Almannatryggingar

Fimmtudaginn 18. janúar 2001, kl. 19:42:18 (3977)

2001-01-18 19:42:18# 126. lþ. 61.1 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 126. lþ.

[19:42]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég hef ekki haldið því fram að lífskjör öryrkja séu sérstaklega góð. Ég hef aldrei haldið því fram. Ég sé hins vegar ekki ástæðu til að rengja þær upplýsingar sem koma frá samnorrænni stofnun sem hefur fjallað um þessi mál um langan tíma.

Ég vil vitna til Stefáns Ólafssonar svo að öllu sé til skila haldið. Hann segir í lok bókarinnar um Íslensku leiðina, með leyfi forseta: ,,Þannig verður lífskjaraskipting norrænu þjóðanna misjöfn. Fátækt er enn heldur meiri á Íslandi og tekjuskiptingin ívið ójafnari. Lífskjaravandi sérhópa er því heldur meiri á Íslandi en hjá frændþjóðunum. Að öðru leyti komu Íslendingar mjög vel út úr öllum samanburði á lífskjörum og lífsgæðum, bæði gagnvart norrænum þjóðum og öðrum vestrænum þjóðum.``

Hann segir sem sagt að tekjuskiptingin sé ívið ójafnari. Hvað segir það okkur? Það segir okkur að ástæða sé til að jafna kjörin meira í landinu. Er þá ekki rétt að reyna að halda í þær heimildir sem löggjafarvaldið hefur til að jafna kjörin? Eða vill hv. þm. fórna þeim og telur hann enga ástæðu til að líta eitthvað á slíka hluti og áhrifin af því ef hér eru afgreidd lög í einhverju fljótræði sem geta haft áhrif á ýmislegt annað í þjóðfélaginu? Ætli það sé ekki ástæða til þess að halda í þær heimildir fyrir löggjafarvaldið?