Almannatryggingar

Mánudaginn 22. janúar 2001, kl. 10:42:02 (3997)

2001-01-22 10:42:02# 126. lþ. 63.1 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 126. lþ.

[10:42]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Eitt af því sem ríkisstjórnin virðist hafa uppgötvað eftir að þessi öryrkjadómur féll var að kjör öryrkja eru afar bágborin á Íslandi og var nú ekki vonum seinna eftir fimm ára valdasetu í ríkisstjórn sem byrjaði sinn feril eftir að mannréttindaákvæði stjórnarskrárinnar voru sett með því að slíta á tengsl launa og lífeyris með þeim afleiðingum að kjör öryrkja eru orðin mjög bágborin ásamt fleiru sem ríkisstjórnin hefur beitt sér fyrir til þess að hlunnfara lífeyrisþega.

Því vil ég spyrja hv. formann nefndarinnar hvort ekki hafi komið til greina í nefndarstarfinu að flýta því að skila niðurstöðu og tillögum um hvernig eigi að bæta kjör þessa hóps. Hvers vegna þarf að bíða til 15. apríl með að leggja fram tilögur þar að lútandi? Þessi nefnd sem vísað er til er búin að starfa í marga mánuði og var það reyndar svo að öryrkjar og ellilífeyrisþegar héldu að hún mundi skila af sér fyrir áramót. Hvers vegna í ósköpunum þarf að bíða fram í miðjan apríl eftir að hún skili tillögum sínum ?