Almannatryggingar

Fimmtudaginn 18. janúar 2001, kl. 14:35:59 (3912)

2001-01-18 14:35:59# 126. lþ. 61.1 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, EKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 126. lþ.

[14:35]

Einar K. Guðfinnsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta var nú ótrúlega barnaleg spurning, að ímynda sér að einhver stjórnmálaflokkur hafi það sem sérstaka stefnu að ráðast gegn öryrkjum í landinu. Ýmislegt hefur maður nú látið sér detta hug í umræðum við pólitíska andstæðinga sína, en aldrei nokkurn tíma látið sér detta í hug að það sé stefnumörkun af hálfu einhvers stjórnmálaflokks að ráðast gegn tilteknum hópi í landinu, allra síst öryrkjum.

Fyrir því voru málefnaleg rök að komast að þessari niðurstöðu um 43 þús. krónurnar. Fyrir því færði ég allítarleg rök í máli mínu og get vísað til þeirra auk þess sem ég vísa til dómsforsendna Hæstaréttar og álitsgerðar sérfræðingahópsins sem glögglega sýna fram á að fyrir því eru, eins og það var orðað í dómsforsendum Hæstaréttar, málefnalegar ástæður að standa að máli eins og niðurstaða frv. kveður á um.