Almannatryggingar

Fimmtudaginn 18. janúar 2001, kl. 14:38:13 (3914)

2001-01-18 14:38:13# 126. lþ. 61.1 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, EKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 126. lþ.

[14:38]

Einar K. Guðfinnsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hélt satt að segja að ég þyrfti ekki að fara að kenna hv. þm. stafrófið í því að lesa út úr dómnum eins og við höfum verið að ræða hann ítarlega á þessum dögum. Það er deginum ljósara að við verðum að lesa dóminn með hliðsjón af því að hverju var stefnt (Gripið fram í: Já.) og með hliðsjón af þeim forsendum sem Hæstiréttur sjálfur leggur upp. Það gefur auga leið og þarf ekki að lesa lengi til þess að sjá það að dómurinn er ekkert að fjalla um heimilisuppbót eða aðra þá þætti sem hv. þm. var hér að ræða um. Dómurinn er að fjalla um tekjutenginguna, tekjutrygginguna og þar (Gripið fram í.) vísar hann sérstaklega til þess í sínum forsendum að málefnalegar ástæður séu fyrir því að taka tillit til fjölskylduaðstæðna og út frá þeim forsendum hljótum við að túlka dóminn með nákvæmlega sama hætti og frv. gerir ráð fyrir.