Almannatryggingar

Mánudaginn 22. janúar 2001, kl. 20:35:28 (4077)

2001-01-22 20:35:28# 126. lþ. 63.1 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 126. lþ.

[20:35]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Ég hef ekki fullyrt það að einhver sé óskeikull í þessu máli. En ég álít sem svo að eftir því sem fleiri færir lögfræðingar komi saman, því meiri líkur séu á því að rétt niðurstaða fáist.

Ég ætla líka að minna á að umboðsmaður Alþingis, sem þá var, taldi ekki hafa verið brotin lög með þeim aðferðum sem notaðar voru áður en nýju lögin voru sett. Menn voru því að sjálfsögðu í góðri trú. Þessi dómur, eins og allir vita og ég trúi ekki öðru en menn viðurkenni það, kom mjög mörgum á óvart, ég held flestöllum sem stunda lögfræði. (Gripið fram í.) Það að eitthvað væri ýjað að því að verið væri að brjóta stjórnarskrána með álit umboðsmanns Alþingis á bak við þetta, mjög virts fræðimanns, var að sjálfsögðu óvenjulegt og að þessi niðurstaða gæti orðið í Hæstarétti. Þess vegna eru menn auðvitað að grípa til þessa frumvarps sem hér er.

Auðvitað stendur þessi dómur, en því miður, eins og ég sagði áðan, er þessi dómur með þeim hætti að hægt er að skilja hann á marga vegu. Eitt af því sem mér finnst vanta núorðið (Gripið fram í.) er að að dómar Hæstaréttar séu það skýrir að menn geti einróma fallist á niðurstöður þeirra.

(Forseti (GuðjG): Forseti biður hv. þm. að leyfa ræðumönnum að tala án truflana. Það er allt of mikill kliður í salnum.)