Almannatryggingar

Mánudaginn 22. janúar 2001, kl. 14:01:04 (4026)

2001-01-22 14:01:04# 126. lþ. 63.1 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, ÁMöl
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 126. lþ.

[14:01]

Ásta Möller:

Virðulegi forseti. Það er augljóst af umræðum undanfarinna vikna, það kristallaðist í 1. umr. um frv. það sem hér er til umfjöllunar, að dómur Hæstaréttar í máli Öryrkjabandalagsins er í meginatriðum skilinn á tvo vegu.

Þeir sem skilja hann á þann veg sem stjórnarandstaðan skilur hann segja að þeir dragi ályktun sína af því að bera saman kröfugerð Öryrkjabandalagsins og dómsorð Hæstaréttar. Þeir aðilar segja að dómurinn þýði að óheimilt sé með öllu að tengja tekjur maka við tekjutryggingu öryrkja, dómurinn sé augljós og auðskilinn. Þeir sem skilja dóminn á þann veg horfa alfarið fram hjá rökstuðningi Hæstaréttar fyrir niðurstöðu sinni. Þar er horft fram hjá fleiri síðum í dómi Hæstaréttar þar sem forsendur dómsins eru skýrðar. Það er andstætt við þá almennu reglu að túlka dóma með því að skoða dómsorð og rökstuðning í samhengi. Þetta er eins og að lesa fyrstu og síðustu blaðsíðu í bók og telja sig þar með geta sagt til um efni hennar.

Hinn skilningurinn, sá er meiri hluti heilbr.- og trn. tekur undir, byggir á dómsorðinu með hliðsjón af forsendum dómsins, dómi Hæstaréttar í heild sinni eins og venja er. Meiri hluti heilbr.- og trn. telur að niðurstöðu Hæstaréttar beri að skilja svo að skerðing tekjutryggingar öryrkja í hjúskap með þeim hætti sem segir í 5. mgr. 17. gr. laga um almannatryggingar hafi verið óheimil með vísan til 76. gr. stjórnarskrárinnar. Hins vegar sé heimilt að gera það með öðrum hætti, þó þannig að öryrkjanum sé tryggður ákveðinn lágmarksréttur sem miðist við einstakling og uppfylli ákvæði 76. gr. stjórnarskrárinnar. Þannig verði öryrkja í sambúð tryggð ákveðin lágmarksupphæð sér til framfærslu sem óheimilt sé að skerða vegna tekna maka og það sé löggjafans að taka ákvörðun um upphæðina með hliðsjón af ákvæðum 76. gr. og 65. gr. stjórnarskrárinnar.

Eins og fram kemur í nál. meiri hluta nefndarinnar komu tólf lögfræðingar sem kallaðir voru til nefndarinnar sem slíkir, þar á meðal fjórir lögfræðingar sem sömdu skýrslu um málið, fjórir lögfræðingar sem eru kennarar við lagadeild Háskóla Íslands og lögfræðingur frá Mannréttindaskrifstofu Íslands auk lögfræðings Öryrkjabandalagsins. Það var einróma álit níu lögfræðinga af þessum tólf, þar af öllum fræðimönnunum frá lagadeild Háskóla Íslands, m.a. kennara í alþjóðlegum mannréttindareglum, að það væri réttur skilningur á dómi Hæstaréttar sem kemur fram í frv. því sem hér er til umræðu um breytingar á lögum almannatryggingar. Þeir álitu að með því að hækka lágmarksbætur öryrkja í sambúð úr 18 þús. kr. í um 43 þús. kr., sé löggjafinn að uppfylla skyldur sínar skv. 76. gr. stjórnarskrárinnar og dómi Hæstaréttar sé þar með fullnægt.

Í þessu sambandi verður að taka fast á þeim misskilningi sem borið hefur á og kom m.a. fram í viðtali við Sigríði Þorgeirsdóttur heimspeking í Morgunblaðinu í gær. Þar er fullyrt að það frv. sem hér er til umfjöllunar leiði til að tekjutrygging giftra öryrkja lækki úr 51 þús. kr. í 43 þús. kr. Þetta er alrangt. Þvert á móti þá leiðir þetta til hækkunar á tekjutryggingu giftra úr 18 þús. kr. í 43 þús. kr. Að halda öðru fram er augljóslega byggt á misskilningi og er dæmigert fyrir hvernig umræðan um málið hefur verið afvegaleidd á undanförnum vikum.

Hins vegar er íhugunarefni og í raun ámælisvert að Hæstiréttur sem hefur það hlutverk að leysa úr ágreiningsefnum geti ekki komið niðurstöðu sinni í málinu á framfæri með ótvíræðari hætti. Það hlýtur að vera Hæstarétti mikið umhugsunarefni að niðurstaða hans í máli Öryrkjabandalagsins sé það óljós að hann leiði til þeirra viðbragða í þjóðfélaginu sem við höfum orðið vitni að á síðustu vikum. Til Hæstaréttar er eðlilegt að gera þær kröfur að vinnubrögð réttarins séu til slíkrar fyrirmyndar að engrar gagnrýni sé þörf. Hæstiréttur er ein af meginstoðum samfélagsins og vinnubrögð hans verða að vera með þeim hætti að virðing sé borin fyrir þeim og þau notuð sem fyrirmynd annarra stofnana samfélagsins.

Hæstiréttur á ekki að vera hafinn yfir gagnrýni. Alrangt er að draga þá ályktun að í gagnrýni á vinnubrögð Hæstaréttar felist einhver áform um að ganga í berhögg við dóma hans. Fráleitt er að halda slíku fram og ég fullyrði að það hefur ekki hvarflað að neinum þeirra sem hafa leyft sér að gera athugasemdir um vinnubrögð Hæstaréttar í þessu máli.

Virðulegi forseti. Því hefur verið haldið fram að hægt hefði verið á grundvelli dómsins að greiða öryrkjum í hjúskap fulla tekjutryggingu 1. janúar án þess að breyta lögum. Þessi skoðun byggir á þeirri túlkun á dómi Hæstaréttar að óheimilt hafi verið að tengja tekjutryggingu öryrkja við laun maka sem meiri hluti heilbr.- og trn. er ósammála. Í þessu sambandi skiptir einnig verulegu máli að hafa í huga að í dómi Hæstaréttar segir orðrétt, með leyfi forseta:

,,Af ákvæðum þessum leiðir að af niðurstöðu máls þessa verður ekki dregin ályktun um rétt hvers einstaks lífeyrisþega, enda er hér samkvæmt kröfugerð gagnáfrýjanda einungis því ráðið til lykta hvort skerðingarákvæði 5. mgr. 17. gr. almannatryggingalaga samrýmist ákvæðum stjórnarskrár.``

Dómur Hæstaréttar er þannig viðurkenningardómur og byggir á heimild 3. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, sem kveður á um að félög eða samtök geti í eigin nafni rekið mál til viðurkenningar á tilteknum réttindum félagsmanna eða til að losa þá undan tilteknum skyldum enda samræmist það tilgangi félagsins eða samtakanna að gæta þeirra hagsmuna sem dómkrafan tekur til. Málið var ekki rekið á grundvelli einstakra öryrkja og dómurinn kveður ekki á um rétt einstakra öryrkja í þessu sambandi.

Ég er ekki lögfræðingur og þeirrar þekkingar er ekki krafist þegar fólk sækist eftir kjöri á Alþingi. Hins vegar veit ég að í kjölfar viðurkenningardóma þarf oft að koma til frekari dómsmála til að skýra nákvæmlega hvernig réttindum einstakra manna skuli varið með hliðsjón af niðurstöðu viðkenningardóma. Mál Öryrkjabandalagsins var ekki rekið á einstaklingsgrunni heldur á grunni almenns réttar. Til að kveða á um rétt einstaklinga á grunni dómsins þarf því annaðhvort að reka mál einstaklinga fyrir Hæstarétti eða setja um það skýrar reglur í lögum eins og það frv. sem hér er til umfjöllunar gerir.

Því er það svo að þegar rætt er um að eðlilegt sé að fara í frekara dómsmál til að fá fram nákvæmari skilgreiningu á rétti einstakra öryrkja eða hópa öryrkja er verið að tala um venjubundnar aðferðir í lögfræði. Það er alrangt að skilja það svo að Öryrkjabandalaginu sé att í frekari dómsmál eins og hefur verið látið að liggja. Hins vegar er það auðvitað ákvörðun þess aðila sem telur á sér brotið að gera slíkt en ég tek undir það sjónarmið, sem fram hefur komið í umræðunni síðustu daga, að telji öryrkjar að þeir þurfi í frekari dómsmál varðandi þessi mál þá verði búið svo um hnútana að um gjafsókn verði að ræða.

Varðandi það að nauðsynlegt hafi verið að setja lög til að fullnægja dómi Hæstaréttar vil ég nefna nokkur atriði. Í fyrsta lagi kveður 5. mgr. 17. gr. laganna eingöngu á um rétt öryrkja sem eru í hjúskap til tekutryggingar þar sem makinn er ekki lífeyrisþegi. Þannig kveður dómurinn strangt til tekið ekki á um rétt öryrkja í sambúð þó í lögum um almannatryggingar sé réttur þeirra sem eru í hjúskap og í sambúð sambærilegur. Þetta hafa lögfræðingar sem komu á fund nefndarinnar staðfest.

Í öðru lagi tekur dómurinn ekki á réttindum þeirra öryrkja sem eiga maka sem eru ellilífeyrisþegar eða öryrkjar. Ef dómurinn hefði verið framkvæmdur með einhverjum hætti gagnvart þeim tiltekna hópi öryrkja sem eru í hjúskap og maki ekki lífeyrisþegi skapaðist ákveðið ójafnræði milli þessara hópa sem væri undarlegt með hliðsjón af því að dómurinn gengur út á mannréttindi.

Í þriðja lagi kom fram í máli forstjóra Tryggingastofnunar ríkisins að ef dómurinn væri skilinn á þann máta að bannað væri að tengja tekjutryggingu við tekjur maka hefðu bætur fleiri hundruð öryrkja í hjúskap lækkað. Það væri í þeim tilvikum sem öryrkinn væri með hærri tekjur en maki hans. Þannig er ljóst að nauðsynlegt var að setja lög í kjölfar dóms Hæstaréttar. Meira að segja þeir sem hafa haldið öðru fram viðurkenna nú að nauðsynlegt hafi verið að setja lög, m.a. með hliðsjón af þeim aðstæðum sem hefðu skapast annars og ég hef lýst hér á undan.

Einnig er ljóst, með hliðsjón af þeirri túlkun á dómi Hæstaréttar sem meiri hluti heilbr.- og trn. Alþingis telur vera rétta, að löggjafinn þurfti að ákveða með lögum þá upphæð sem má telja með rökum að fullnægi ákvæðum 76. gr. stjórnarskrárinnar um rétt öryrkja til lágmarksframfærslu án tillits til tekna maka.

Virðulegi forseti. Í umræðu síðustu vikna hef ég orðið vör við að margir eru farnir að skilja tilgang og markmið almannatryggingakerfisins með öðrum hætti en áður hefur tíðkast. Farið er að skilgreina almannatryggingakerfið fyrst og fremst út frá réttindum burt séð frá þörf. Farið er að skilgreina þörfina sem afstæða þörf en ekki endilega raunverulega þörf. Sem dæmi um þennan málflutning eru ellilífeyrisþegar sem telja réttindi á sér brotin þegar tekjutrygging er skert að hluta eða alfarið vegna eigin tekna úr lífeyrissjóði, jafnvel þótt um verulegar tekjur úr lífeyrissjóði sé að ræða. Í 76. gr. stjórnarskrárinnar segir eftirfarandi, með leyfi forseta:

,,Öllum, sem þess þurfa, skal tryggður í lögum réttur til aðstoðar vegna sjúkleika, örorku, elli, atvinnuleysis, örbirgðar og sambærilegra atvika.``

Ég legg hér áherslu á orðalagið ,,öllum sem þess þurfa``. Það er almennt viðurkennt alls staðar í heiminum að tilgangurinn með almannatryggingakerfi og velferðarþjónustu sé að draga úr fátækt, veita þjóðfélagsþegnum viðeigandi lífskjaratryggingu og jafna lífskjör. Almannatryggingakerfið er tryggingakerfi sem ætlað er að koma til skjalanna þegar einstaklingur getur ekki framfleytt sér sökum heilsubrests, örorku, elli eða ungs aldurs.

Eitt af megineinkennum almannatryggingakerfa í heiminum er að þau líta fyrst og fremst á það sem hlutverk sitt að koma til móts við þá sem minna mega sín og að þeir sem betur komast af þurfi ekki á sama máta á stuðningi samfélagsins að halda. Þetta er grundvallarhugsunarháttur í öllum hinum vestræna heimi. Því hefur frá upphafi almannatrygginga verið tekið tillit til annarra tekna þess sem rétt hefur til bóta í almannatryggingakerfinu. Þannig er tryggt að sú takmarkaða fjárhæð sem er til skiptanna nýtist þeim helst sem þurfa raunverulega á henni að halda til framfærslu. Eftir því sem fleiri gera kröfu til aðstoðar samfélagsins og skilgreiningarþörf er víðari á því fleiri hendur skiptist fjárhæðin og minna kemur í hlut hvers og eins. Þeir sem minnst hafa fá minna í sinn hlut.

Með hliðsjón af þessu hefur mér komið á óvart í umræðu síðustu daga að ýmsir hafa lýst hugmyndum sínum á þann veg að ætla má að grundvallarhugmynd um hlutverk almannatryggingakerfisins frá upphafi sé á undanhaldi, þ.e. að það styðji þá sem eru í raunverulegri þörf fyrir aðstoð til að framfleyta sér um leið og það er notað til tekjujöfnunar í samfélaginu. Þannig kom það sjónarmið fram hjá ýmsum gestum heilbr.- og trn., m.a. frá fulltrúum verkalýðshreyfingarinnar, að almannatryggingakerfið ætti að byggja á tilteknum réttindum en ekki að vera tæki til tekjujöfnunar, það væri hlutverk skattkerfisins að sjá um tekjujöfnunina innan samfélagsins. Fyrir mér eru þetta töluverðar fréttir og gríðarleg stefnubreyting hjá verkalýðshreyfingunni sem fram til þessa hefur haldið öðru fram og sem öðrum fremur hefur verið talsmaður tekjutenginga almannatrygginga fremur en hitt.

[14:15]

Reyndar er það skoðun mín að ýmsir sem telja að fólk eigi tiltekin réttindi til lífeyris í almannatryggingakerfinu burt séð frá öðrum tekjum séu að rugla saman hlutverki almannatryggingakerfis og lífeyrissjóðakerfanna þar sem réttindi eru skilgreind og upphaf lífeyris í samræmi við ávinnslu. Almannatryggingakerfið er ekki slíkt kerfi. Það var ákveðið strax í upphafi. Ég lýsi því áhyggjum mínum af því að viðhorf til almannatryggingakerfisins er að breytast án þess að almenn umræða um það hafi farið fram í þjóðfélaginu og sérstaklega umræða um afleiðingar slíkrar stefnubreytingar verði þær að veruleika. Ég hvet til þess að slík umræða fari fram hið fyrsta.

Virðulegi forseti. Því hefur verið haldið fram að kjör öryrkja hér á landi séu lakari en kjör öryrkja annars staðar á Norðurlöndunum og dregið hefur verið í efa af hv. þm. stjórnarandstöðunnar að upplýsingar á fylgiskjali frv. séu réttar en í fylgiskjalinu eru borin saman kjör öryrkja á Norðurlöndum sem þurfa alfarið að reiða sig á opinberan stuðning sér til framfærslu. Því hefur einnig verið haldið fram af þingmönnum stjórnarandstöðunnar að tekjutengingar bóta við laun maka séu óþekkt fyrirbæri í hinum vestræna heimi. Á fund heilbr.- og trn. komu fulltrúar Íslands í norrænu hagsýslunefndinni á sviði félagsmála, NOSOSKO, sem hefur í fimm áratugi unnið að skýrslugerð um velferðarmál á Norðurlöndum og gefur árlega skýrslu um það efni. Nefndin leggur sig sérstaklega fram um að birta upplýsingar sem eru samanburðarhæfar milli landa þótt nefndinni sé augljós vandi á höndum í samanburði á réttindum í almannatryggingakerfinu þar sem kerfin eru ólík milli landa. Þessir fulltrúar staðfestu að upplýsingar á töflu 1 á bls. 18 í frv. eru réttar en þær lýsa kjörum öryrkja á Norðurlöndum sem þurfa alfarið að reiða sig á opinberan stuðning sér til framfærslu. Ég vil í því sambandi benda á í framhaldi af umræðum hér áðan milli okkar hv. þm. Bryndísar Hlöðversdóttur að þegar hún bar saman 18 þús. kr. grunnlífeyri hér á landi við 85 þús. kr. lífeyri í Danmörku gerir hún sig seka um að bera saman epli og appelsínur. Þarna er verið að tala um að í báðum kerfunum er lífeyririnn samsettur af ýmsum þáttum. Hér á Íslandi er það grunnlífeyrir, tekjutrygging, heimilisuppbót og sérstök heimilisuppbót. Í Danmörku heitir það bara öðru nafni en það sem skiptir máli í þessu sambandi er að það er verið að tala um einstaklinga sem hafa engar aðrar tekjur. Hvaða tekjur hafa þeir, hvaða stuðning hafa þeir frá almannatryggingakerfinu hér á landi? Burt séð frá því hvernig það skiptist niður er verið að setja saman sambærilegar tölur. Þá kemur í ljós, og þetta kom mér reyndar á óvart miðað við þá umræðu sem hefur verið, að Ísland stendur sig ágætlega í þessu sambandi. Ég er ekki þar með að segja að öryrkjar hafi háar tekjur, alls ekki. En ég er að segja að í samanburði við Norðurlöndin kemur þetta alls ekki illa út, öðru nær. Það kemur þannig út að mánaðarlegur lágmarkslífeyrir öryrkja sem er einstaklingur, býr einn, er bestur hér á landi í þessum samanburði. Mánaðarlegur lágmarkslífeyrir hjóna er í flokki með Danmörku og Svíþjóð og ég endurtek að það kom fram hjá gestum okkar í heilbrn., sem ég nefndi áðan að þeir staðfestu að þessar upplýsingar væru réttar. Ég treysti þessum upplýsingum betur en upplýsingum sem eru teknar héðan og þaðan með símhringingum út um allan heim við einstaka aðila. Varðandi þetta er hægt að fá nákvæmlega þá niðurstöðu sem manni sýnist á hverjum tíma með því að bera saman hinar ólíklegustu tölur. En þessum plöggum treysti ég.

Hvað varðar þá fullyrðingu að tekjutenging bóta við laun maka sé óþekkt þá segir í umsögn fulltrúa Íslands í NOSOSKO eftirfarandi:

,,Uppbætur á grunnlífeyri sem er tekjutrygging á Íslandi eru tengdar tekjum maka í Danmörku og reyndar grunnlífeyrinn einnig. Í Noregi hafa makatekjur tengingu við grunnlífeyri en Svíþjóð hefur nokkra sérstöðu vegna ATP-kerfisins.``

Þá segir einnig í greinargerð frá þessu sama fólki um tekjutengingar almannatryggingabóta í Evrópu 1. jan. 2000, með leyfi forseta:

,,Aðferðir við tekjutengingu og skilyrði eru mjög mismunandi eftir löndum. Stundum eru grunnbætur skertar, stundum viðbótarbætur (hér tekjutrygging) og stundum á þetta við um frekari viðaukabætur (hér t.d.heimilisuppbætur, frekari uppbætur, barnabætur og húsnæðisbætur).

Tengingar við tekjur maka eða jafnvel tekjur allra á heimilinu (eins og í Bretlandi) eru einnig algengar þótt þær séu vissulega sjaldgæfari en hin beina tenging við eigin tekjur bótaþegans. Bretar munu taka upp ákveðnari tengingar við tekjur maka vegna örorkubóta.

Danmörk er með tekjutengingu sem svipar mjög til íslenska kerfisins. Bótaþegi í sambúð fær lægri bætur en einhleypur og þær bætur eru síðar háðar sameiginlegum tekjum hans og maka hans. Þetta varðar ,,pensionstillæget,`` sem er jafnhátt grunnlífeyri hjá einhleypingum en aðeins helmingur hjá sambúðarfólki.

Noregur tengir grunnbætur við tekjur maka þannig að grunnbætur lækka niður í 75% af grunnupphæð ef tekjur maka fara fram yfir ákveðin mörk. Það sama á við um ákveðnar viðaukabætur (ektefelletillegg).

Svíþjóð lækkar grunnbætur niður í 72,5% af ,,grunnbeloppet`` ef viðkomandi bótaþegi er í sambúð. Þá eru viðbótarbætur lækkaðar um krónu fyrir krónu á móti hugsanlegum ATP-lífeyri`` --- sem er þá lífeyrir tengdur atvinnu.

,,Holland tekjutengir viðbótarlífeyri við tekjur maka sem er yngri en 65 ára. Í Finnlandi eru viðaukabætur tekjutengdar og koma þar tekjur maka einnig til athugunar.``

Niðurstaða þessa ágæta fólks sem kom til okkar, fólks sem er í norrænu samstarfi um samanburð á tölum úr félagslega kerfinu:

,,Þessar upplýsingar sýna þó að staðhæfingin að tekjur maka hafi hvergi áhrif nema á Íslandi er ekki rétt.``

Virðulegi forseti. Ég vil að lokum fjalla í nokkrum orðum um sjálfsvirðingu fólks því að hún hefur verið til umræðu í þessu samhengi. Ég get tekið undir það sjónarmið að sjálfstæður réttur örorkulífeyrisþega í sambúð til lífeyris frá almannatryggingakerfinu, sem hefur verið um 18 þús. kr., var of lágur. Því má segja að ég fagni niðurstöðu Hæstaréttar varðandi þetta atriði sem hefur leitt til þess að upphæðin hefur hækkað. Hins vegar get ég ekki fallist á þau rök sem haldið hefur verið fram að sjálfsvirðing og sjálfstæði örorkulífeyrisþega byggist á því hvort hann hafi 43 þús. kr. eða 51 þús. kr. milli handanna á mánuði. 7.500 kr. skipta ekki sköpum í því sambandi og ekki heldur sú staðreynd að lágmarksréttur einstaklinga sem eru ekki í sambúð er samkvæmt frv. ákvarðaður ívið hærri vegna þess fjárhagslega óhagræðis sem felst í því að búa einn. Það sem skiptir máli er að öryrki í sambúð hefur eftir að frv. hefur verið samþykkt ákveðið fjármagn milli handanna sem tryggir honum ákveðinn lágmarksframfærslulífeyri sem munar um og uppfyllir skilyrði stjórnarskrárinnar.

Virðulegi forseti. Að lokum vil ég þakka nefndarmönnum í heilbr.- og trn. og nefndarritara samstarfið í nefndinni. Þessi vinna var mjög áhugaverð og gekk afskaplega vel þrátt fyrir að um mikið álitaefni hafi verið að ræða. Ég vil sérstaklega þakka formanni nefndarinnar, hv. þm. Jónínu Bjartmarz, styrka stjórn í störfum nefndarinnar.