Almannatryggingar

Mánudaginn 22. janúar 2001, kl. 15:54:08 (4053)

2001-01-22 15:54:08# 126. lþ. 63.1 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 126. lþ.

[15:54]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Þarna er bent á þróun lægstu launa. En með kjarasamningunum 1995, 1996 og 1997 og aftur 1999 fékkst loksins samþykkt við verkalýðsfélögin og atvinnurekendur að hækka skyldi lægstu laun en það var gert með tilliti til þess að engin önnur viðmiðun skyldi tekin inn í það, hvorki bónusar né nokkur viðmið önnur, þ.e. önnur laun sem fylgdu. Áður voru vandræði verkalýðshreyfingar og atvinnurekenda þau að geta ekki hækkað lægstu laun nema hækkunin fylgdi upp allan launastigann. Þessi samanburður er við lægstu laun sem allir voru sammála um að ekki ætti að miða við. Í lögunum stendur að fylgja beri launaþróuninni og það hefur verið gert og rúmlega það. Áður fyrr vorum við alltaf í vandræðum með þetta. Við getum nefnt dæmi um það að kjör öryrkja hafi versnað en þau hafa haldið sér núna og kaupmátturinn aldrei hækkað meira en á síðustu árum.