Almannatryggingar

Mánudaginn 22. janúar 2001, kl. 10:41:05 (3996)

2001-01-22 10:41:05# 126. lþ. 63.1 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 126. lþ.

[10:41]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Þetta eru mjög athyglisverð ummæli um mál sem okkur er sagt af hálfu talsmanna ríkisstjórnarinnar að sé fyrst og fremst pólitískt í eðli sínu. Við höfum í málflutningi okkar bent á að hér sé um að ræða brot á stjórnarskrá Íslands og að ekki sé farið að dómi Hæstaréttar. Það er mjög alvarlegt mál ef Alþingi ætlar að fara fram með þessum hætti.

Ríkisstjórnin hefur haldið því fram að hér séum við að fást við pólitískt álitaefni og siðferðilegt í eðli sínu. Nú er það upplýst af hálfu talsmanns meiri hluta hv. heilbr.- og trn. að um þau efni hafi alls ekki verið fjallað.