Almannatryggingar

Mánudaginn 22. janúar 2001, kl. 15:50:57 (4050)

2001-01-22 15:50:57# 126. lþ. 63.1 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, ÁRJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 126. lþ.

[15:50]

Ásta R. Jóhannesdóttir (andsvar):

Herra forseti. Það er ljóst að hæstv. ráðherra hefur ekki hlustað á umræðuna í morgun eða framsögu fyrir minnihlutaáliti heilbr.- og trn.

Ég hef haldið því fram, herra forseti, að ekki hafi þurft lög til þess að greiða út 1. janúar. Aftur á móti hef a.m.k. ég alltaf sagt að setja þyrfti lög um frekari útfærslu vegna dómsins, vegna afleidds réttar o.s.frv., um aðrar greinar og aðra hópa sem eiga augljóslega rétt samkvæmt þessu. Ég vísa bara í það sem ég hef sagt áður, að ég tel að ellilífeyrisþegar eigi rétt samkvæmt þessum dómi, það er auðvitað afleiddur réttur.

Annars, herra forseti, vísa ég til framsögu hv. þm. Bryndísar Hlöðversdóttur með minnihlutaálitinu. Þar kemur rökstuðningurinn fyrir þessari leið mjög glöggt og ljóslega fram.