Almannatryggingar

Fimmtudaginn 18. janúar 2001, kl. 19:56:19 (3984)

2001-01-18 19:56:19# 126. lþ. 61.1 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 126. lþ.

[19:56]

Lúðvík Bergvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Vegna orða hæstv. utanrrh. um að Alþingi sé að missa tökin á eða missa heimildir til þess að jafna kjörin með ákveðnum tekjutengingum, þá er langur vegur frá því að dómurinn verði túlkaður á þan veg. Hins vegar er alveg augljóst og það kemur fram í dómnum að ákveðin einstaklingsbundin réttindi eru fest í sessi sem ákveðið lágmark, sem ekki megi skerða á þann hátt sem gert var, þ.e. með tekjum makans. Ég held því að ástæðulaust sé að vera að rugla þessu saman.

Ég taldi reyndar sjálfur þegar hæstv. utanrrh. var að tala um að hann skildi ekki hlutina og aðrir skildu þá betur, þá væri hann að gera góðlátlegt grín, ég tók það þannig. En hins vegar brá mér örlítið í brún þegar hann sagði: Af hverju getum við ekki borgað langt, langt aftur í tímann, 15--20 ár? Ég taldi að það hefði komið nægilegt skýrt fram í umræðunni að lagaheimild fyrir því skorti í lögin frá 1993.

Í framhaldi af því komu inn stjórnarskrárákvæði frá 1995. Af þeim ástæðum er ekki hægt að fara aftar en til ársins 1993. En meginástæðan fyrir því að ég kem hér upp er umræðan um fyrningu. Mér hefur þótt það jaðra við ósvífni að menn skuli beita fyrir sig fyrningu þegar þeir hafa verið uppvísir að og dæmdir fyrir mannréttindabrot. Mér finnst það alveg svakalegt og grafalvarlegt mál að slík viðhorf séu uppi, að menn séu að beita lagatæknilegum aðferðum í því skyni að reyna að fyrna bótarétt. Mér finnst það alveg grafalvarlegt mál og það er það sem mér finnst hreinasta ósvífni.

Ég get bætt við í þessu samhengi af því að sá fræðimaður sem mest hefur verið kenndur í lagadeildinni hélt því fram og heldur því fram fullum fetum að viðurkenningardómur slíti fyrningu en ég ætla ekki að fara út í þá umræðu hér. En mér finnst alveg grafalvarlegt mál þegar menn beita fyrir sig fyrningarákvæðum þegar um mannréttindabrot er að ræða.