Almannatryggingar

Mánudaginn 22. janúar 2001, kl. 10:32:08 (3993)

2001-01-22 10:32:08# 126. lþ. 63.1 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, Frsm. meiri hluta JBjart
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 126. lþ.

[10:32]

Frsm. meiri hluta heilbr.- og trn. (Jónína Bjartmarz):

Herra forseti. Ég mæli fyrir áliti meiri hluta hv. heilbr.- og trn. sem fyrir liggur á þskj. 658.

Frv. til laga um breyting á lögum um almannatryggingar var til meðferðar og umræðu á fundi nefndarinnar sl. föstudag. Nefndin kvaddi til fundar við sig fjölda sérfræðinga á sviði lögfræði og mannréttinda auk fulltrúa Öryrkjabandalagsins, verkalýðshreyfingarinnar, Samtaka aldraðra, norrænu hagsýslunefndarinnar á sviði félagsmála, o.fl. eins og greinir í nefndaráliti meiri hlutans.

Niðurstaða meiri hlutans er að með því að hækka lágmarksupphæð sem örorkulífeyrisþegi hefur til ráðstöfunar úr 18.424 kr. í 43.424 kr. uppfylli löggjafinn skyldur sínar skv. 76. gr. stjórnarskrárinnar og jafnframt að dómi Hæstaréttar sé þar með fullnægt, eins og lagt er til í frv. því sem fyrir þinginu liggur. Þessu til stuðnings vísar meiri hluti nefndarinnar til skýrslu starfshóps ríkisstjórnarinnar sem birt er sem fylgiskjal með frumvarpinu og jafnframt til ummæla þeirra Sigurðar Líndals prófessors, Eiríks Tómassonar prófessors og Skúla Magnússonar lektors sem allir komu á fund nefndarinnar. Í máli þeirra kom fram það samdóma álit að hvorki 1. gr. frumvarpsins né frumvarpið í heild væri í andstöðu við stjórnarskrána. Í sama streng tóku lögfræðingarnir Guðrún Gauksdóttir og Oddný Mjöll Arnardóttir sem einnig komu á fund nefndarinnar.

Í máli Eiríks Tómassonar kom fram að það væri meginregla að túlka bæri viðurkenningardóma sem kvæðu á um valdmörk löggjafarvaldsins þröngt sem felur í sér að nota eigi þá skýringarleið sem hefur minnstar skerðingar á valdheimildum löggjafans í för með sér. Í þessu tilviki sé því réttast að túlka dóminn þannig að hann feli ekki í sér algert bann við tekjutengingu tekjutryggingar við tekjur maka, enda gefur dómurinn ekki skýrt til kynna að svo sé.

Herra forseti. Dómur Hæstaréttar fjallar aðeins um þau tilvik þar sem annað hjóna nýtur örorkulífeyris, sbr. 5. mgr. 17. gr. almannatryggingalaga. Engu að síður tekur frumvarpið einnig til þeirra tilvika sem um getur í 6. og 7. mgr. 17. gr. laganna, eða til tilvika þar sem bæði hjón eru örorkulífeyrisþegar og þeirra tilvika þar sem annað hjóna er örorkulífeyrisþegi og hitt ellilífeyrisþegi. Meiri hlutinn telur að með þessu sé gætt jafnræðis á milli þeirra hópa öryrkja sem hér greinir.

Eins og fram kemur í nefndaráliti meiri hlutans með þeim rökum sem þar eru greind telur meiri hlutinn að ákvæði frv. um greiðslur aftur í tímann uppfylli allar kröfur gildandi laga og meginreglur íslensks réttar. Þar er um að ræða ívilnun frá þeim reglum sem í gildi voru og því sé þar um að ræða ívilnandi ákvörðun sem sé heimilt að taka og löggjafinn er bær til að ákveða, samanber einnig álit fræðimanna við lagadeild Háskóla Íslands svo sem greinir í nefndaráliti meiri hlutans. Hið sama á við um greiðslu vaxta á þeim fjárhæðum sem einstaklingar eiga kröfu á samkvæmt frv.

Þá eru í frv. ákvæði um með hvaða hætti Tryggingastofnun ríkisins skuli hafa frumkvæði að því að greiða öryrkjum þær fjárhæðir sem frv. mælir fyrir um en jafnframt að þeir öryrkjar sem ekki hafa sótt um tekjutryggingu hafi til þess tiltekinn tíma. Að mati meiri hluta nefndarinnar er nauðsynlegt að kveða á um þetta í lögum. Hið sama á við um skattalega meðferð þessara greiðslna þar sem frv. gerir ráð fyrir að öryrkjar geti sótt um að greiðslur verði færðar til skattskyldra tekna þessara ára sem getur leitt til hagstæðari skattalegrar niðurstöðu.

Nefndin tók sérstaklega til skoðunar hvernig sambærilegum greiðslum og hér um ræðir er háttað á öðrum Norðurlöndum. Samkvæmt þeim upplýsingum sem fyrir liggja kemur fram að tekjutengingar almannatryggingabóta viðgangist í nær öllum löndum Evrópu og að sú staðhæfing að tekjur maka hafi hvergi áhrif nema á Íslandi sé ekki rétt. Tilgangurinn sé alls staðar sá sami þar sem tryggingarnar hafa úr takmarkaðri fjárhæð að spila, þ.e. að tryggja þeim sem verst eru settir hærri bótagrunn með því að skerða bætur á grundvelli tekna hjá þeim sem hafa tekjur eftir öðrum leiðum. Þetta eru þau rök sem tekjutengingar hér á landi hafa alla tíð byggst á.

Meiri hlutinn telur mikilvægt að hafa í heiðri þau grundvallarsjónarmið að ávallt verði mögulegt að tryggja þeim sem mest þurfa á að halda þeirri aðstoð sem nauðsynleg er, og ef því er að skipta, á kostnað þeirra sem meira hafa.

Þá vil ég vekja athygli á niðurlagi nefndarálits meiri hlutans þar sem kemur fram að starfandi nefnd á vegum ríkisstjórnarinnar sem vinnur að heildarendurskoðun almannatryggingalaganna hefur verið falið að flýta vinnu sinni þannig að hún geti skilað tillögum sínum til ríkisstjórnarinnar fyrir miðjan apríl á þessu ári. Meiri hlutinn bindur miklar vonir við starf nefndarinnar og að með tillögum hennar og lagasetningu í kjölfarið verði leyst úr ýmsum öðrum álitaefnum sem vaknað hafa í kjölfar dóms Hæstaréttar, ásamt því að almenn endurskoðun á ákvæðum laganna verði til hagsbóta fyrir þá sem byggja á þeim rétt.

Þá vil ég, virðulegi forseti, taka fram að ummæli þau sem höfð eru eftir gestum í nefndaráliti meiri hlutans hafa verið borin undir gestina og þeir staðfest að ummælin séu rétt eftir þeim höfð.

Virðulegi forseti. Áður en ég lýk máli mínu vil ég leiðrétta tilvísun í hæstaréttardóm í nefndaráliti meiri hlutans en rétt tilvísun er að dóminn er að finna í dómasafni Hæstaréttar 1998 á bls. 4180.

Virðulegi forseti. Í samræmi við það sem að framan greinir leggur meiri hluti heilbr.- og trn. til að frv. verði samþykkt óbreytt.

Undir álit þetta rita hv. nefndarmenn í heilbr.- og trn. auk þeirrar sem hér stendur Tómas Ingi Olrich, Katrín Fjeldsted, Ásta Möller, Kristinn H. Gunnarsson og Pétur Blöndal.

Guðjón A. Kristjánsson sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi.