Almannatryggingar

Mánudaginn 22. janúar 2001, kl. 11:58:09 (4011)

2001-01-22 11:58:09# 126. lþ. 63.1 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 126. lþ.

[11:58]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég er ekki að snúa út úr einu né neinu. Hér stendur svo ekki verður um deilt: ,,Þegnum ríkisins verður því ekki mismunað vegna hjúskaparstöðu.``

Er hv. þm. að segja það að samkvæmt þessu megi ekki skerða vegna hjúskaparstöðu öryrkja en hins vegar vegna hjúskaparstöðu annarra lífeyrisþega og það megi skerða vegna skattalaga? Hv. þm. verður að taka þetta skýrt fram, að þetta þýði eitthvað annað en hér stendur. Það er ekki hægt að hlusta alltaf á þessa tvöfeldni í málflutningi stjórnarandstöðunnar. Hér er alls ekki verið að snúa út úr heldur lesa það sem í álitinu stendur. Mér er það alveg ljóst og ég býst við að öllum öðrum sem lesa þetta sé það ljóst. Það er mikilvægt að stjórnarandstaðan taki skýrt fram við hvað er átt og komi því á blað þannig að það skiljist.