó nokkurn tíma. Ég er ekki löglærð og ætla ekki að hætta mér út í að fara í ítarlega umræðu um þetta. En þetta eru staðreyndir sem margoft hefur verið bent á.

Það er óþolandi fyrir okkur sem berum ábyrgð á lagasetningu Alþingis þegar svo er komið að menn koma hér aftur og aftur með útúrsnúning vegna þess að það er pólitísk ákvörðun þeirra að bregðast ekki við dómnum eins og hann fellur. Þeir hafa leitað halds í örfáum orðum í úrskurðinum, orðum sem eru eitthvað á þessa leið: ,,á þann hátt``, og geta alveg jafnt vísað til skerðingar tekjutryggingarinnar og munu vísast gera það fremur en nokkurs annars.

Herra forseti. Ég ætla að fara yfir umræðu sem átti sér stað 1998 og bera fram spurningar til formanns Framsfl. í tilefni af því. Þessar umræður urðu eftir að hæstv. heilbrrh. lýsti því yfir að það væri réttlætismál að breyta tekjutengingu tekjutryggingarinnar. Það er alveg ljóst að heilbrrh. hafði það viðhorf þá, eftir umræðu sem hafði orðið, að það bæri að miða að því að tekjutryggingin væri ótekjutengd. Munum að á þessum árum var ekki neitt okkar að tala um krónutölur heldur að tekjutrygging væri ótekjutengd.

Á aðalfundi Tryggingastofnunar ríkisins 1998 kom hæstv. heilbrrh. með ákveðna yfirlýsingu og sú yfirlýsing varð tilefni fyrirspurnar í þessum sal: Það var spurt um afnám skerðingar bóta til öryrkja. Þá svaraði hæstv. heilbrrh. mjög afdráttarlaust og sagði:

,,Á aðalfundi Tryggingastofnunar ríkisins og reyndar einnig í byrjun september gaf ég þá yfirlýsingu að nú í haust mundi ég stíga fyrstu skref til að afnema skerðingu bóta öryrkja vegna tekna maka.``

Við höfum verið að takast hér á um orðalag og þess vegna er fyrsta spurning mín til hæstv. utanrrh. og formanns Framsfl.: Hvernig skilja menn orðið ,,afnema``? Er það ekki fyrsta skref í því að hætta algjörlega að vera með tekjutengingu eða skerðingu tekjutryggingar?

Það var alveg ljóst að ráðherrann var að gefa það til kynna að þetta væri fyrsta skref og að þessu skrefi mundu fylgja önnur þar til skerðingar væru afnumdar. Þetta er mjög mikilvægt vegna þess að þarna er líka verið að spyrja ráðherrann hvað þetta kosti og á þeim tíma var þetta talið um 20 millj. kr. á mánuði og uppreiknað til ársins 1998 og það á nokkuð við þær fjárhæðir sem við höfum verið að vinna með. Það er dæmalaust að menn skuli fara í slíkt allsherjarstríð við öryrkja vegna þessara fjárhæða sem um ræðir, eitthvað yfir 200 milljóna, á ári eftir að stefnumörkun hefur verið tekin um að afnema þessar skerðingar að fullu og kalla yfir sig andúð yfir 80% þjóðarinnar í kjölfarið. Það er alveg ljóst að viðbrögð Sjálfstfl. í þessum sal og hvernig Sjálfstfl. hefur brugðist við þessari umræðu ráðast auðvitað af þessum hörðu viðbrögðum sem hafa orðið úti í þjóðfélaginu. Og það þýðir ekkert að koma hér og tala um að menn hafi verið með upphlaup, upphrópanir og æsing og að þess vegna sé fólk afvegaleitt. Allir vita um hvað málið snýst. Sjaldan hefur komið upp mál hér á Alþingi þar sem jafnalmenn umræða er um stöðuna. Fólk veit um hvað málið snýst og það er að bregðast við því. Auðvitað skil ég vel að það skuli fara í taugarnar á þessum stóra flokki sem hefur haft hérna eins konar alræðisvald.

Spurning til formanns Framsfl.: Ætlaði Framsfl. að afnema skerðinguna á einhverjum tíma til öryrkja alveg eða er þetta mismæli hæstv. heilbrrh.? Eða stóð hún ein að þessari ákvörðun? Það er lykilatriði að þingmenn fái svör við þessum spurningum af því að ef svarið er já, eins og ég álykta, þá er sú staða sem uppi er nú þessa daga gagnvart öryrkjum fullkomlega dæmalaus sem og allt sem hefur gerst frá því að hæstaréttardómurinn féll.

Ég vil bera fram enn aðra spurningu til formanns Framsfl. Menn hafa verið að kasta fram dagsetningum varðandi útborgun til öryrkja og það ber á því í þessari umræðu að verið sé að tala um að umræðunni þurfi að fara að ljúka því að þarf að fara að greiða út til öryrkja samkvæmt nýjum lögum sem ríkisstjórnin ætlar að setja. Þess vegna spyr ég: Hver er nákvæmlega sú dagsetning lagasetningarinnar sem ræður úrslitum um að útborgun verði 1. febrúar? Er það ekki alveg ljóst að ef lagasetningin dregst um einn dag þá dregst útborgunin um einn dag? Það er mjög mikilvægt að við fáum svör við því hvort Tryggingastofnun sé ekki alveg viðbúin því að taka við lögunum héðan þegar þau koma.

Ég ber ekki fram þessar fyrirspurnir vegna þess að ég telji ástæðu til að draga umræðuna. Ég hef látið það í ljós að ég telji mjög líklegt að henni ljúki hér einhvern tíma dagsins og það er mjög eðlileg lengd umræðu í svo stóru máli. En þessi svör vil ég fá.

[12:15]

Herra forseti. Hæstv. forsrh. Davíð Oddsson ætlaði að nota þessa viku í þinginu til að vera með upplýsta umræðu um hæstaréttardóminn, um pólitíkina að baki viðbrögðum stjórnarflokkanna. Hann notaði 40 mínútur í þingsalnum í gær í fullkominn leðjuslag. Ég hef alltaf vitað að þegar á reynir er ekki mikil reisn yfir hæstv. forsrh. en honum tókst enn einu sinni að koma mér á óvart í gær.

Hann veittist líka að formanni Samfylkingarinnar við það að hann brá sér út úr salnum í eins og hálfa mínútu og gerði það að umtalsefni að hann hlypi til ef einhver orð féllu hér til að sækja sér upplýsingar. Sleggjudómur að sjálfsögðu. En eftir að hann lauk ræðu sinni í gær í þessu stóra máli hefur hann varla sést í þingsölum. Ég veit að forsrh. velur oft að sitja afsíðis einn og sér og hlýða á umræður og láta ekki sjá sig. Það er í takt við aðra hegðan hans í samskiptum við fólk og ég bið ekki um hann, hæstv. forseti, hingað í þennan sal. En ég vek athygli á þessu vegna þess að þessi fyrirliði ríkisstjórnarinnar hafði gefið þau fyrirheit að hann mundi nota viku í upplýsta umræðu.

Hver er svo sú upplýsta umræða sem við höfum fengið frá öðrum í stóra flokknum? Það hefur margoft komið fram að kakan stækkar ekki með dóminum. Kakan --- lesist: fjárhæðir til öryrkja, fjárhæðir í greiðslur til öryrkja, hvort sem þeir eru einir, búa einir, hvort sem það er í lágmarksgreiðslu til öryrkja eða í greiðslu til þeirra í sambúð --- stækkar ekki. Þeim sem finnst að það eigi að standa við þennan hæstaréttardóm eru að taka af kökunni til þeirra sem meira hafa. Þetta er auðvitað fráleit umræða sem hefur farið fram en hún hefur verið endurtekin hér.

Í máli þeirra hv. þm. Ástu Möller og Þorgerðar K. Gunnarsdóttur kom fram hjá báðum að ef farið hefði verið í 51 þús. kr. greiðslur til öryrkja í samræmi við hæstaréttardóminn væri verið að viðurkenna að ekki megi tekjutengja tekjutrygginguna, sem var úrskurður Hæstaréttar. Ef menn hefðu farið í 51 þúsund kr. væri verið að viðurkenna að ekki megi tekjutengja tekjutrygginguna. Það lesist: Það viljum við í Sjálfstfl. ekki viðurkenna. Við viljum ekki viðurkenna að Hæstiréttur geti kveðið upp úrskurð sem segir okkur fyrir verkum. Það segir enginn Sjálfstfl. fyrir verkum.

Hv. þm. Ásta Möller gekk lengra þar sem það kom fram hjá henni að slík viðurkenning hefði haft afleiðingar gagnvart öðrum. Slík viðurkenning hefði haft afleiðingar gagnvart öðrum. Enginn vafi er á því að í þeim talnaæfingum sem við höfum orðið vitni að hjá stjórnarmeirihlutanum felst að verið er að reyna að afstýra því að aldraðir fari fram og sæki þann sama rétt og öryrkjar kröfðust og fengu með úrskurði Hæstaréttar.

Við höfum hins vegar ítrekað spurt: Af hverju 43 þús. kr.? Svör við því hafa ekki enn komið hjá stjórnarliðum úr þessum ræðustól.

Eitt af því sem pirraði hæstv. forsrh. yfirmáta mikið var að hér var talað um að hann hefði sett yfirdómara til verka. Ég ætla ekki að nota það orð. Ég þarf þess ekki vegna þess að öll þjóðin upplifir að sá einstaklingur, sá löglærði einstaklingur sem settur var til að stýra nefnd forsrh., hafi eiginlega verið settur yfir Hæstaréttinn og til þess að úrskurða um Hæstaréttinn. En ég get ekki stillt mig um að endurtaka það sem hefur verið bent á í umræðunni en það er það sem viðkomandi lögfræðingur sagði ekki í einu viðtali heldur í viðtölum við tvö dagblöð, annars vegar DV og hins vegar Dag. Í helgarblaði Dags sagði hann:

,,En það getur ekki verið hlutverk dómstóla að ákveða að ekki eigi að miða svona styrki við tekjur maka. Það er þetta sem ég hef gagnrýnt við þennan dóm. Dómstóllinn var að þessu leyti að taka sér vald sem hann á ekki að hafa.``

Þetta eru orð nákvæmlega tekin upp úr viðtalinu.

Í helgarblaði DV sagði sami lögfræðingur að dómstóllinn hafi gengið lengra en heimilt geti talist og bætti við: ,,Það verða til mikil vandamál þegar dómstólar taka að móta reglur sem á undir löggjafann að setja.``

Þarna var lögfræðingurinn að segja að dómstóllinn hafi ekki aðeins ákveðið að ekki eigi að miða svona styrki við tekjur maka heldur hafi hann einnig mótað reglur. Ég er ekki að segja það. Ég er að benda á hvað lögfræðingurinn, sem allir upplifa að hafi verið settur yfir allt sem dómar geta talist, hefur verið að segja um Hæstarétt.

Hins vegar upplifi ég það að því fylgir fullkomin niðurlæging að ríkisstjórnin skuli hafa ákveðið að láta einhvern hóp fara að túlka niðurstöðu Hæstaréttar. Sett er fram krafa í þessu tilfelli af öryrkjum, dómur fellur, Hæstiréttur landsins er ásakaður um pólitíska íhlutun. Pólitísk nefnd er sett til að greina og túlka efni dómsins sem fjallar um mannréttindabrot. Þannig er það. Herra forseti. Frá mínum bæjardyrum séð er þetta fyrst og fremst niðurlægjandi fyrir þá flokka sem eiga hlut að máli og ég er alveg sannfærð um að þessa verði minnst í pólitísku sögunni. Ég er alveg sannfærð um það.

Ég sagði í andsvari í gær að hæstv. forsrh. hefði aldrei rætt inntak dómsins. Hann hefði spilað ákveðnum lögfræðingi inn í málið og látið það snúast um lögfræði. Auðvitað sneri forsrh. strax út úr því af því að dómurinn er í eðli sínu lögfræðilegt álitaefni sem er tekið fyrir. Ég á að sjálfsögðu við að velferðarstefna hefur aldrei verið í umræðunni, mannréttindaumræða eða jafnréttisviðhorf ekki heldur, ekki af hálfu hæstv. forsrh. Ekki heldur umræða um réttinn til grunnframfærslu eða hvaða breytingar hafi orðið á framfærsluhugtakinu, hvort heldur er við aðild okkar að mannréttindasáttmálum eða með þeim breytingum sem við gerðum sjálf á stjórnarskránni. Aldrei. Hvað var þá verið að gera? Ég hef líka haft orð yfir það: Það var verið að klæða afturhaldið í pólitíkinni í lögfræðibúning. Það hefur staðið yfir lögfræðilegt málþóf í stað efnisumræðu þessa viku síðan dómurinn féll, þ.e. þegar stjórnarmeirihlutinn hefur átt hlut að máli.

Ég lít líka svo á að Hæstiréttur hafi snuprað Alþingi. Stjórnarmeirihlutinn setti nefnilega lög 1998 þrátt fyrir afdráttarlausar ábendingar um að það væri varhugavert, m.a. ábendingar lögfræðinga um að ný stjórnarskrárákvæði heimiluðu ekki að setja slík ákvæði í lög. Það hefur komið fram í umræðunni í orðaskiptum við hæstv. fjmrh. sem fór frekar ósmekklega inn á þessa braut og ég harma það nú vegna þess að ég met hæstv. fjmrh. nokkuð mikils einmitt fyrir málefnalegan og heilsteyptan málflutning. En ég skil vel að menn falli í þennan farveg þegar leiðtoginn hefur talað með þeim hætti sem hann hefur gert.

Það var þess vegna með opnum huga og fullum pólitískum vilja stjórnarmeirihlutans á Alþingi að hann fór sínu fram og óháð stjórnarskrárumræðu við lagasetningu 1998 setti hann þessi lög, af því að meiri hlutinn hefur alltaf farið sínu fram í sölum Alþingis og meiri hlutinn lítur á sig sem alvaldan. Það er einmitt orð sem vel metinn lögfræðingur úti í bæ hefur ítrekað nefnt í umfjöllun sinni í fjölmiðlum að meiri hluti á Alþingi sé ekki alvaldur og hann verði að gera sér grein fyrir því. Það hefur núverandi meiri hluti aldrei gert. Hann lítur á sig sem alvaldan og hann leit þannig á málin 1998 þegar hann setti þessi lög.

Mér finnst líka umhugsunarefni, herra forseti, að forustumenn stjórnarliðsins segja nú blákalt að það sé ágætt ef menn hafi efasemdir um heimild til þessarar lagasetningar, þeir fari bara með nýju lögin líka fyrir Hæstarétt og Hæstiréttur túlki hvort þau séu í lagi. Ég verð að segja að mér finnst þetta grín á hv. Alþingi. Þetta upplýsti formaður heilbr.- og trn., formaður þeirrar nefndar sem mun fá þetta frv. til umræðu, nýverið í hádegisfréttum. Í fyrsta lagi að frv. muni engum breytingum taka þrátt fyrir gagnrýni, yfirlýsing áður en þing kom saman, af einum þingmanni, forustumanni stjórnarliðsins og formanni nefndar: Frv. mun engum breytingum taka í meðförum Alþingis. Menn hafa ekki oft tekið svo stórt upp í sig fyrir fram. Svo hvatti hún til þess að aðilar málsins færu bara með nýju lögin fyrir dómstóla og upp í Hæstarétt ef þeir teldu að þau mundu ekki standast ákvæði Hæstaréttar. Þetta er líka alveg nýtt í umræðunni á Alþingi. Við setjum samt lögin. Í annað skipti skulum við gera eins og við viljum og farið þið bara með það fyrir Hæstarétt. --- Er þetta það sem koma skal?

Herra forseti. Mér er ekki tamt að vera ekki í málefnalegri umræðu þegar ég er að ræða á Alþingi um aðskilin mál. Ég býst frekar við því að umsögn um þá sem hér stendur væri nákvæmlega um það: Frekar málefnaleg, heldur sig við staðreyndir. Ég ætla aðeins að brjóta út af því núna og það er vegna ræðu hæstv. forsrh. í gær. Ég ætla aðeins að fjalla um stílinn í þinginu og stílinn þegar verið er að koma fram fyrir þjóðina og þegar verið er að nota boðvaldið sem sá ágæti hæstv. fyrirliði ríkisstjórnarinnar hefur tamið sér.

Það er nefnilega þannig að hann hefur ekki bara beitt öðrum fyrir sig í lögfræðilegu málþófi heldur er það þannig að hann mætir ekki jafningjum á jafnréttisgrundvelli, hvorki í þessum sal né utan hans. Þannig er að hæstv. forsrh. hefur fullkomlega brugðið út frá þeirri reglu fyrirrennara síns, eftir að fjölmiðlar af þeim toga sem við þekkjum komu til, að mæta öðrum, t.d. formönnum eða fyrirliðum stjórnmálaflokka, í umræðu. Hæstv. forsrh. mætir bara einn í þætti, annaðhvort einn eða ekki. Um þetta er talað úti í þjóðfélaginu. Hann mætir bara einn í Kastljós. Svo segir hann þar ákveðna hluti og hann staðhæfir ýmislegt sem enginn er til að andmæla honum með eftir að staðhæfingarnar hafa komið fram. Þá komum við stjórnmálamennirnir og bregðumst við því sem hann er að segja, sérstaklega þegar hann leyfir sér að fara með rangt mál. En þá erum við auðvitað í þeirri stöðu að við erum að elta hann uppi.

Svo rammt kveður að þessu, herra forseti, að hæstv. forsrh., sem er í þeirri glæsilegu stöðu að stýra miklum meiri hluta á Alþingi, geta alltaf gert það sem hann vill, geta leyft sér að vera alvaldur í pólitíkinni, hann ber sig þannig að að hann kemur ekki til umræðu með öðrum. Hann tekur ekki pólitískan debatt, hann kemur hingað og flytur ræðu og abbast út í það að aðrir hverfi úr salnum og fljótlega eftir að hann hefur lokið ræðunni þá hverfur hann úr sal. Hæstv. forsrh. mætir ekki öðrum í umræðuþáttum og m.a.s., og að því er gert grín í dag, mætir hann ekki í kryddsíldina fyrr en í miðjum þætti og mætir þá eins og prímadonna og þarf að láta rifja upp umræðuna. En það er af því að hann er að taka upp ræðuna fyrir gamlárskvöldið en hann, hæstv. forsrh., virðist ekki hafa tök á því að sjá til þess að hún sé tekin upp á öðrum tíma.

Ég geri mér alveg grein fyrir því að með því að fara hér og nú í smápistil um stíl hæstv. forsrh. --- sem ég gleðst afar mikið yfir að er mættur hér og hefur greinilega verið afsíðis í herbergi í húsinu og komið hér til að heiðra mig --- hef ég brugðið út af því að vera málefnaleg í umræðu á þinginu og tekið smápistil um stíl forsrh. sem hann hefur að sjálfsögðu fullan rétt á. En þetta, herra forseti, eru menn farnir að tala um úti í þjóðfélaginu og á einhverjum tímapunkti geri ég ráð fyrir því að þetta breytist vegna þess að það er einu sinni þannig að þegar menn finna gagnrýni á stíl sinn þá breyta þeir honum gjarnan. En þetta hef ég tilefni til að nefna hér, sérstaklega eftir ræðu hæstv. forsrh. í gær.

[12:30]

Ég vek einnig athygli á því, herra forseti, að forsrh. sagði eins og ýmsir aðrir þingmenn stjórnarliðsins að þessi lög yrðu borin upp aftur við dómstólana ef mönnum sýndist svo. Sem sagt --- kærið þið bara aftur.

Herra forseti. Ég ætla þá að snúa mér að efnisatriðum málsins á ný. Ég ætla að fara aðeins yfir það í síðasta hluta ræðu minnar hvort aðrar greiðslur úr sameiginlegum sjóðum okkar séu meðhöndlaðar með sama hætti og settar undir sama kvarða og það sem við höfum rætt hér í kjölfar öryrkjadómsins. Skoðum það.

Hvað gerist þegar einstaklingur verður atvinnulaus? Hann fer og skráir sig og fær atvinnuleysisbætur. Hvernig kemur það mál út ef hann er giftur eða kvæntur hátekjueinstaklingi? Rýrast þá ekki greiðslurnar sem hann fær sem nemur því hversu heimilistekjur eru háar? Nei. Atvinnuleysisbæturnar eru 66.635 kr. á mánuði og 123 kr. á dag fyrir barn undir 18 ára aldri. Frá þessu dragast lífeyrisjóðsgreiðslur og stéttarfélagsgjöld þannig að greiðslan fer niður undir skattleysismörkin hvort sem það er tilviljun eða meðvitað að sá sem er atvinnulaus fái lágmarksgreiðsluna eins og hún er samkvæmt skattleysismörkunum.

En hvað með framfærsluhugtak meiri hlutans, sérstaklega Sjálfstfl., sem er búinn að vera hér mjög lengi við völd, að þegar á bjátar eigi fjölskyldan að annast framfærsluna? Fylgir hin mannlega reisn því hvort einstaklingurinn geti verið á vinnumarkaði? Er það e.t.v. vandi öryrkjanna í þessu stóra máli að réttur til grunnframfærslu sé bundinn við ákveðna þjóðfélagshópa og þá sem geta verið virkir á vinnumarkaði en eigi ekki við þá sem sökum örorku eða alvarlegrar fötlunar geta ekki verið á vinnumarkaði? Þetta er umhugsunarefni og í rauninni sú hugsun sem ég hef verið að kalla eftir þegar ég hef talað um að menn hafi bundið sig í lögfræðideilu en ekki mannréttindahugtakið sem dómurinn er að vísa til og við höfum sett í stjórnarskrá.

Það er nefnilega svo að hæstaréttardómurinn, hvort sem okkur líkar það betur eða verr, breytir framfærsluhugtakinu sem meiri hlutinn rígheldur í. Það hafa líka ýmsir alþjóðasamningar gert sem við höfum undirgengist. Þeir kveða á um ákveðinn rétt einstaklinga til grunnframfærslu við tilteknar aðstæður.

Við skulum einnig muna það í þessu efni, af því að menn eru alltaf að takast á um það hvort sú grunnframfærsla hafi átt að vera þessi lága upphæð sem við vorum komin niður í eða grunnlífeyrir og tekjutrygging. Og af því við höfum alltaf miðað okkur við Norðurlönd og meiri hlutinn hefur verið að reyna að draga það fram, þá vísa ég til ítarlegra skýringa þingmanns Samfylkingarinnar, Ástu Ragnheiðar Jóhannesdóttur, í ræðu sinni í gær þar sem hún fór yfir þau atriði og gerði það svo greinilega að enginn velkist í vafa um að slíkar grunngreiðslur eins og grunnlífeyrir og tekjutrygging eru ekki tekjutengdar við laun maka annars staðar á Norðurlöndunum.

Herra forseti. Við sameinuðumst um að setja ný lög um fæðingarorlof. Það var mikið framfaraskref. Þar er jafnræði, hver og einn getur tekið sér fæðingarorlof nokkurn veginn á launum. Ekki er verið að skoða hvort makinn sé hátt eða lágt launaður. Það var viðhorf Alþingis að hátt launaður einstaklingur ætti að geta tekið fæðingarorlof og fengið háar fæðingarorlofsgreiðslur, lágt launaður einstaklingur tæki fæðingarorlof og fengi lágar greiðslur. Þannig vorum við í rauninni að meta einstaklinginn og rétt hans. Í báðum tilfellum er fullkomlega litið fram hjá því sem maki viðkomandi hefur í laun, sé maki í spilinu.

En þar sem við erum að tryggja lágmarksgreiðslur til þeirra sem ekki hafa starfsgetu, en það er fyrst og fremst það fólk sem hefur lent í tekjutryggingarskerðingunni, þá er rétta fjárhæðin hjá stjórnarmeirihlutanum 43 þús. kr.

Herra forseti. Ég spyr enn á ný: Af hverju 43 þús. kr.? Tveir þingmenn Sjálfstfl. hafa þegar svarað því að ef þeir hefðu farið í 51 þús. kr. þá væri verið að viðurkenna að ekki mætti tekjutengja tekjutrygginguna. Af hverju 43 þús. kr.? höldum við áfram að spyrja.

Við höfum einnig sagt: Það þurfti ekki að setja lög. Ríkisstjórnin, fyrst og fremst forsrh. sem tók málið í sínar hendur, ákvað að fara ekki þá leið að hlíta dómnum og greiða grunnlífeyri og tekjutryggingu. Komið hefur fram í umræðunni og ég ætla að árétta það, að mikilsmetinn lögfræðingur, Eiríkur Tómasson, sem ég hélt að væri bæði í náðinni og vel metinn af stjórnarmeirihlutanum, sagði í hádegisfréttum 30. des. að þó hann teldi að framkvæmdarvaldið ætti að flytja lagafrv. --- þó hann teldi að það ætti að gera það --- þá hefði eigi að síður komið til greina að greiða út óskertar bætur í byrjun janúar samkvæmt dómi Hæstaréttar.

Herra forseti. Það er umhugsunarefni að oddvitar ríkisstjórnar skuli líta fram hjá því að það var gjörningurinn frá 1998, eins og heilbrrh. orðaði það svo vel og ég er sammála henni um það orðalag, sem var ómerktur af Hæstarétti. Og sé áfram vísað í heilbrrh. þá snerist það um hvort ríkisstjórnin féllist á að tekjutengja ekki tekjutrygginguna.

Herra forseti. Ég ætla að ljúka máli mínu á þessum orðum: Komið hefur í ljós hjá vel metnum lögfræðingum að það kom fullkomlega til greina að greiða út óskertar bætur í byrjun janúar samkvæmt dómi Hæstaréttar. Það höfum við sagt. Ríkisstjórnin valdi annað og ríkisstjórnin hefur valdið og viljann og mun ráða því hvernig þetta mál verður til lykta leitt að lokum.