Almannatryggingar

Fimmtudaginn 18. janúar 2001, kl. 19:54:03 (3983)

2001-01-18 19:54:03# 126. lþ. 61.1 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 126. lþ.

[19:54]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla ekki að deila við þingmanninn um þetta upp eða niður. Það eru tveir takkar á ræðustólnum, á öðrum stendur upp en á hinum stendur niður og nú skal ég sýna hv. þm. að ég kann á þá. En mér finnst þetta ekki vera flóknara en það og ég ætla ekki að fara að rökræða það frekar.

Vegna þess sem hv. þm. sagði út af því að ég væri að leggja saman níu dómendur, þá var það ekki frá 1988. Ég var að tala um þrjá dómendur í héraðsdómi, ég var að tala um fimm dómendur í Hæstrétti og síðan var ég að tala um umboðsmann Alþingis. Þetta eru bara staðreyndir og liggur alveg ljóst fyrir. Ég skil ekki af hverju má ekki ræða og tala um það. Ég tel að dómar Hæstaréttar um hvað eina séu ekki guðslög en við tökum að sjálfsögðu fullt mið af þeim dómum. En ekki er þar með sagt að allt sé þar rétt, enda eigum við ekki að þurfa að ræða um það. Þetta er niðurstaðan. (SJS: Það er meiri hlutinn sem ræður.) Að sjálfsögðu, jú, jú. Og líka hér á Alþingi. (SJS: Og að allt dæmið sé reiknað.) Og líka hér á Alþingi, þá ræður meiri hlutinn. Þannig er það líka í Hæstarétti, þannig er lýðræðið og við sættum okkur við það. En ég sé ekkert því til fyrirstöðu að bera þá virðingu fyrir minni hlutanum að nefna megi hann á nafn hvort sem það er á Alþingi, í Hæstarétti, í héraðsdómi eða annars staðar í þjóðfélaginu. Ég skil ekki þessa heilögu vandlætingu stjórnarandstöðunnar að ekki megi tala um minni hluta þegar dómstólar eru annars vegar, það sé bara alveg hræðilegt að nefna það á nafn. Þetta er undarleg afstaða hjá stjórnarandstöðunni.