Almannatryggingar

Fimmtudaginn 18. janúar 2001, kl. 14:34:47 (3911)

2001-01-18 14:34:47# 126. lþ. 61.1 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 126. lþ.

[14:34]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. sagði að málflutningur stjórnarandstöðunnar væri ekki skýr. En mér finnst að það vanti líka skýrleika í málflutning hv. þm. Einars K. Guðfinnssonar. Hann gleymir að skýra út hvers vegna Sjálfstfl. er að berjast fyrir því að kroppa þessar 8 þús. kr. af þeirri tekjutryggingu sem Hæstiréttur hefur í reynd dæmt öryrkjum. Er það sérstök stefna Sjálfstfl. að ráðast svona aftur og aftur gegn öryrkjum? Hv. þm. verður að reyna að færa einhver rök, annaðhvort efnahagsleg eða pólitísk, fyrir þessari stefnu.

Það er einfaldlega rangt þegar hv. þm. kemur hérna, eins og reyndar allir þingmenn Sjálfstfl., og heldur því fram að dómurinn sé óskýr. Dómurinn er ákaflega skýr. Menn þurfa auðvitað að lesa hann út frá stefnu Öryrkjabandalagsins. En í dómsorði segir, með leyfi forseta:

,,Viðurkennt er, að aðaláfrýjanda, Tryggingastofnun ríkisins, hafi verið óheimilt ... að skerða tekjutryggingu örorkulífeyrisþega í hjúskap með því að telja helming samanlagðra tekna beggja hjóna til tekna lífeyrisþegans í því tilviki, er maki hans er ekki lífeyrisþegi.``

Og það sama gildir um lögin sem sett voru 1998. Þetta getur ekki verið skýrara.