Almannatryggingar

Fimmtudaginn 18. janúar 2001, kl. 14:51:20 (3927)

2001-01-18 14:51:20# 126. lþ. 61.1 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 126. lþ.

[14:51]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Það er athyglisvert að nú um áramótin, aldamótin eða árþúsundamótin ef menn vilja vera hátíðlegir, þá er það mál sem mesta athygli vekur mannréttindamál. Það er réttindamál minnihlutahóps sem vinnst fyrir dómstólum á grundvelli mannréttindaákvæðis stjórnarskrárinnar. Þetta vekur athygli. Þetta segir okkur, herra forseti, hve áherslur eru að breytast og hvað nýr tími kann að boða. En ekki vekur minni athygli hver viðbrögð valdsins eru. Þau viðbrögð segja okkur nefnilega líka að glímunni við drottnandi valdhafa um mannréttindi er ekki lokið. Enn eru hópar sem þurfa að sækja til þeirra sem valdið hafa, þurfa að sækja um réttinn til að lifa eins og menn.

Hver er ástæða þeirrar umræðu sem hér stendur á hinu háa Alþingi? Jú, hún er sú að hæstv. ríkisstjórn hefur lagt fram á Alþingi frv. til að mæta þessum dómi, eins og þeir orða það, þessum dómi Hæstaréttar, sem minnihlutahópurinn vann fyrir dómstólum á grundvelli mannréttindaákvæðis, en ýmsir, Öryrkjabandalagið, við í stjórnarandstöðunni og stór hluti þjóðarinnar, þar með taldir ýmsir lögfræðingar, telja að sé tilraun ríkisstjórnarinnar til að fara á svig við dóminn, til að skerða í raun þann rétt sem dómurinn færði þessum hópi.

Við teljum að þetta sé tilraun til að fara á svig við dóminn, herra forseti, af því að við trúum því tæpast eftir að hafa lesið dóminn og hlýtt á ýmsa þá sem hafa farið vandlega yfir hann að hægt sé skilja dóminn á þann veg sem hæstv. ríkisstjórn og fylgismenn hennar á Alþingi virðast gera.

Ég er í hópi þeirra sem fannst dapurlegt að fylgjast með málflutningi ráðherranna, þó einkum forsætisráðherrans, þegar kynnt var hvernig þau hygðust bregðast við dómi Hæstaréttar. Það var helst á ráðherrum að skilja að dómurinn hefði verið ranglátur af því að hann færði þeim ekkert sem höfðu ekki orðið fyrir skerðingu. Þetta var merkileg niðurstaða, herra forseti. Það var helst á þeim að skilja að það væri skelfilegt ranglæti að þeir sem höfðu verið með skerta tekjutryggingu ættu að fá hana óskerta eða minna skerta samkvæmt túlkun ríkisstjórnarinnar. Maður velti því fyrir sér um hvað þetta fólk teldi að dómur Hæstaréttar hefði eiginlega snúist, hvort þeir hefðu aldrei einu sinni skoðað á hverju krafa Öryrkjabandalagsins var byggð.

Sumir stjórnarliðar, ráðherrar sem aðrir, vilja drepa umræðunni á dreif um niðurstöðu Hæstaréttar með því að tala frekar um hvað þeir hefðu viljað gera við peningana, eins og dómur Hæstaréttar hafi skapað eitthvert peningalegt svigrúm sem menn geti dundað sér við að byggja inn í óskalista sína. Notað svigrúmið, orðaði hæstv. utanrrh. það. Þetta hefur verið dálítið sérkennilegt á köflum hér í þingsal vegna þess að einn hv. þm. hefur verið hér í leiknum ,,frúin í Hamborg`` við alla þá stjórnarandstæðinga sem hafa tekið til máls. En eins og menn kannski muna úr bernsku sinni var sá leikur þannig að annar spurði hinn: Hvað mundirðu gera við peningana sem frúin í Hamborg gæfi þér? Svo átti maður að svara en maður varð að passa sig á bannorðunum sem gátu verið ,,svart`` og ,,hvítt`` eða ,,já`` og ,,nei``. Í tilviki okkar hefur hv. þm. í sínum ,,frúin-í-Hamborg-leik`` orðað spurninguna efnislega á þá leið: Hvað mundirðu gera við svigrúmið sem Hæstiréttur gaf þér? En bannorðið hefur síðan verið það að segja að maður mundi greiða fulla tekjutryggingu til þeirra öryrkja sem hafa orðið að þola skerðingu vegna tekna maka. Eða á ég kannski að segja að bannorðið hafi verið mannréttindi? Borgaraleg réttindi? Það er vart hægt að skilja þingmanninn öðruvísi og hann talar því miður fyrir munn ansi margra, einkum þingmanna Sjálfstfl. Það er vart hægt að skilja hann öðruvísi en þannig að honum finnist í lagi að tekjutengja mannréttindi. Tekjutengd mannréttindi. Eða að rétt sé að fara í manngreinarálit þegar mannréttindi stjórnarskrár er annars vegar og láta það ráðast af stöðu einstaklings, tekjum hans, stöðu maka. Vegna þess að séu fjölskyldutekjur í fjölskyldu öryrkja orðnar þannig að fólk nái rétt að reka nefið upp úr fátæktarpyttinum þá hafi þeir ekkert með þau einstaklingsbundnu réttindi að gera sem Hæstiréttur, að mínu mati, telur að felist í möguleikum lífeyrisþega til að framfæra sig og eftir atvikum að taka þátt í framfærslu fjölskyldu sinnar.

Málið snýst hins vegar, herra forseti, ekki um þetta, það snýst ekki um svigrúm eða hvað einhver vildi gera við þessa peninga, þessa þá líka svakalegu upphæð, heldur snýst það um það stjórnarfrv. sem liggur hér fyrir og þann dóm sem Hæstiréttur felldi í máli Tryggingastofnunar gegn Öryrkjabandalagi Íslands.

Mér finnst dómsorðið vera skýrt og ég tel að það hafi legið beint við að greiða þeim öryrkjum sem voru með enga eða skerta tekjutryggingu vegna tekna maka, þeirra sem voru skertir á grundvelli 5. mgr. 17. gr. laganna, óskerta tekjutryggingu þegar 1. janúar samkvæmt almannatryggingalögum eins og þau voru eftir að Hæstiréttur, svo ég vitni beint í dómsorðið, ,,var búinn að viðurkenna að ekki mætti skerða tekjutryggingu örorkulífeyrisþega í hjúskap á þann hátt sem gert í 5. mgr. 17. gr. almannatryggingalaga``.

Herra forseti. Síðasta öld var tími mikilla landvinninga í mannréttindamálum á Vesturlöndum. Verkalýðshreyfingin og aðrar lýðhreyfingar börðust fyrir réttindum alþýðumanna, sóttu þessi réttindi í greipar þeirra sem höfðu þau fyrir hefð, arf, löggjöf eða meinta guðlega velþóknun. Konur fengu kosningarrétt á síðustu öld og máttu alla öldina, herra forseti, slást fyrir öðrum formlegum réttindum sínum. Þannig hefur þessi helmingur mannkyns og íslensku þjóðarinnar mátt heyja baráttu minnihlutahóps jafnvel fyrir svo sjálfsögðum réttindum sem sömu launum fyrir sömu vinnu.

Það er vel við hæfi, herra forseti, að nefna það í umræðunni, að 2/3 þeirra sem þessi breyting sem dómur Hæstaréttar kallar á varðar einmitt konur.

Mikið hefur verið rætt um framfærsluskyldu, um skyldu framfæranda gagnvart maka sínum í þessu tilfelli. Ákvæði um rétt til aðstoðar úr opinberum sjóðum til þeirra sem geta ekki framfleytt sér sjálfir hefur verið, eins og segir í dómi Hæstaréttar, í stjórnarskrá allt frá 1874. En rétturinn var háður því að viðkomandi ætti sér ekki skylduframfærandur. Ef skylduframfærandi var til staðar var ekki skylda að framfæra viðkomandi úr opinberum sjóði. Þessu, herra forseti, var breytt formlega við stjórnarskrárbreytinguna árið 1995 og réttur til greiðslu úr opinberum sjóðum þaðan í frá ekki háður því að skylduframfærandann vantaði.

[15:00]

Hæstv. fjmrh. reyndi í ræðu sinni í morgun að gera lítið úr þessari breytingu. Það er hins vegar nákvæmlega þessi breyting sem gerir það að verkum að Hæstiréttur kveður upp þann dóm sem hann gerir nú í máli Öryrkjabandalagsins þegar sú skoðun kemur fram að það styðjist við mannréttindaákvæði að einstaklingurinn verði að hafa ákveðin réttindi, ákveðin fjárhagsleg réttindi, ákveðin efnahagsleg réttindi, hann verði að hafa fjárhagslega stöðu til að framfæra sig og eftir atvikum fjölskyldu sína. Mér finnst óþarfi og satt að segja leiðinlegt að heyra menn gera lítið úr þessari breytingu vegna þess að þetta er að mínu mati breyting sem skiptir verulegu máli og á eftir að skipta verulegu máli í mannréttindabaráttu á þeirri öld sem við erum nú að mæta.

Í dómi Hæstaréttar segir, með leyfi forseta, svo ég hafi þetta nú allt nákvæmlega eins og það stendur:

,,Ákvæði um rétt þeirra, sem ekki geta framfleytt sér sjálfir, til aðstoðar úr opinberum sjóðum hefur verið í stjórnarskrá allt frá 1874, en rétturinn var háður því að viðkomandi ætti sér ekki skylduframfærendur. Það skilyrði var afnumið með stjórnarskrárbreytingu 1995. Samkvæmt 1. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 14. gr. stjórnskipunarlaga nr. 97/1995, skal öllum, sem þess þurfa, tryggður í lögum réttur til aðstoðar vegna sjúkleika, örorku, elli, atvinnuleysis, örbirgðar og sambærilegra atvika.``

Herra forseti. Ég vil leggja áherslu á orðið ,,réttur`` vegna þess að við erum að fjalla annars vegar um rétt sem er stjórnarskrárvarinn og hins vegar heimildir. Á þessu verður að gera greinarmun sem hefur ekki verið gert nægjanlega hér í umræðunni. Vissulega hafa þátttakendur í umræðunni, eins og nú síðast hv. þm. Bryndís Hlöðversdóttir, reynt að skýra þann mun sem er á stjórnarskrárvörðum rétti manna sem taka bætur eftir almannatryggingalöggjöfinni og síðan þeim bótum sem menn fá greiddar eftir atvikum samkvæmt lögum um félagslega aðstoð, um félagsaðstoð sveitarfélaga, eftir skattalögum eða öðrum leiðum. Á þessu er munur og menn geta ekki notað það að ,,það má`` og ,,er gert`` að tekjutengja og skerða þær bætur sem greiddar eru samkvæmt félagslega kerfinu. Menn geta ekki notað það eins og mér finnst vera gert hér í umræðunni um of til að réttlæta skerðingu á þeim rétti sem fólk hefur samkvæmt almannatryggingalöggjöfinni. Það er þess vegna, herra forseti, sem ég legg áherslu á orðið ,,réttur``.

Dómur Hæstaréttar í málefnum öryrkja snýst um mannréttindi og hann snýst um sjálfsvirðingu. Hann snýst um rétt hvers einstaklings til lágmarkslífeyris og efnalegs sjálfstæðis, óháð tekjum eða stöðu maka. Hann snýst um það að þeir sem eru eins settir, þ.e. hafa misst tekjuhæfi sitt, þeir eigi jafnan rétt til greiðslna úr opinberum sjóðum. Um þetta segir, herra forseti, í dómi Hæstaréttar, með leyfi forseta:

,,... að uppfylla skilyrði 65. gr. stjórnarskrárinnar um að hver einstaklingur njóti samkvæmt því jafnréttis á við aðra sem réttar njóta, svo og almennra mannréttinda.`` Hér er alltaf talað um rétt, herra forseti. ,,Almenni löggjafinn hefur skilgreint stefnumörkun sína varðandi þessi mannréttindi, svo sem þau horfa við öryrkjum, í 1. gr. laga nr. 59/1992 um málefni fatlaðra, en markmið þeirra laga er sagt vera að tryggja fötluðum jafnrétti og sambærileg lífskjör við aðra þjóðfélagsþegna og skapa þeim skilyrði til þess að lifa eðlilegu lífi.``

Ég átta mig ekki alveg á því, herra forseti, hvort menn gera sér leik að því að rugla saman bótum sem menn eiga annars vegar rétt á, bótum almannatrygginga og hins vegar því sem greitt er samkvæmt lögum um félagslega aðstoð, en þar er einungis um að ræða heimildarákvæði eins og ég sagði hér áðan.

Svo ég vitni aftur í dóm Hæstaréttar, þá segir í framhaldi af því sem ég las áðan, með leyfi forseta:

,,Löggjafarvaldið hefur með lögum nr. 117/1993 um almannatryggingar komið til móts við skyldur sínar um réttindi samkvæmt 1. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar að því er öryrkja varðar sérstaklega. Önnur lagaákvæði af þessum meiði, svo sem samkvæmt lögum nr. 118/1993 um félagslega aðstoð og VI. kafla laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga, eru hins vegar heimildarákvæði, en mæla ekki fyrir um rétt öryrkja.``

Herra forseti. Mér finnst þetta vera svo skýrt að ég skil ekki hvernig á því stendur að menn rugla endalaust fram og til baka heimildarákvæðum annars vegar og rétti hins vegar, rétti sem Hæstiréttur segir okkur að sé stjórnarskrárvarinn.

Hér hefur nokkuð borið á góma í umræðunni hvort löggjöf okkar sé hliðstæð þeirri löggjöf sem er annars staðar á Norðurlöndunum eða eftir atvikum í Evrópusambandinu. Það er, vegna þess að með lagabreytingunni árið 1993 sem hér hefur verið nefnd, lögin sem tóku gildi 1994 annars vegar um almannatryggingar og hins vegar um félagsleg réttindi eða félagslega aðstoð, eru einmitt sniðin að þeirri reglu sem þekkt er í nágrannalöndum okkar, að þessu er skipt í sundur. Þess vegna er hægt að bera þetta saman og ég skil ekki af hverju menn eru alltaf að tala um að hlutirnir séu svo flóknir. Það er ekkert flókið að bera saman annars vegar hver rétturinn er og hins vegar hvað felst í þeim lögum hjá okkur og öðrum hvað varðar félagslega aðstoð. Af hverju er það svo flókið?

Það liggur hins vegar fyrir að það sem menn eru með í fylgiskjali II í þessu frv. og á að sýna hvernig hinar Norðurlandsþjóðirnar skerða, er allt úr lögunum um félagsleg réttindi eða félagslega aðstoð. Það er ekki úr almannatryggingalöggjöfinni og þar með réttur, þetta eru allt heimildarákvæði og þess vegna eru þau skert þar, eins og hér. Mér finnst svolítið sérkennilegt, ég segi það einu sinni enn, hvernig menn leyfa sér í raun að blanda þessu saman og ef menn eru að gera það af því að þeir átta sig ekki á málinu, af því að þeir átta sig ekki á hvernig þetta liggur get ég svo sem skilið að mönnum þyki þetta flókið því þá eru menn svo sannarlega búnir að flækja þetta fyrir sér.

Hér hefur verið talað um það, nú síðast af hv. þm. Einari Guðfinnssyni, að lágmarksréttindi eigi að geta verið mat og það eigi að vera mat löggjafans. Þetta er samhljóða því sem Jón Steinar Gunnlaugsson hæstaréttarlögmaður hefur sagt og er hluti af rökstuðningi hans fyrir því að ríkisstjórnin geti farið þá leið sem hún fer í frv. sínu, að þetta eigi að geta verið mat löggjafans. Ég er sammála því. Það mat á þá að koma fram í grunnlífeyri og tekjutryggingu. Þar á þetta mat að liggja. Hvað viljum við? Hvað vilja pólitískir flokkar? Hvað vill stjórnarmeirihlutinn að grunnlífeyrir á Íslandi sé hár og hvað á tekjutryggingin síðan að vera há? Það er í því sem hið pólitíska mat liggur. En rétturinn til að skerða síðan þar sem Hæstiréttur er búinn að segja að mínu mati að séu einstaklingsbundin réttindi, lágmarksréttindi, er ekki til staðar. En menn hafa auðvitað möguleika til að beita sér pólitískt þegar þeir eru að ákvarða annars vegar grunnlífeyrinn og hins vegar tekjutrygginguna, þessar bætur almannatrygginga sem eru stjórnarskrárvarinn réttur.

Í dómi Hæstaréttar kemur fram að aðrar greiðslur úr almannatryggingum, svo sem slysatryggingar, sjúkratryggingar, greiðslur í fæðingarorlofi og atvinnuleysistryggingar séu greiddar óháð tekjum maka. Það finnst okkur eðlilegt og sjálfsagt og sama tel ég að Hæstiréttur sé að segja um tekjutrygginguna.

Í dómi Hæstaréttar segir, með leyfi forseta:

,,Eru ákvæði laganna um félagslega aðstoð einungis heimildarákvæði um greiðslur bóta, en samkvæmt lögum um almannatryggingar er um að ræða rétt til greiðslu örorkulífeyris og einnig tekjutryggingar en þá að ákveðnum skilyrðum uppfylltum.``

Þetta, ,,að ákveðnum skilyrðum uppfylltum`` heyrist mér að stjórnarliðar vilji túlka þannig að þá megi skerða þetta eins og um væri að ræða ákvæði sem eru í lögunum um félagslega aðstoð. En að mínu mati er það hreint ekki svo, herra forseti, heldur eru þessi ákveðnu skilyrði sem eiga að vera uppfyllt þau að viðkomandi hafi það miklar tekjur sjálfur að hann þurfi ekki á þessari aðstoð að halda, að viðkomandi geti með eigin tekjum framfært sig þannig að hann haldi fullri reisn.

Í dómi Hæstaréttar er síðan farið yfir það sem ég var að vitna til áðan um þær greiðslur sem taka ekki mið af tekjum maka eins og t.d. slysatryggingu, sjúkratryggingu, atvinnuleysistryggingu og fæðingarstyrk, þar sem segir í dómi Hæstaréttar að það verði að telja það aðalreglu íslensks réttar að réttur einstaklinga til greiðslna úr opinberum sjóðum skuli vera án tillits til tekna maka.

Ég ætla að endurtaka það ,,réttur einstaklinga til greiðslna úr opinberum sjóðum skuli vera án tillits til tekna maka.`` Hér er verið að tala um réttinn sem liggur í almannatryggingalöggjöfinni, hér er ekki verið að tala um þær heimildargreiðslur sem eru í lögunum um félagslega aðstoð. Þar liggur þessi munur og á ekki að þurfa að vefjast fyrir neinum.

Herra forseti. Þetta samanlagt hefur leitt mig og okkur í stjórnarandstöðunni til þeirrar niðurstöðu að með dómsorði sínu sé Hæstiréttur að segja að ekki megi skerða tekjutryggingu miðað við tekjur maka --- þær eru réttur sem ekki verður skertur nema öryrkinn sjálfur hafi það háar tekjur að það réttlæti slíkt --- að í grunnlífeyri og tekjutryggingu felist sá lágmarksréttur sem hverjum og einum sé tryggður án tillits til tekna eða stöðu maka. Þetta er samkvæmt almannatryggingalögum og réttur einstaklings samkvæmt skilgreiningu.

Herra forseti. Mér finnst ríkisstjórnin hafa vondan málstað að verja í þessu máli. Það er e.t.v. þess vegna líka sem þeim finnst þetta mál svo flókið. Auðvitað er flókið að hverfa frá þessum dómi og reyna að drepa honum á dreif með þeim hætti sem gert hefur verið.

[15:15]

Herra forseti. Ég held líka að það sé vegna þess að ríkisstjórnin hefur vondan málstað að verja að hún leggur sig svo fram við að afflytja mál stjórnarandstöðunnar eða Öryrkjabandalagsins, nú eða annarra sem eru ekki á máli þeirra eða þeirra sem beygja sig ekki undir skoðanir Jóns Steinars Gunnlaugssonar um það hvað Hæstiréttur má og hvað Hæstiréttur má ekki. En ég er sammála því sem hér hefur verið reifað og lesið upp úr viðtölum við þann ágæta lögfræðing að ýmislegt af því er að mínu mati fremur ósmekklegt.

En svo ég fari aðeins yfir það sem stjórnarflokkarnir, þingmenn þeirra, forusta þeirra, hefur verið að segja og gera að málflutningi stjórnarandstöðunnar, þá hefur það einkennt framsóknarmenn sérstaklega að þeir hafa sagt að við í stjórnarandstöðunni, og líklega Öryrkjabandalagið líka, höfum verið að vekja væntingar með umfjöllun okkar um dóminn. Hins vegar hefur ekki verið nefnt eitt einasta dæmi um hvar óréttmætar væntingar hafa verið vaktar, hvorki hver hafi gert það né hvernig. Hins vegar er ég nokkuð viss um að þessi dómur hefur út af fyrir sig vakið væntingar. Hann gerði það hjá mér og gerði það örugglega hjá fleirum. Hann vakti væntingar um að mannréttindi og hugsun um mannréttindi og gildi þeirra væri að færast á nýtt plan. Það vekur mér og okkur mörgum sannarlega væntingar, herra forseti. En það var ekki það sem framsóknarmennirnir hafa áhyggjur af.

Einnig hefur verið reynt að gera þann málflutning okkar tortryggilegan að við töldum að hægt hefði verið að fara að dómi Hæstaréttar strax, þ.e. það hefði strax 1. janúar verið hægt að greiða þeim hópi sem hafði orðið fyrir skerðingu samkvæmt skerðingarákvæði 5. mgr. 17. gr.

Hæstv. forsrh. reyndi í gær að gera málflutning stjórnarandstöðunnar tortryggilegan í þessu með því að segja: Þetta er alveg eins og þegar hæstaréttardómarnir komu um kvótamálin, þá sögðu þeir líka að það þarf ekkert að gera, bara fara að dómnum. Þetta er náttúrlega, herra forseti, eins fjarri lagi eins og hægt er að vera, vegna þess að þá var alls ekki skoðun okkar að hægt væri að fara að dómnum. Hins vegar vorum við algerlega andstæð þeirri túlkun sem ríkisstjórnin var með á dómi Hæstaréttar og vorum með allt aðra túlkun á þeim dómi. Við vorum á þeirri skoðun að það þyrfti að ganga lengra í lagasetningu en hæstv. ríkisstjórn taldi á þeim tíma. En þetta er dæmi um hversu langt menn ganga í því að reyna að afflytja eða gera málflutning stjórnarandstöðunnar tortryggilegan.

Mér hefur líka fundist merkilegt þegar menn hafa komið upp og í raun afhjúpað vanþekkingu sína á því sem hefur verið að gerast hér í þinginu með því að segja að við höfum stokkið á þennan dóm til að slá pólitískar keilur. Af hverju hefðum við átt að gera það? Við höfum flutt mál aftur og aftur, þingmál, sem svarar nákvæmlega þessum dómi Hæstaréttar eins og við túlkun hann, um það að afnema skerðingarákvæðin sem gerðu það kleift að skerða tekjutryggingu örorkulífeyrisþega miðað við tekjur maka. Strax fyrsta dag þingsins í haust var dreift 26. máli sem er þannig mál og liggur inni í heilbr.- og trn. Menn voru því sannarlega ekki að slá einhverjar pólitískar keilur með því að taka undir með dómi Hæstaréttar. Menn vissu nákvæmlega hvað fólst í dóminum um leið og hann lá fyrir, einfaldlega vegna þess að margsinnis hafði verið farið yfir þetta mál, talað fyrir því hér og deilt um það.

Síðan kemur þetta makalausa sem ég fjallaði um áðan sem er það að við séum að forgangsraða með því að vilja fara að dómi Hæstaréttar. Að það séum við sem séum að forgangsraða af því við viljum fara að dómi Hæstaréttar þá séum við að velja það að borga þessum þetta en ekki hinum hitt. Þetta er svo fráleitt að ekki tekur því að svara því en sýnir hversu langt menn eru tilbúnir til að ganga. Ég talaði áðan um tekjutengingu mannréttinda. Ég talaði áðan um frúna í Hamborg. Það er kannski besta lýsingin á því sem þar er á ferðinni.

Herra forseti. Af því að hv. formaður heilbr.- og trn. var að tala um það í gær að menn hefðu veikt Hæstarétt með málflutningi okkar, ekki var hægt að skilja hann öðruvísi, þá finnst mér rétt að það komi fram að stjórnarandstaðan hefur ekki kallað dóm Hæstaréttar slys. Stjórnarandstaðan hefur ekki talið heldur að dómur Hæstaréttar væri pólitískur í þeim skilningi sem aðrir hafa talað um. Stjórnarandstaðan hefur heldur ekki reynt að grafa undan trúverðugleik forseta réttarins með fabúlasjónum um fjölda dómara. Stjórnarandstaðan hefur ekki reynt að gera niðurstöðurnar ómerkari af því að forseti réttarins ákvað að fimm en ekki sjö ættu að vera í réttinum. Við teljum nefnilega, herra forseti, að dómur Hæstaréttar sé dómur Hæstaréttar, hvort sem meirihlutaniðurstaða fæst með þremur eða fjórum atkvæðum.

Stundum er sagt að aukin lýðréttindi hafi jafnan komið til Íslands með vorskipi. Þau hafi komið að utan en ekki fyrir baráttu innlendrar borgarastéttar. Menn hafa jafnvel leitt getum að því að það sé einmitt þess vegna sem svo lítil virðing virðist einatt borin fyrir mannréttindum á Íslandi, hversu sjálfsagt mönnum finnst að fara á svig við þau ef passar þeim að öðru leyti. Þetta erum við að upplifa, herra forseti, í þessum sal þessa dagana í þessari umræðu.

Við sjáum líka að framfarir í mannréttindamálum hafa ekki hvað síst orðið fyrir alþjóðlegar skuldbindingar og erlend áhrif. Í dómi Hæstaréttar er rakið hvað kemur fram í athugasemdum sem fylgdu frv. að lögum nr. 97/1995, en þar var tekið fram að gengið væri út frá því ,,... að nánari reglur um félagslega aðstoð af þessum meiði yrðu settar með lögum, en með ákvæðinu væri markaður sá rammi`` --- við erum að tala um mannréttindaákvæði stjórnarskrárinnar --- ,,að til þurfi að vera reglur, sem tryggi þessa aðstoð. Var sérstaklega í því sambandi vakin athygli á 12. og 13. gr. félagsmálasáttmála Evrópu, sem fullgiltur var af Íslands hálfu 15. janúar 1976, og 11. og 12. gr. alþjóðasamnings um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi, sem fullgiltur var af Íslands hálfu 22. ágúst 1979. Lýtur fyrrnefndi samningurinn að því að samningsaðilar skuldbinda sig meðal annars til að koma á eða viðhalda almannatryggingum eða gera þeim það hátt undir höfði, sem krafist er til fullgildingar á alþjóðavinnumálasamþykkt um lágmark félagslegs öryggis, en í 67. gr. þeirrar samþykktar er mælt fyrir um þær reglur, sem þetta lágmark þarf að uppfylla, og kemur þar fram að um skerðingar geti ekki verið að ræða nema vegna verulegra viðbótarfjárhæða. Síðari samningurinn lýtur hins vegar að því meðal annars að samningsaðilar viðurkenna rétt sérhvers manns til viðunandi lífsafkomu fyrir hann sjálfan og fjölskyldu hans.``

Þær breytingar sem orðið hafa, herra forseti, m.a. með þessum dómi, með breytingum á stjórnarskrá, aðild okkar að enn fleiri fjölþjóðlegum og alþjóðlegum samningum, munum við væntanlega þróa á næstu árum og þær taka mið af reisn og þekkingu einstaklingsins. Þær munu auðvitað breyta þeim viðhorfum sem 20. öldin byggði lengst af á, þ.e. því að handhafar valdsins gætu deilt og drottnað.

Það er afar mikilvægt að umræðan um möguleika lýðræðisins sé lifandi og frjó þannig að við fáum á nýrri öld að njóta þeirra möguleika sem bjóða upp á þátttöku allra í samfélagi upplýstra og menntaðra manna.

Þjóðfélagið er í mikilli gerjun. Hinar nýju aðstæður felast í aukinni menntun og upplýsingu, nýjum viðmiðunum og möguleikum einstaklingsins vegna aukinna mannréttinda, m.a. vegna þeirra alþjóðlegu skuldbindinga sem við erum aðilar að og hafa verið að setja mark sitt á stjórnarskrá okkar, löggjöf og dóma, herra forseti.

Sú kennslustund sem þjóðin hefur undanfarið fengið í mannréttindabaráttu og þá ekki síður í virðingarleysi valdsins fyrir stofnunum þjóðfélagsins er þar ekki þjónað rétt að segja. Virðingarleysi fyrir mannréttindaákvæðum stjórnarskrár okkar og alþjóðlegum skuldbindingum hlýtur líka að hvetja til þess að á næstunni fari fram meiri og dýpri umræða um mannréttindi og í leiðinni um möguleika lýðræðisins á nýrri öld og mikilvægi þess. Það sem mér hefur samt sem áður, herra forseti, fundist erfiðast við þessa atburðarás alla, er að skynja þau viðhorf sem fram hafa komið hjá hæstv. ríkisstjórn sem snúast um valdið. Það hefur mér og býsna mörgum fleirum fundist anda frá þeim þetta viðhorf: Við látum ekki aðila úti í bæ segja okkur fyrir verkum, það erum við sem ráðum.

Ég talaði um það áðan að á 20. öld hafi viðhorfin lengst byggst á því að handhafar valdsins gætu deilt og drottnað og sannarlega virðist það enn eiga heima hjá núverandi valdhöfum á Íslandi. ,,Við látum ekki aðila úti í bæ segja okkur fyrir verkum`` --- það hefur m.a. komið fram í þeim ummælum einstakra talsmanna stjórnarinnar hér í þinginu um tekjutenginguna að hún sé svo mikilvæg að menn gefi það ekki eftir að stjórnmálamenn geti skert hana. Ekki megi gefa það eftir. Ekki einu sinni vegna mannréttinda. Valdið til að skerða yrði að vera áfram hjá stjórnmálamönnum hvað sem Hæstiréttur segði.

Herra forseti. Svo er það hitt sem eru líka viðhorf sem hafa andað í gegn, sýnu verra en þó hluti af því sama. En það eru skilaboðin til þeirra sem hafa verið, eru eða ætla sér að sækja sinn rétt: Þið megið koma skríðandi með bænaskjal og þá munum við kannski líta til ykkar í náð, en þið skuluð ekki láta ykkur dreyma um að koma upprétt og tala um rétt ykkar. Það eru þau skilaboð, herra forseti, sem mér finnast óhugnanlegust og ég er satt að segja svolítið hrædd við þau. Ég skynja þau alveg inn að merg, kannski vegna þess að ég er kona, ég hef tekið þátt í þeirri mannréttindabaráttu sem konur hafa þurft að heyja á öldinni sem leið og ég skynja mjög vel hvernig minnihlutahópar hafa þurft að þola viðhorf sem þessi og þurfa að þola enn þann dag í dag. Það eru þau viðhorf sem menn eiga við þegar verið er að tala um forneskjulegar hugmyndir.

Herra forseti. Þessi viðhorf eru þekkt úr sögunni. Þau eru þekkt úr mannréttindabaráttu flestra minnihlutahópa. Ég hélt að flestir væru orðnir sammála um að þar ættu þau heima og aðeins þar. Ég vona að dómur Hæstaréttar, umræðan um hann og um mannréttindi, og möguleika okkar á nýrri öld verði til að eyða þessum viðhorfum hratt og örugglega því það er skelfilegt að þau skuli þrífast enn þann dag í dag.