Almannatryggingar

Fimmtudaginn 18. janúar 2001, kl. 14:43:38 (3920)

2001-01-18 14:43:38# 126. lþ. 61.1 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, EKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 126. lþ.

[14:43]

Einar K. Guðfinnsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég á nú ekki von á því að þó við stöndum hér í allan dag þá takist mér að sannfæra fulltrúa stjórnarandstöðunnar í þessu máli og það sýnir okkur fyrst og fremst það að á þessu máli eru margar hliðar. Og þetta er ekkert einfalt mál, eins og ég lagði áherslu á hér í upphafi. Þess vegna var svo mikilvægt að reyna að vanda undirbúninginn eins vel og hægt er.

Ég hef margoft reynt að vísa hér í dómsforsendur Hæstaréttar þar sem sérstaklega er vikið að þessu máli með þeim hætti sem ég las upp, ekki bara úr áliti sérfræðinganefndarinnar heldur líka úr forsendum þeim sem Hæstiréttur lagði af stað með til þess að sýna fram á að fullkomið samræmi væri á milli röksemdafærslu sérfræðingahópsins og niðurstöðu Hæstaréttar.

Ég get auðvitað ekki gert betur en að lesa upp úr orðum Hæstaréttar. Og það verður auðvitað að koma á daginn hvort það dugi og nái eyrum hv. þm. Bryndísar Hlöðversdóttur. En orð Hæstaréttar tala að mínu mati mjög skýrt í þessum efnum.