Almannatryggingar

Fimmtudaginn 18. janúar 2001, kl. 18:01:32 (3961)

2001-01-18 18:01:32# 126. lþ. 61.1 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 126. lþ.

[18:01]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka fyrir þessa tilvitnun í ummæli mín. Ég stend við hvert einasta aukatekið orð sem ég sagði 1993. Ég fór raunar yfir það í ræðu minni áðan að auðvitað er eðlilegt að tekjutengja bætur og hafa þau viðmið að þeir sem minnstar tekjur hafa fái hærri bætur en þeir sem meiri tekjur hafa. Ég talaði hins vegar jafnframt um grunnrétt hvers einstaklings, burt séð frá þessu. Árið 1993 snerist umræðan einmitt annars vegar um að skipta á milli þeirra réttinda sem felast í almannatryggingum og hinna félagslegu bóta. Í því ljósi voru ákvarðanir teknar árið 1993. Þar er um að ræða heimildarbætur sem enginn hefur gagnrýnt í þessari umræðu, a.m.k. ekki svo ég hafi heyrt, sem taka einmitt mið af öðrum kringumstæðum og eru tekjutengdar.

Ég sagði hins vegar í ræðu minni að menn yrðu að hafa mjög mikla gát á því hvar skyldi byrja að skerða, við hvaða tekjuviðmið. Ég gagnrýndi það hér áðan. Þar hafa menn sofið á verðinum í núverandi ríkisstjórn á síðustu sex árum, í mesta góðæri Íslandssögunnar. Ég sagði líka að ákveðnir skurðarpunktar hefðu leitt til þess að jarðarskattar væru óhóflegir. Menn þurfa að gæta að því líka og því má segja að ég hafi ekki breytt um skoðun í þessum efnum, hvort sem um er að ræða góðæri eða erfitt árferði. Ég þakka því sérstaklega fyrir þessa tilvitnun.

Varðandi Hæstarétt þá er einfaldlega vísað til þess sem við höfum rætt hér áður. Menn hafa, og ég er í þeirra hópi, gagnrýnt með hvaða hætti valið er til Hæstaréttar. Menn þurfa ekkert að fara í grafgötur með að dómarar Hæstaréttar áratugi aftur í tímann, sem skipaðir eru af dómsmálaráðherrum hverrar ríkisstjórnar. Það er auðvitað --- ég vil ekki segja flokkspólitísk lykt --- pólitísk lykt af því hvernig menn eru valdir þangað. Hins vegar má enginn skilja það svo að þar sé ekki hið mætasta fólk allt saman.