Almannatryggingar

Fimmtudaginn 18. janúar 2001, kl. 18:47:23 (3970)

2001-01-18 18:47:23# 126. lþ. 61.1 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, ÖS
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 126. lþ.

[18:47]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Mig langar að hefja lokaræðu mína á því að lesa upp úr ræðu stjórnmálamanns, með leyfi forseta:

,,Fyrirkomulagið í stjórnskipun okkar er að við felum ákveðnum valdastofnunum meðferð ríkisvaldsins en segjum um leið að þessar stofnanir megi ekki skerða þau grundvallarréttindi sem við veitum sérstaka vernd með mannréttindaákvæðum. Það kemur síðan í hlut dómstóla að túlka þessi ákvæði þegar á þau reynir í dómsmálum og þá að kveða á um efni þeirrar verndar sem þau veita borgurunum í einstökum tilvikum. Við þetta starf dómstólanna mega þeir að sjálfsögðu hvergi bogna undan þrýstingi sem kann að stafa frá öðrum valdastofnunum þjóðfélagsins heldur ber þeim að tryggja borgurum hiklaust verndina sem að er stefnt með mannréttindaákvæðunum.``

Herra forseti. Þetta eru áhrínsorð sem ég hygg að hver einasti maður sem er hér inni geti tekið undir. Þarna er á ferðinni maður sem er að brýna löggjafarþing sitt, dómstóla sína, þrískiptingu valdsins til að standa vörð um mannréttindaákvæðin í stjórnarskránni. Og hv. þm. Pétur H. Blöndal kinkar kolli til staðfestu því að hann er þessu samþykkur.

Hver er það sem mælir þessi frábæru orð, herra forseti, hver er það sem er að brýna dómstólinn til að halda sjálfstæði sínu? Hver er það sem er að brýna dómstólinn til að tryggja borgurunum verndina sem er að finna í mannréttindaákvæðunum sem allt þetta mál snýst um?

Sá sem þarna talar er núv. hæstv. fjmrh. Það var Geir H. Haarde, þáv. þingflokksformaður Sjálfstfl., sem flutti þetta í prýðilegri ræðu þegar hann mælti fyrir frv. til stjórnarskipunarlaga um breytingu á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands. Þetta er maðurinn sem kom síðan í dag og hélt því fram að það sem menn voru að gera við uppfyllingu loforðanna sem við gáfum þjóðinni á Þingvöllum 1994 hefði bara verið til skrauts, upp á plat, það hefði ekki átt að skipta neinu máli.

Herra forseti. Ég get ekki annað en lýst vonbrigðum mínum yfir því hvernig hæstv. fjmrh. leyfir sér að túlka, mér liggur við að segja þann helga gjörning sem við tókum að okkur fyrir hönd þjóðar okkar á Þingvöllum 1994 þegar við lofuðum að tryggja borgurunum ákveðna vernd í tilefni af því að lýðveldið varð 50 ára gamalt. Það er engum blöðum um það að fletta að þessi ákvörðun sem Alþingi tók gerði það að verkum að sá dómur sem kveðinn var upp um miklar réttarbætur fyrir öryrkja og fyrir aðra hópa líka hefði aldrei orðið að veruleika nema vegna þessara nýju ákvæða í stjórnarskránni.

Þess vegna finnst mér með ólíkindum að þegar ríkisstjórnin lendir í þeirri nauðvörn sem hún er sannarlega í dag sekkur það lágt að hún vanvirðir meira að segja stjórnarskrána, ekki bara með þeim gerningi sem liggur hér fyrir heldur í ræðum sínum. Hún lýsir því yfir að stjórnarskráin sé aðeins plagg, pappír, innantóm orð. Hún lýsir því yfir að ferð okkar alþingismanna á Þingvöll 1994 hafi raunverulega aðeins verið til að gabba þjóðina, það hafi ekkert verið að marka þetta.

Herra forseti. Þetta finnst mér hróplegt en þetta er líka í takt við þá umræðu sem hér hefur farið fram af hálfu stjórnarliðsins. Hverjir voru það sem börðu sér á brjóst og sögðu: Við skulum svo sannarlega koma til umræðunnar vegna þess að stjórnarliðið vill tala? Við þurfum að útskýra svo margt, við þurfum að segja svo mikið. Og hér höfum við verið, hér höfum við beðið eftir rökunum frá stjórnarliðinu og hvar eru þessi rök? Hafi bryddað á þeim, sem gerði á vissu tímabili umræðunnar, þá er búið að tæta þau öll í sundur. Ég verð að segja það, herra forseti, að ég man ekki eftir því að stjórnarandstaða hafi í annan tíma rústað jafnrækilega málflutningi ríkisstjórnarinnar og í þessu máli. Auðvitað má segja að það sé til lítils fyrir mig að koma og stæra mig af því vegna þess að málstaðurinn var svo slæmur. Ég man ekki eftir því að ríkisstjórn hafi áður komið með mál af þessu tagi sem hefur verið jafnilla undirbyggt, jafnilla rökstutt og síðan jafnilla styrkt og fylgt á þinginu.

Hæstv. forsrh., sem fór mikinn í fjölmiðlum og talaði um að stjórnarandstaðan legði ekki í umræðuna vegna þess að hún væri ekki undirbúin, kom hingað í þennan stól og opinberaði það fyrir þjóðinni að hann sjálfur hafði ekki skilið dómsforsendurnar. Það sem haft er eftir hæstv. forsrh. í Morgunblaðinu í dag er einfaldlega rangt þar sem hann segir að Hæstiréttur hafi ekki komist að þeirri niðurstöðu sem hann komst, þ.e. að tekjur maka megi ekki nota til að skerða tekjutryggingu öryrkja, þ.e. hann segir beinlínis að það sé í lagi. Þetta er haft eftir honum í Morgunblaðinu í dag.

Herra forseti. Hvar eru þau rök sem stjórnarliðar ætluðu að beita okkur? Ég hef beðið eftir þeim og ég hef ekki fundið þau.

Hv. þingmenn stjórnarliðsins og sérstaklega hæstv. utanrrh. hafa talað um að menn hafi vakið falsvonir. Ég veit ekki hverjir það eru sem hafa vakið falsvonir. Stjórnarandstaðan hefur ekkert gert annað en að lesa upp úr dómnum og túlka hann eins og t.d. Öryrkjabandalagið hefur sjálft gert og það ætti nú gerst að þekkja til þessara mála og vera túlkunarhæfast. Hverjir eru það, herra forseti, sem hafa vakið falsvonir?

Hafi verið vaktar falsvonir, vonir sem hafa ekki innstæðu, þá hefur það gerst með málflutningi stjórnarliða á þessum tveimur dögum. Þeir hafa talað um að nú sé komin í gang nefnd sem eigi að fjalla um málefni öryrkja og þá verði líf þeirra allt annað og miklu betra. Hæstv. ráðherrar Framsfl. hafa sérstaklega talað í þá veru að sú nefnd sem er nú að störfum og á að ljúka fyrir 15. apríl muni gjörbreyta kjörum öryrkja. Ég vísa sérstaklega til þess, herra forseti, að hæstv. utanrrh. sagði í umræðunni í gær að talan 43 þús. sem lágmarksupphæð, sem við höfum hér verið að deila um, væri ekkert heilög. Út af fyrir sig má segja, herra forseti, að þeir menn sem telja að stjórnarandstaðan hafi engan styrk og engin áhrif, ættu e.t.v. að hugsa sig um tvisvar því það var í kjölfar þeirrar umræðu sem hófst í gær sem hæstv. utanrrh. fór að bakka og segja að talan væri ekkert heilög. Við eigum auðvitað, vegna þess að hér er nú staddur hv. formaður heilbr.- og trn., eftir að sjá hvort það kunni að reyna á þessi orð í meðförum nefndarinnar.

Ég vísa líka til þess sem hæstv. heilbrrh. sagði í gær. Hún tók svipað til orða. Hæstv. heilbrrh. sagði í fjölmiðlum í gær að í meðförum nefndar kæmi vel til greina að breyta þessari tölu og nú reynir á það. Ef það verður ekki gert, hverjir hafa þá vakið falsvonirnar?

Herra forseti. Segja má að umræðan síðustu tvo daga hafi í reynd snúist um fjögur atriði. Í fyrsta lagi hvort þurfi sérstök lög til að greiða öryrkjum út óskerta tekjutryggingu. Hafði stjórnarandstaðan rétt fyrir sér eða hafði hún rangt fyrir sér í því efni? Ég gæti auðvitað haldið nokkra ræðu um það en ég ætla ekki að gera það vegna þess að hv. þm. Lúðvík Bergvinsson hélt þá ræðu sem um þetta efni var móðir alla ræðna vegna þess að hann tók þar fyrir lið fyrir lið röksemdir stjórnarliðanna um þetta efni og lögfræðingarnir nánast allir í liði stjórnarinnar sátu hér í salnum og hlustuðu á þetta og þeir komu ekki upp til andmæla.

Með öðrum orðum: Ekki er hægt að draga aðra ályktun af því en að það sem hv. þm. Lúðvík Bergvinsson hafði fram að færa í ákaflega skýru, lögfræðilegu máli hafi verið niðurstaða sem hv. þm. stjórnarliðsins treystu sér ekki til þess að andmæla. Ég dreg því þá ályktun að stjórnarandstaðan hafi unnið þessa þrætu, þ.e. við höfum komist málefnalega að þeirri niðurstöðu sem hv. þm. stjórnarliðsins treystu sér ekki til þess að andmæla í ræðum eða andsvörum að ekki hafi þurft sérstök lög til að hægt væri að greiða öryrkjum út óskerta tekjutryggingu í janúar. Við þurfum með öðrum orðum ekki að ræða frekar um það vegna þess að við höfum lagt rök okkar á borðið og þeim var ekki andmælt af þeim þremur eða fjórum lögfræðingum sem eru í liði ríkisstjórnarinnar og sumir þeirra sitja í salnum í dag.

Herra forseti. Í öðru lagi, og það er mál sem skiptir verulega miklu en hefur fengið ótrúlega litla umræðu, þá er eitt af því sem hér er að gerast sú staðreynd að verið er að leggja fyrir frv. sem hefur í för með sér afturvirkni, þ.e. með frv. ríkisstjórnarinnar er lagt til að þegar menn fara að greiða öryrkjum bætur aftur í tímann verði fyrstu tvö árin, þ.e. frá núverandi dagsetningu til byrjunar ársins 1999, beitt þeirri skertu tekjutryggingu sem er að finna í frv. hérna. Og, herra forseti, síðan hvenær hefur Sjálfstfl. verið sérstaklega talsmaður þess að beita afturvirkni með þessum hætti?

Þetta er eitt af því sem við höfum fært inn í umræðuna. Ég hef spurt hv. þm. Sjálfstfl. um það hvernig á því standi að þeir treysti sér til að flytja þetta fram og ég hef engin svör fengið.

Ég hef bent á það í umræðunni, herra forseti, að einmitt á Þingvöllum 1994 lofuðum við breytingum á stjórnarskránni sem við uppfylltum síðan 1995 og þar inni eru einmitt ákvæði um afturvirk lög. Ég spyr, herra forseti: Hvernig stendur á því að Sjálfstfl. reynir ekki einu sinni, aðspurður, að útskýra hvernig hann treystir sér til þess að gera þetta?

Í þriðja lagi, herra forseti, höfum við deilt um það hversu langt aftur á að greiða þeim öryrkjum bætur sem urðu fyrir því að peningar voru teknir af þeim með ólögmætum hætti. Hæstv. ríkisstjórn hefur sagt að í reynd væri hægt að fara þá leið að borga aðeins tvö ár aftur í tímann. Hún er hins vegar í jólaskapi, má ráða af þeirri greinargerð sem fylgir hér eða skýrslu starfshópsins margfræga, og þess vegna ætlar hún að borga fjögur ár aftur í tímann.

Herra forseti. Nú er það svo að það er enginn ágreiningur um það í Hæstarétti eða annars staðar og ekki í þessum sal heldur að á árabilinu 1994 til loka árs 1998 var tekjutrygging öryrkjanna skert með reglugerð sem ekki átti sér lagastoð. Og enginn mótmælir því að sú skerðing var þar af leiðandi óheimil. Það liggur líka fyrir að þessi skerðing felur í sér brot á mannréttindum sem í dag eru varin af stjórnarskránni.

Fyrnast mannréttindabrot? Ég er ekki lögfræðingur en ég er þeirrar skoðunar að mannréttindabrot fyrnist ekki. Ég er þess vegna þeirrar skoðunar að það eigi af þeirri ástæðu og ríkisstjórnin hefði af siðferðilegum ástæðum átt að taka það frumkvæði að lýsa yfir að hún mundi greiða sjö ár aftur í tímann. Þar að auki, herra forseti, liggur fyrir að samkvæmt íslenskum lögum felur réttarbrot í sér að skaðabótaábyrgð stofnast. Í þessu tilviki tel ég alveg ljóst að ef einstakir öryrkjar mundu fara í skaðabótamál við ríkið þá njóta þeir þeirrar verndar sem lögin tala um, þ.e. slíkar kröfur fyrnast á tíu árum. Samkvæmt því, herra forseti, er alveg ljóst að þeir eiga lagalegan og siðferðilegan rétt, a.m.k. siðferðilega heimtingu á því að fá greitt með þessum hætti aftur í tímann.

[19:00]

Herra forseti. Þess utan er það alveg ljóst að fyrning, jafnvel þó við lítum svo á að hér sé ekki um skaðabótakröfu að ræða heldur framfærslukröfu, rofnar samkvæmt íslenskum lögum við það að málsaðili höfðar mál. Það hefur gerst í þessu tilviki. Öryrkjabandalagið höfðaði mál gegn Tryggingastofnun ríkisins fyrir hönd framkvæmdarvaldsins og það þýðir auðvitað að fyrningin hefur rofnað. Það sýnir hins vegar viðhorf ríkisstjórnarinnar gagnvart Öryrkjabandalaginu að hún hafnar því að Öryrkjabandalagið sé í reynd réttur fyrirsvarsaðili. Þetta finnst mér með ólíkindum þegar horft er til þess að bæði undirréttur og Hæstiréttur hafa samþykkt Öryrkjabandalagið sem réttan fyrirsvarsaðila í málinu. Þetta þykir því mér enn og aftur sýna það hugarfar sem hefur litað alla þessa tveggja ára togstreitu á milli hæstv. ríkisstjórnar og Öryrkjabandalagsins. Mér finnst þetta ekki gott, herra forseti.

Í fjórða lagi hafa menn svo deilt um það sem skiptir kannski mestu í þessu máli og það er hvað fólst í dómnum. Hvað fólst í dómnum? Menn hafa lagt í það ákaflega misjafnar túlkanir. Hæstv. forsrh. segir t.d. í Morgunblaðinu í dag, með leyfi forseta:

,,Það kemur fram í texta meiri hluta Hæstaréttar að fyrir því eru málefnaleg rök að miða bætur öryrkja við tekjur maka. Hæstiréttur beinlínis segir það að fyrir því séu málefnaleg rök.``

Það hefur enginn maður í allri þessari umræðu treyst sér til þess að orða þetta eins og hæstv. forsrh. gerir. Hvergi í öllum texta Hæstaréttar er að finna nokkuð sem gefur tilefni til þess að halda því fram að Hæstiréttur segi beinlínis að málefnaleg rök séu fyrir því að miða bætur öryrkja við tekjur maka. Þetta er það sem allir hinir á þessu þingi hafa verið að deila um, hvort þetta standist eða ekki. Hvergi er þetta að finna. Menn hafa verið að fara í útúrsnúninga, skæklatog og lagaþrætur til þess að reyna að leiða rök að því að einhvers staðar kunni þessi meining að dyljast. En enginn hefur lesið dóminn á þann veg sem kemur fram hjá hæstv. forsrh.

Herra forseti. Gæti það hafa gerst að hæstv. forsrh. hefði ekki lesið dóminn út í hörgul eins og flestir aðrir sem hér hafa tekið til máls um þetta mál?

Hv. þingmenn eins og t.d. hv. þm. Pétur Blöndal hafa hangið á bara einu hálmstrái varðandi dóminn. Hv. þm. og fjöldi starfsbræðra hans, fjöldi félaga hans úr ríkisstjórnarliðinu hafa hangið á því eins og hundar á roði að í textanum, í dómsforsendum er á einum stað sagt, þar sem verið er að greina frá því að óheimilt sé að skerða tekjutryggingu örorkulífeyrisþega í hjúskap: ,,á þann hátt``. Nú langar mig, herra forseti, til þess að taka af allan vafa um hvert dómsorðið sjálft er, að lesa, með leyfi forseta, upp úr því. Þar segir:

,,Einnig er viðurkennt, að óheimilt hafi verið að skerða tekjutryggingu örorkulífeyrisþega í hjúskap frá 1. janúar 1999 samkvæmt 5. mgr. 17. gr. laga nr. 117/1993, sbr. 1. gr. laga nr. 149/1998.``

Þetta dómsorð getur ekki verið skýrara. Það er einfaldlega óheimilt að skerða tekjutrygginguna með þessum hætti. En það er rétt hjá ýmsum þingmönnum að í dómsforsendunum sjálfum segir: ,,... á þann hátt sem gert er í 5. mgr. ...`` Til að skilja nákvæmlega hvað hér er verið að fara þá þurfum við að skoða 17. gr. Og um hvað fjallar þessi grein sem verið er að vísa til? Hún fjallar um það hvernig heimilt er að skerða tekjutryggingingar og það er heimilt samkvæmt ýmsum málsgreinum þessarar lagagreinar að gera það vegna eigin tekna, vegna lífeyrissjóðstekna og síðan er í 5. mgr. einmitt fjallað um skerðingu vegna tekna maka. Það er einfaldlega þannig og ekki er hægt að mótmæla því. Með því að taka svona til orða er dómurinn klárlega að segja að heimilt sé að skerða tekjutryggingu öryrkjans áfram með þeim hætti sem er gert í fyrri málsgreinum, þ.e. vegna eigin tekna og vegna lífeyrissjóðstekna, en ekki, svo að ég vísi aftur orðrétt í dóminn: ,,... á þann hátt sem gert er í 5. mgr. ...``, þ.e. í krafti tekna makans. Ég held því fram að túlkun þeirra sem reyna að hanga á þessu byggi annaðhvort á vanþekkingu eða vísvitandi vilja til þess að reyna að snúa út úr þessu. Orðalagið sem þarna er vitnað til staðfestir fyrir mér endanlega að Hæstiréttur telur óheimilt að nota tekjur makans til þess að skerða tekjutrygginguna, en jafnframt segir hann að það sé heimilt að beita annars konar tekjutengingum, þ.e. vegna eigin tekna, vegna lífeyrissjóðstekna. Þetta er því alveg kristaltært og tilraunir þess að halda öðru fram byggjast ekki á rökum. Þær byggjast á óskhyggju og vilja og við slíkt er að sjálfsögðu ekki hægt að slást vegna þess að þar er ekki við rök að etja heldur einhvers konar sálfræði.

Herra forseti. Mig langar líka undir lok máls míns að gera hér að umtalsefni starfshópinn sem hefur unnið þetta frv. Það hefur komið fram aftur og aftur af hálfu þeirra sem talað hafa fyrir hönd stjórnarliðsins að þessi starfshópur hafi staðið sig svo afskaplega vel og hann hafi verið svo málefnalegur. Eigi að síður lýtur grundvallaratriði í þessu frv., sem tekið er beint upp úr skýrslu starfshópsins, að því hver er hinn stjórnarskrárvarði einstaklingsbundni lágmarksréttur sem þeir sem eru í stöðu öryrkjans eiga að hafa. Í skýrslunni er sagt að hann nemi 43 þús. kr. Ég hef aftur og aftur spurt hv. þm. stjórnarliðsins hvernig þeir komist málefnalega að þessari niðurstöðu og það er engin leið að sýna fram á það. Ég hef spurt jafnt sjálfstæðisþingmenn sem framsóknarmenn og ég spyr aftur þá sem hér eru í salnum: Hvernig komast menn að þeirri niðurstöðu að þessi upphæð eigi að vera 43 þús. kr.? Ég held t.d. að það sem hæstv. heilbrrh. hefur sjálf sagt um þetta mál bendi einmitt til þess að hún eigi að vera 51 þús. kr. Á hverju byggi ég það, herra forseti? Ég byggi það á því að hæstv. heilbrrh. hefur sagt að hún stefni að því að afnema það kerfi sem gerir mögulegt að skerða tekjutrygginguna með tekjum maka. Það þýðir að eftir stendur tvennt, þ.e. grunnörorkulífeyririnn og tekjutryggingin sem í dag er 51 þús. kr. Og ég vísa líka til þess, herra forseti, að samkvæmt skattalögum þá er þar líka upphæð sem ber að horfa til vegna þess að persónuafslátturinn er varinn. Við erum ekki látin greiða skatt af honum, herra forseti. Það er vegna þess að þar er upphæð sem er auðvitað sérhverjum einstaklingi nauðsynleg til þess að geta framfleytt sér og sínum.

Herra forseti. Ég gerði mér ekki grein fyrir því að svona langt væri liðið á ræðu mína. En ég lýsi því yfir, herra forseti, að ég er enn þeirrar skoðunar eftir þessa umræðu að hér sé um væntanleg ólög að ræða og ég tel enn að hér sé verið að framlengja stjórnarskrárbrot.