Almannatryggingar

Fimmtudaginn 18. janúar 2001, kl. 17:31:25 (3957)

2001-01-18 17:31:25# 126. lþ. 61.1 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, ÞKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 126. lþ.

[17:31]

Þorgerður K. Gunnarsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Þetta er alveg makalaust. Hér kemur hv. þm. Jóhann Ársælsson upp, nefnir engin nöfn heldur ýjar að hinu og þessu. Það getur vel verið að fyrrv. eða núv. sjálfstæðismenn séu starfandi hjá Ríkisútvarpinu eða sjónvarpinu. En þar eru líka aðrir flokksmenn. Og hvað með það? Meðan þeir sinna hlutverki sínu á hlutlægan, ábyrgan hátt þá er það í góðu lagi. Ég veit ekki betur en að t.d. hv. þm. Ögmundur Jónasson hafi verið starfandi lengi vel sem fréttamaður hjá ríkissjónvarpinu og gerði það með sóma þrátt fyrir að við vitum öll hverjar pólitískar skoðanir hans eru. Ég er ekki að segja að það sé ókostur þó að menn hafi ákveðna pólitíska sýn svo lengi sem þeir misbeita ekki valdi sínu sem fjölmiðlamenn og það vald er orðið ansi mikið. Það getur verið jákvætt ef þeir gera það á hlutlægan hátt og ég vil meina að allir fréttamenn Ríkisútvarpsins, sjónvarps sem útvarps, geri það, sama hver bakgrunnur þeirra er.

Ég ætla ekki að fara að tíunda það hverjir koma frá Röskvu hjá sjónvarpinu eða hverjir koma frá Samfylkingunni því þá finnst mér ég vera að draga þá hæfu einstaklinga niður. Svoleiðis gera menn ekki. Ég treysti þessu fólki og það er ekkert að því þó að það hafi sinn pólitíska bakgrunn svo lengi sem það býður fram ábyrgan og hlutlausan fréttaflutning.

Það hafa fleiri hér verið starfsmenn Ríkisútvarpsins. Ég var starfsmaður þar, var yfirmaður. Ég man að ég réð t.d. mjög góða útvarpskonu sem heitir Þóra Arnórsdóttir sem er afar hæf og mikilsverð kona. (Gripið fram í.)