Almannatryggingar

Mánudaginn 22. janúar 2001, kl. 15:47:55 (4047)

2001-01-22 15:47:55# 126. lþ. 63.1 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, menntmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 126. lþ.

[15:47]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil nú taka það fram að ég er löglærður og ég hef ekki vitað til þess að hugtakið ,,mannréttindalögfræðingur`` væri eitthvað sérstakt hugtak um lögfræðinga. Sjálfur starfaði ég með Ragnari Aðalsteinssyni við undirbúning á lögfestingu á mannréttindasáttmála Evrópu á sínum tíma og vafalaust gæti ég gert tilkall til að vera ,,mannréttindalögfræðingur`` á þeirri forsendu.

Mig langar til að spyrja hv. þm. sem lýsir hér sannfæringu sinni og því að hún viti nákvæmlega hvað felst í dómi Hæstaréttar og hvernig beri að framfylgja honum: Hvers vegna er lagt til í hinni rökstuddu dagskrártillögu minni hluta nefndarinnar að heilbr.- og trn. þingsins verði falið að semja lagafrv. til að unnt sé að framkvæma dóm Hæstaréttar, ef sannfæringin og vitneskjan um það hvernig þetta mál á að ganga fyrir er svo skýr sem hv. þm. hefur áréttað hér?