Almannatryggingar

Fimmtudaginn 18. janúar 2001, kl. 20:00:33 (3986)

2001-01-18 20:00:33# 126. lþ. 61.1 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 126. lþ.

[20:00]

Lúðvík Bergvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég veit ekki hversu vel hæstv. utanrrh. hefur fylgst með þegar þessi lagabreyting var gerð, þ.e. þegar stjórnarskránni var breytt, vegna þess að þá var settur inn nýr mannréttindakafli. Ef menn ætla að halda því fram að það að setja nýjan mannréttindakafla inn í stjórnarskrána hafi ekki verið veruleg breyting, virðulegi forseti, ætla ég að draga þá ályktun að menn hafi ekki fylgst mjög vandlega með því sem þá fór fram.

Hæstv. utanrrh. talaði um lagatæknileg atriði og að fara að lögum. Þá er rétt að upplýsa að menn þurfa ekki að bera fyrir sig fyrningu. Þetta eru svokölluð frávíkjanleg lög, menn geta viðurkennt kröfur. Menn þurfa ekki að bera það fyrir sig. Þær deyja ekki sjálfkrafa, það er ekki þannig. Menn geta viðurkennt kröfur jafnvel aftar í tímann. Mér fannst að menn eigi ekki að vera að bera fyrir sig það sem ég kalla lagatæknileg atriði vegna þess að talsverður ágreiningur er um það hvort viðurkenningardómar hlíti fyrningu eða ekki. Það er það sem ég á við þegar ég kalla þetta lagatæknileg atriði að bera slíka hluti fyrir sig í tilvikum eins og þessum þar sem Hæstiréttur kemst að þeirri niðurstöðu að menn hafi með ranglátum hætti, með röngum lögum, haft bætur af fólki sem þær átti að fá. Þess vegna segi ég enn og aftur og ítreka það sem ég hef sagt áður að mér þykir það nánast hreinasta ósvifni að bera fyrir sig fyrningu þegar um brot á mannréttindum er að ræða.