Almannatryggingar

Fimmtudaginn 18. janúar 2001, kl. 18:27:23 (3965)

2001-01-18 18:27:23# 126. lþ. 61.1 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 126. lþ.

[18:27]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon fór mikinn og var greinilega mjög pirraður yfir málflutningi mínum í þessu þingmáli. Hann segir að hér sé ekki um að ræða hátekjuhóp. Bæturnar, tekjutengingin, fellur niður þegar tekjur makans eru komnar yfir 280 þús. kr. Þá fyrst er öryrkinn kominn með 18 þús. kr., núna, fyrir breytinguna. Ég veit ekki hvaða skoðanir hv. þm. hefur á 280 þús. kr. tekjum eða þaðan af hærri, segjum 400, eins og 23% af þeim bótaþegum sem fá hækkun eru með. Ég hygg hins vegar að margt fólk í BSRB og ASÍ muni telja það góðar tekjur, hátekjur, þegar fólk hefur 300 þús. kr., 400 þús. kr. eða 500 þús. kr. Það er fólkið sem er að fá bæturnar. Ég hef skilið félagshyggjuna öðruvísi þ.e. að hún væri til að jafna lífskjör, hingað til. Þess vegna hef ég spurt þetta ágæta félagshyggjufólk hvernig það má vera að það er að berjast svona mikið fyrir því að veita fólki með háar tekjur, fjölskyldum með háar tekjur, bætur, auknar bætur og meira að segja svo auknar bætur að í staðinn fyrir 1,5 millj. samkvæmt því sem ríkisstjórnin leggur til, þá vilja þeir borga 3 millj. Hvernig fer þetta saman við jöfnunina á lífskjörum? Það er það sem ég skil ekki. Ég hygg að stjórnarandstaðan hafi veðjað á rangan hest.