Almannatryggingar

Mánudaginn 22. janúar 2001, kl. 15:42:46 (4043)

2001-01-22 15:42:46# 126. lþ. 63.1 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, Frsm. meiri hluta JBjart (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 126. lþ.

[15:42]

Frsm. meiri hluta heilbr.- og trn. (Jónína Bjartmarz) (andsvar):

Herra forseti. Mér finnst það alvarleg ásökun þegar því er haldið fram af stjórnarandstöðunni að frv. sem hér liggur fyrir feli í sér brot á stjórnarskrá og mannréttindum eins og haldið er fram í áliti minni hlutans. Mér finnst líka alvarlegt þegar því er haldið fram að allir mannréttindalögfræðingar sem komið hafi á fund nefndarinnar hafi haldið því fram að með frv. sé verið að brjóta stjórnarskrá.

Til að skýra það sem kom fram hér í síðasta andsvari þá var enginn sérstakur mannréttindasérfræðingur sem hélt því fram að verið væri að brjóta stjórnarskrá, þvert á móti. Til viðbótar þeim nöfnum sem nefnd voru áðan þá vil ég láta þess getið að sérstaklega voru kvaddir á fund nefndarinnar tveir lögfræðingar sem eru að skrifa doktorsritgerð í mannréttindum. Þeir styðja niðurstöðu meiri hlutans og vísað er til þess í áliti meiri hlutans hver skoðun þeirra er. Þeirra er ekki látið ógetið og þá eru fáir einir eftir sem styðja þá skoðun sem hér er haldið fram af minni hlutanum skammlaust. Mér finnst það fyrir neðan virðingu Alþingis að halda slíku fram án þess að menn séu þá nafngreindir.