Almannatryggingar

Mánudaginn 22. janúar 2001, kl. 17:29:12 (4062)

2001-01-22 17:29:12# 126. lþ. 63.1 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 126. lþ.

[17:29]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Hér hafa verið viðhafðir fullkomnir útúrsnúningar. Ég var einmitt að benda á að það hefði trúlega verið í nefndarumfjölluninni þennan eina dag sem málið 1998 stóð við hér á Alþingi að það kom fram það álit að það bryti í bága við stjórnarskrána. Á það var bent. En stjórnarliðið lét það náttúrlega ekki aftra sér og setti lög engu að síður.

Hins vegar ætla ég að hugga þingmanninn. Hann var manaður upp í ræðustól. Það fáum við að vita núna. En hann treystir sér ekki í neina sérstaka umfjöllun um þetta mál og þess vegna fer hann í söguskýringu og ber saman aðild að alþjóðasamningum eins og EES-málið og mál sem lögmenn hafa staðfest að brjóti í bága við við stjórnarskrána. Þetta er því alveg furðulegur málflutningur. En ég get glatt hann með því að formaður Samfylkingarinnar er á mælendaskrá og mun tala við hann og svara því sem hann hefur spurt um.