Almannatryggingar

Fimmtudaginn 18. janúar 2001, kl. 19:47:16 (3980)

2001-01-18 19:47:16# 126. lþ. 61.1 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 126. lþ.

[19:47]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég held að ég sé smátt og smátt að átta mig betur á hugmyndum hæstv. utanrrh. um jafnaðarstefnuna. Þær virðast vera á þá leið að eingöngu sé hægt að jafna niður á við. Það er eins og það vanti alveg inn í hugarheim hæstv. utanrrh. að líka er hægt að jafna kjörin upp á við með því að bæta stöðu þeirra sem minna hafa á kostnað hinna sem standa betur. Það er t.d. hægt að gera í gegnum aðgerðir eins og hátekjuskatt og það að þeir sem hæst hafa launin greiði meira.

En mér finnst undarleg þessi áhersla á hinn endann að tekjujöfnunin eigi að gerast t.d. alveg sérstaklega í gegnum það að nauðsynlegt sé að skerða þetta litla sem öryrkjar á Íslandi hafa þó tryggt sem einstaklingar.

Í öðru lagi held ég að hæstv. utanrrh. eigi ekki að stilla þessu þannig upp að í okkar túlkun á dómnum felist að hámarksbætur verði að lágmarksbótum því að þetta eru alls ekki einu greiðslurnar sem lög tryggja þessu fólki. Til viðbótar þessu koma greiðslur sem lúta sérstökum aðstæðum eins og heimilisuppbætur, sérstök heimlisuppbót, ýmiss konar heimildarbætur o.s.frv., þannig að þó að óskert tekjutryggingin yrði þarna ákveðinn grunnur, þá er það ekkert lágmark þar með. Áfram gætu aðstæður skert hluti eins og heimilisuppbætur.

Tölfræði hæstv. utanrrh. sem leggur saman alla dómendur á báðum dómstigum og bætir þar við umboðsmanni Alþingis, hafna ég og mér finnst ekki sanngjarnt að draga Gauk Jörundsson, fyrrv. umboðsmann Alþingis, til ábyrgðar á þessum hlutum eins og gert er ítrekað af hæstv. utanrrh. og hæstv. heilbrrh.

Að lokum, herra forseti, snýst þetta mál um stjórnarskrána, hún hafi verið brotin og síðan túlkun á því hvort frv. ríkisstjórnarinnar fullnægi þessum dómi. Er nú ekki ástæða til í ljósi sögunnar og reynslunnar að umgangast þessi ákvæði og réttindi stjórnarskrárinnar af varúð, að láta stjórnarskrána njóta vafans?