Almannatryggingar

Fimmtudaginn 18. janúar 2001, kl. 19:40:43 (3976)

2001-01-18 19:40:43# 126. lþ. 61.1 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, ÁRJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 126. lþ.

[19:40]

Ásta R. Jóhannesdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla ekki að lengja umræðuna en ég get ekki látið hjá líða að koma með smáathugasemd við ræðu hæstv. ráðherra vegna samanburðarins við Norðurlönd þar sem hann tiltekur sérstaklega að kjör öryrkja á Íslandi séu einna best á Norðurlöndunum. Það er náttúrlega enginn vandi að finna það út ef menn koma með rangar tölur. Mig langar bara að vísa í samanburðartöfluna á bls. 18 í fskj. frv. þar sem borinn er saman mánaðarlegur lágmarkslífeyrir á Norðurlöndunum. Þar er talað um tekjutrygginguna sem við höfum mikið talað um í umræðunni. Þar er hún sögð vera 43.396 kr. árið 1998 en eftir hækkunina núna um síðustu áramót er hún rúmar 31 þús. kr. Þar er ansi mikill munur á. Hefur hún lækkað milli 12--13 þús. kr. milli tveggja til þriggja ára? Það er alveg ljóst að í skjalinu eru rangar upplýsingar. Þetta er nokkuð sem við munum fara yfir í nefndinni en það er enginn vandi að segja að kjör lífeyrisþega séu fremur góð á Íslandi ef menn leggja fram rangar tölur.

En þetta er sem sagt staðreynd, að í þessu plaggi eru rangar tölur á ferðinni.