Almannatryggingar

Fimmtudaginn 18. janúar 2001, kl. 16:20:14 (3937)

2001-01-18 16:20:14# 126. lþ. 61.1 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 126. lþ.

[16:20]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Það er afar athyglisvert að í þessari umræðu hefur hv. þm. Pétur H. Blöndal geyst hér fram á sjónarsviðið sem sérstakur talsmaður Sjálfstfl. í velferðarmálum. Ég veit ekki hvort ég á að óska Sjálfstfl. til hamingju eða samhryggjast honum, flokki Odds heitins Ólafssonar, Gunnars Thoroddsens, Péturs Sigurðssonar og fleiri slíkra manna sem sumir hverjir voru í fararbroddi fyrir uppbyggingu samtaka öryrkja og í réttindabaráttu þeirra fyrr á öldinni og voru taldir tilheyra hinum húmaníska armi Sjálfstfl. Nú er öldin önnur þegar hv. þm. Pétur H. Blöndal með þau sjónarmið sem hann hefur opinberað er orðinn helsti talsmaður Sjálfstfl. í velferðarmálum.

Varðandi móðursýki hv. þm. út af áróðursherferð Öryrkjabandalagsins þá vísa ég öllu slíku til föðurhúsanna sem og öllu tali um að þjóðin hafi eitthvað verið plötuð í þessu máli, meðan ekki eitt einasta dæmi hefur verið nefnt um að nokkur maður, hvorki í stjórnarandstöðunni né hjá Öryrkjabandalaginu, hafi fjallað um þessa hluti með misvísandi hætti. Ekki nokkur.