Almannatryggingar

Mánudaginn 22. janúar 2001, kl. 20:39:21 (4079)

2001-01-22 20:39:21# 126. lþ. 63.1 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 126. lþ.

[20:39]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Dómsorðið er ekki skýrara en svo að það er hægt að skilja það á a.m.k. tvo vegu eins og við höfum heyrt í þessum sölum á undanförnum dögum. Þetta er ekki eina málið sem hefur komið svona óskýrt út úr Hæstarétti. Ég held að allir séu sammála um að það er afturför ef dómar geta ekki verið skýrari en svo að hægt sé að rífast um þá í langan tíma út af óskýrri framsetningu. (Gripið fram í.)

Varðandi lögmenn og þau ummæli sem fallið hafa um hverjir eru lögmenn í þingsalnum og hverjir ekki, þá held ég að ekki sé ástæða til að draga lögmenn beint inn í þetta. Ég held að þingmenn almennt séu ... (Gripið fram í.) Ég gerði það, já, vegna þess að ég tel í rauninni að enginn maður og allra síst lögmenn hafi áhuga á því að lenda í stjórnarskrárbrotum á Alþingi. Að sjálfsögðu vill enginn lenda í því. Með álit umboðsmanns Alþingis og miklu fleiri á bak við sig í þeirri lagasetningu sem gerð var 1998, þá held ég að mönnum sé alveg ljóst að ekki var hægt að vera með betri sérfræðingsálit á bak við sig. Síðan hefur ýmislegt breyst í umhverfinu sem Hæstiréttur taldi að leiddi til brots á stjórnarskránni. Það var ekki til staðar þegar þessi lagasetning var á sínum tíma til umræðu í þinginu.