Almannatryggingar

Fimmtudaginn 18. janúar 2001, kl. 18:05:26 (3963)

2001-01-18 18:05:26# 126. lþ. 61.1 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 126. lþ.

[18:05]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Fyrst um Hæstarétt. Ég hirði ekki um að fylgja hv. þm. eftir í því öngstræti sem hann er sjálfur að koma sér í. Ég hef ekki orðað það þannig að þar sé um óeðlilega dóma að ræða eða hæstaréttardómara sem sinni ekki starfi sínu hlutlægt. Ég hef ekki nefnt aukatekið orð um það. Þessi spurning er því auðvitað úti í bláinn.

Ég tek aðeins undir vangaveltur um þessi mál og vil gjarnan ræða um hvort ekki sé til eðlilegri leið og lýðræðislegri við skipan hæstaréttaradómara, punktur og basta, og hugsanleg aðkoma þjóðkjörins þings í þeim efnum. Ég er að velta því fyrir mér og vil gjarnan ræða þau mál. Ég held að til séu mun betri leiðir og heilsteyptari en nú eru farnar.

Varðandi kjarna málsins, tekjutenginguna, þá skil ég, herra forseti, að stjórnarliðar reyni í vondum málum að iðka list hins ómögulega með ódýrum útúrsnúningum. Ég undirstrikaði það hér klárlega í ræðu minni og raunar andsvari líka að ákveðinn grundvallarrétt sem ætti ekki að skerða. Það er auðvitað sá réttur sem við höfum rætt í þessu samhengi og Hæstiréttur hefur kveðið upp úr með og ég er sammála varðandi tekjutryggingu og grunnlífeyri. Ég undirstrika hins vegar að engin sérstök ástæða er til þess eins og sakir standa að gera neinar grundvallarbreytingar á þeim heimildarbótum sem eru nú þegar tekjutengdar. Og varðandi þessa tilvitnuðu ræðu --- hv. þm. tók nú þátt í þeirri umræðu sjálfur --- það væri fróðlegt að hann læsi kannski einnig eigin ræðu í því samhengi. Menn voru nokkuð sammála um þessi meginsjónarmið. Ég held að það sé nokkuð almenn samstaða um þau sjónarmið enn þann dag í dag. Ræðum málið undir réttum formerkjum. Afstaða mín er ákaflega skýr og klár. Ég vonast til að hv. þm. fylli þann flokk sem vill sjá réttlætið ráða í þeim efnum. Hann hafði það einu sinni að leiðarljósi og ég vona að það sé til staðar enn þá, einhver tíra.