Almannatryggingar

Mánudaginn 22. janúar 2001, kl. 15:41:33 (4042)

2001-01-22 15:41:33# 126. lþ. 63.1 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, ÁRJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 126. lþ.

[15:41]

Ásta R. Jóhannesdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég geri alls ekki lítið úr prófessorunum sem komu fyrir nefndina, enda er vitnað til þeirra í nál. minni hlutans og nánast orðrétt. Ég geri alls ekki lítið úr þekkingu þeirra. Aftur á móti veit ég ekki til þess að þeir hafi sérhæft sig í mannréttindamálum, ég veit ekki til þess, en ég veit að þeir hafa mjög mikla og yfirburðaþekkingu, enda vitnum við til þeirra í minnihlutaáliti okkar.

Hins vegar veit ég að Margrét Heinreksdóttir og Ragnar Aðalsteinsson hafa sérhæft sig í mannréttindamálum og Lára Helga Sveinsdóttir í réttindum fatlaðra. Ég vitnaði til þeirra sérstaklega hvað varðar sérfræðinga í mannréttindamálum, enda veit ég ekki til þess að aðrir sem komu fyrir nefndina hafi verið með sérmenntun eða sérþekkingu í mannréttindamálum sérstaklega. Það getur verið að svo sé en það var alla vega ekki upplýst sérstaklega í nefndinni.