Almannatryggingar

Fimmtudaginn 18. janúar 2001, kl. 14:07:23 (3907)

2001-01-18 14:07:23# 126. lþ. 61.1 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, GE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 126. lþ.

[14:07]

Gísli S. Einarsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Það var ánægjulegt að fá hv. þm. Pétur H. Blöndal hér upp í ræðustól og flytja mál gegn þeim sem lakast eiga og bágast eiga í samfélaginu. Ég dró það fram að það gæti verið um tvo einstaklinga að ræða sem báðir væru með 200 þús. kr. í laun og annar félli frá eða veiktist og yrði öryrki. Um getur verið að ræða einstakling sem búinn er að vera á vinnumarkaði í eitt ár. Og hvernig er staða hans? Hvað er hann búinn að greiða mikið í lífeyrissjóð? Hvað á hann mikinn rétt úr lífeyrissjóði, hv. þm. Pétur H. Blöndal?

Ég las hér upp, virðulegur forseti, úr bréfum sem mér bárust sem þingmanni, sem sitjandi fjárlaganefndarmanni, og ég hygg að flestum þingmönnum hafi borist. Ég las upp úr bréfum hvílík umskipti það voru hjá þessum einstaklingum, konum í báðum tilvikum, að lenda í því að geta ekki lagt til heimilisins eins og gert hafði verið áður. Sýnt var fram á nákvæmlega hver greiðslan var eftir sambúð í 37 ár, þar var um að ræða 15 þús. kr. plús 4 þús. kr. í bensínstyrk. Það er verið að leiðrétta hjá þessari konu, þessum einstaklingi núna upp í 43 þús. kr. Og ég segi, það er ekki of mikið. Það er ekki of mikið þó það væri 51 þús. kr. eða 50.990 eins og talan hljóðar nákvæmlega upp á.

Út af spurningu hv. þm. Péturs H. Blöndals þá held ég að hann ætti að átta sig á því að ekki eru allir dómar sem falla í Hæstarétti sem fara eftir því hvað menn telja sig hafa gert, rétt eða rangt.