Almannatryggingar

Mánudaginn 22. janúar 2001, kl. 12:01:21 (4014)

2001-01-22 12:01:21# 126. lþ. 63.1 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, Frsm. minni hluta BH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 126. lþ.

[12:01]

Frsm. minni hluta heilbr.- og trn. (Bryndís Hlöðversdóttir) (andsvar):

Herra forseti. Ég þóttist hafa farið mjög ítarlega yfir það í máli mínu og notaði til þess nokkurn tíma að útskýra hvers vegna ég teldi að þetta ákvæði ætti ekki við og ekki heldur lögin um fyrningu. En af því að það var dregið fram að kannski væri ekki hægt að draga beinan rétt fyrir hvern lífeyrisþega fyrir sig, og þessu hefur meiri hlutinn haldið svolítið fram í máli sínu, má alveg halda því fram að með þessu sé Hæstiréttur að segja að ekki sé sjálfgefið að þessi grein eigi við. Það má alveg lesa það út úr þessu orðalagi ef hv. þm. tekur eingöngu þetta orðalag út úr rökum Hæstaréttar að öðru leyti. En ég segi enn og aftur og vísa til þess rökstuðnings sem kemur fram í nefndarálitinu þar sem ég lagði fram fyrir því mjög ítarleg rök af hverju ég taldi að þessi ákvæði ættu ekki við og jafnvel, herra forseti, þó að þau ættu við þá væri siðlaust að bera þau fyrir sig eins og margoft eru fordæmi fyrir þegar ríkisvaldið á í hlut.