Almannatryggingar

Mánudaginn 22. janúar 2001, kl. 14:38:26 (4036)

2001-01-22 14:38:26# 126. lþ. 63.1 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, ÁMöl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 126. lþ.

[14:38]

Ásta Möller (andsvar):

Virðulegi forseti. Í þessu sambandi má ekki gleyma hvaða hópur fær þennan aukna rétt. Það er hópur með heimilistekjur yfir 200 þús. kr. (Gripið fram í: Nei.) Það hefur margoft komið fram. Þannig að virðing fólks mun ekki bíða skaða af muninum á milli 43 og 51 þús. kr.

Það er talað um mannréttindabrot í þessu sambandi. Það er ekki mannréttindabrot að auka rétt einstaklinga, það er verið að auka rétt einstaklinga. Það er ekki mannréttindabrot heldur er verið að taka tillit til tekna maka. Með sama hætti mætti segja að það væri mannréttindabrot að fella niður heimilisuppbót. Eru það þá ekki mannréttindabrot? Ef þetta er mannréttindabrot þá tíðkast þau einnig í öðrum löndum, t.d. á Norðurlöndunum. Ég fór ítarlega í það áðan að tengingar við tekjur maka tíðkast í hinum vestræna heimi. Málið snýst þannig ekki um mannréttindabrot.