Almannatryggingar

Mánudaginn 22. janúar 2001, kl. 14:29:46 (4031)

2001-01-22 14:29:46# 126. lþ. 63.1 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 126. lþ.

[14:29]

Lúðvík Bergvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Í stuttu andsvari er ekki hægt að fara ítarlega yfir þá ræðu sem hér var flutt áðan en verður væntanlega gert síðar.

Hins vegar langar mig að fá skýringu hv. þm. sem hér flutti tölu sína áðan á því hvernig í veröldinni megi halda því fram að hægt sé að líta svo á að með því að finna út töluna 43.000 sé um ívilnandi aðgerð að ræða? Ég óska eftir skýringu á þessu vegna þess að þá hljótum við að spyrja ívilnandi frá hverju. Frá hverju er verið að ívilna? Væntanlega er verið að ívilna, ef ég skil hv. þm. rétt, frá því sem Hæstiréttur sagði að væri mannréttindabrot. Það er sem sagt orðinn lægsti samnefnari, það er mannréttindabrot og það að fara með þetta í þessa tölu, eru menn að gorta sig af því að verið sé að færa fram á þinginu frv. sem eiga að ívilna öryrkjum. Menn kunna ekki einu sinni að skammast sín. Þegar búið er að taka þá í gegn fyrir æðstu dómstólum og segja sem svo að verið sé að brjóta mannréttindi á þeim sem minnst mega sín, þá koma menn upp og halda því fram að þetta sé ívilnandi. Öryrkar hljóta að þakka manngæsku þessarar ríkisstjórnar að bregðast við því að ríkisstjórnin og ríkisvaldið er rassskellt fyrir að hafa brotið mannréttindi. Kjarni málsins er vitaskuld sá að eftir að þessi dómur er fallinn hefði átt að greiða út strax og það hefði átt að greiða út 51 þús. kr., þ.e. grunnlífeyrinn og tekjutrygginguna. En það er of mikið. Eins og hv. þm. sagði áðan, hvað munar fólk um 7.500 kr.? Hvað er það? Ég ætla að fullyrða það að fólk sem er með þær tekjur sem öryrkjar hafa, munar alveg helling um 7.500 kr.