Almannatryggingar

Mánudaginn 22. janúar 2001, kl. 17:31:32 (4064)

2001-01-22 17:31:32# 126. lþ. 63.1 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 126. lþ.

[17:31]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Hin afdráttarlausa afstaða stjórnarandstöðunnar í þeirri atkvæðagreiðslu sem hv. þm. vitnar til byggði á þeirri skoðun okkar og yfirlýsingu að tenging örorkubóta við tekjur maka stæðist ekki stjórnarskrá landsins. Það hefur núna fengist staðfest fyrir dómi.

Hitt langaði mig til að spyrja hv. þm. Kristin H. Gunnarsson eftir að hann er búinn að tíunda fyrir okkur hvernig tekjur öryrkja sundurgreinast, annars vegar í örorkugrunnlífeyri upp á rúmar 18 þús. kr. og hins vegar tekjutryggingu upp á rúmar 32.566 kr., ef hún er óskert. Hv. þm. varði talsverðum tíma af sinni ræðu til að réttlæta fyrir okkur að eðlilegt væri að skerða þessa upphæð með tilliti til tekna maka. Og nú vil ég spyrja hv. þm.:

Finnst honum eðlilegt, og er það afstaða Framsfl., að skerða framfærslulífeyri fólks sem hefur glatað starfsorku sinni þegar makinn er langt innan við meðaltekjur á íslenskum vinnumarkaði? Þessi tekjutrygging byrjar að skerðast í rúmum 134 þús. kr. Og síðan dettur hún endanlega út, eins og þingmaðurinn rakti, í 273.448 kr., náttúrlega langt innan við það kaup sem menn fá hér í þessum sal sem eru að fá á fjórða hundrað þús. kr. á mánuði hverjum.

En finnst Framsfl. eðlilegt að dæma fólk sem glatað hefur starfsorku sinni til varanlegrar fátæktar? Ég spyr: Er þetta stefna Framsfl. sem hér er verið að lýsa? Og hvernig fór Framsfl. að komast að þessari niðurstöðu? Vill hv. þm. upplýsa þingheim um það?