Almannatryggingar

Fimmtudaginn 18. janúar 2001, kl. 17:29:48 (3956)

2001-01-18 17:29:48# 126. lþ. 61.1 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 126. lþ.

[17:29]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þekki ekki þá ættfræði sem hér var verið að nefna og ætla ekki að blanda mér í það. Ég ætla hins vegar að segja að mér er kunnugt um að eignarhald á fjölmiðlum á Íslandi muni vera með þeim hætti að nánast allir fjölmiðlar sem standa undir nafni eru í eigu sjálfstæðismanna og í stórri meirihlutaeigu þeirra og hafa verið lengi. Síðan er hæstv. menntmrh. yfirmaður Ríkisútvarpsins. Það hafa verið pólitískt ráðnir yfirmenn um langan tíma. Þeir hafa notað stöðu sína til þess að ráða fólk eftir sínu höfði og það hefur komið fram.

Það er t.d. opinbert leyndarmál ef svo má að orði komast að fjölmargir fréttamenn á þeim miðli hafa verið starfandi í Sjálfstfl. Það er ekkert leyndarmál. Fólk veit þetta. Ég held að ég þurfi ekkert að telja þetta upp. Maður hefur fylgst með þessum fjölmiðlum og maður hefur skoðun sína á þeim og segir hana hér. Ég held að það sé alveg kominn tími til að menn geri það og séu ekkert að skafa utan af því. Þetta á ekki að ganga svona. Menn eiga að vanda sig betur í því að stjórna fjölmiðlum sem ríkið á og rekur. Það á ekki að ganga eins langt og Sjálfstfl. hefur gert.