Almannatryggingar

Mánudaginn 22. janúar 2001, kl. 14:31:56 (4032)

2001-01-22 14:31:56# 126. lþ. 63.1 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, ÁMöl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 126. lþ.

[14:31]

Ásta Möller (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég sagði að virðing manna byggðist ekki á því hvort þeir hefðu 43 þús. kr. milli handanna eða 51 þús. Það brýtur ekki þar á. (ÖJ: Virðing ríkisstjórnar.)

Spurt var um fjárhæðina. Fjárhæðin hefur oft verið til umfjöllunar í þessari umræðu. Það er alveg ljóst að þar skilur á milli stjórnarandstöðu og stjórnarliða varðandi skilning á niðurstöðu Hæstaréttar. Hver horfir sínum augum á niðurstöðu Hæstaréttar, það er alveg ljóst. Spurningarnar sem stjórnarandstaðan leggur fyrir okkur stjórnarliða er í samræmi við þá sýn sem þeir hafa í þessum efnum. Hins vegar er það skilningur meiri hluta nefndarinnar að dómur Hæstaréttar feli í sér að heimilt sé, með tilliti til þess fjárhagslega hagræðis sem felst í sambúð, sem sagt af málefnalegum ástæðum, að tekjutengja tekjutryggingu öryrkja við tekjur maka.

Vegna þess að ég fékk þessa spurningu síðast einnig og taldi mig hafa svarað henni þá þá ákvað ég í eitt skipti fyrir öll að setja þetta skriflega niður fyrir framan mig svo ég geti lesið og fólk geti hlustað á hvað málið snýst um:

Ljóst er að Hæstiréttur taldi að upphæðin 18 þús. kr. væri of lág og ljóst er að 51 þús. kr. er hámarkið, enda er það sú upphæð sem einstaklingur sem býr einn hefur rétt á. Þessi upphæð, 43 þús. kr., er hins vegar ekki heilög. Hún gæti verið lægri og hún gæti verið hærri. Það er þá mat löggjafans hvað er nægjanlegt til að uppfylla ákvæði stjórnarskrárinnar. Það er ljóst að upphæðin fullnægir kröfum Hæstaréttar um rétt öryrkja í hjúskap til lágmarksframfærslu með hliðsjón af 76. gr. stjórnarskrárinnar.