Almannatryggingar

Fimmtudaginn 18. janúar 2001, kl. 19:12:26 (3973)

2001-01-18 19:12:26# 126. lþ. 61.1 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 126. lþ.

[19:12]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Hæstiréttur flutti að sjálfsögðu ekki brtt. við þessa málsgrein. Hann gerði það að sjálfsögðu ekki, enda ekki hans hlutverk. Hann sagði eingöngu að ekki mætti skerða örorkulífeyri með þeim hætti sem þar er talað um. Ef menn líta þannig á að úrskurður Hæstaréttar hafi breytt þessari málsgrein einhvern veginn þá ættu þeir að segja mér hvernig. Ég var ekki sáttur við útskýringar hv. þm. Lúðvíks Bergvinssonar vegna þess að þær eru órökréttar.

Ef Hæstiréttur hefur breytt þessari málsgrein einhvern veginn þá þarf að vita hvernig. Á að leggja saman tekjur heimilisins eins og gert er ráð fyrir þarna, beggja hjóna, eða hvað? Það er nefnilega allt saman í lausu lofti eftir dóm Hæstaréttar. Því varð að setja lög. Það er allt í lausu lofti. Það getur enginn sagt mér hvort leggja eigi saman tekjur heimilisins eftir sem áður. Á að taka tekjur makans út úr? Hver segir það? Og hvernig? Það er nefnilega allt í lausu lofti. Ef þessi grein fellur niður með dómi Hæstaréttar, ef einhver telur það, þá má bara ekki borga þessu fólki tekjutryggingu og þá finnst mér nú aldeilis ástæða til þess að setja lög. Það er því alveg sama hvernig við lítum á dóm Hæstaréttar, hvort hann hafi breytt þessu, hvort hann hafi fellt hana niður eða hvað hann hafi gert, allt er í lausu lofti og ekki nokkur leið að finna út úr því hvað eigi að gera.

Forstjóri Tryggingarstofnunar hefur ekki löggjafarvald enn þá.