Almannatryggingar

Fimmtudaginn 18. janúar 2001, kl. 16:15:44 (3933)

2001-01-18 16:15:44# 126. lþ. 61.1 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 126. lþ.

[16:15]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Ég vona að sem flestir kjósendur Sjálfstfl. hafi hlýtt á þennan helsta málsvara flokksins á sviði almannatrygginga flytja mál sitt um kjör öryrkja og almannatryggingar. Dómur Hæstaréttar er til umfjöllunar. Hann er úrskurður í tilteknu álitamáli sem vísað var til hans. Öryrkjabandalag Íslands hafði spurt hvort heimilt væri að skerða tekjutryggingu öryrkja vegna tekna maka hans eða hennar og vísaði í tiltekin lög og tilteknar málsgreinar.

Úrskurður Hæstaréttar er í dómsorði sem telur níu línur á blaði. Þar segir, með leyfi forseta, að óheimilt hafi verið að skerða tekjutryggingu örorkulífeyrisþega í hjúskap. Þetta er skýrt, þetta er afdráttarlaust.

Dómar eru ekki hafnir yfir gagnrýni, það er rétt hjá hv. þm. Pétri H. Blöndal. En dómum ber að hlíta og það ber ríkisstjórninni vissulega að gera í þessu máli. Síðan geta menn komið hingað og farið út og suður eins og hv. þm. Pétur H. Blöndal gerði.