Almannatryggingar

Mánudaginn 22. janúar 2001, kl. 12:07:10 (4019)

2001-01-22 12:07:10# 126. lþ. 63.1 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, ÁMöl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 126. lþ.

[12:07]

Ásta Möller (andsvar):

Virðulegi forseti. Bætur almannatrygginga á Norðurlöndum heita ýmsum nöfnum. Hér er verið að taka saman samanburðarhæfar tölur hvort sem það heitir tekjutrygging eða annað. Það sem skiptir mestu máli í þessu sambandi er að þarna er verið að setja saman tölur um hvað einstaklingur eða hjón hafa sér til framfærslu á Norðurlöndum, hafi hann eða þau engar aðrar tekjur og þá má það heita ýmsum nöfnum. Það kemur sem sagt fram að Íslendingar standa sig einna best, best varðandi einstaklinga og álíka varðandi hjón. Það kemur m.a. fram í gögnum frá þessari nefnd eins og segir í lokaorðum samantektar frá nefndinni: ,,Þessar upplýsingar sýna að staðhæfingin að tekjur maka hafi hvergi áhrif nema á Íslandi er ekki rétt.`` En nefndin segir líka að kjör öryrkja hér á landi séu með því besta sem sést á Norðurlöndum.