Almannatryggingar

Mánudaginn 22. janúar 2001, kl. 20:44:45 (4082)

2001-01-22 20:44:45# 126. lþ. 63.1 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 126. lþ.

[20:44]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Nú finnst mér að hv. þm. og ég séum sameiginlega farnir að nálgast kjarna málsins. Viðhorf manna til mannréttinda breytast. Þess vegna m.a. breyttum við stjórnarskránni eða mannréttindaákvæðum hennar 1995. Við vorum að færa hana til samræmis við ný viðhorf sem höfðu fest rætur í samtímanum.

Það sem áður þótti í lagi þykir ekki lengur. Hvers vegna? Ég nefni sem dæmi að við höfum horft upp á gerbreytt viðhorf t.d. til jafnstöðu kynjanna. Það hefur brotist í gegnum löggjöfina í formi nýrra laga og það vill svo til að á tveimur stöðum í forsendum dóms Hæstaréttar er einmitt vísað til þessa.

Sá áfangi sem náðist með dómi Hæstaréttar var líka tiltölulega mikilvægur áfangi í baráttu kvenna hér á landi. Það sést t.d. á því að 2/3 hlutar þeirra sem hafa búið við skerta tekjutryggingu vegna tekna maka síns eru konur.

Herra forseti. Hv. þm. var að velta því fyrir sér hvaðan prófessorinn hefði haft þessar upplýsingar. Hérna er um að ræða prófessor sem er sérfræðingur í þessum fræðum, herra forseti, og í þessari bók segir hann m.a. þegar hann er búinn að reifa þetta, þ.e. að þetta sé hugmyndafræði sem tilheyri liðinni tíð: ,,Þess vegna hafa vestrænar þjóðir horfið frá slíkri framkvæmd almannatrygginga nú á dögum.``

Þetta er alveg skýrt, herra forseti. En mig langar aðeins að lokum að inna hv. þm. Kristján Pálsson eftir því hvort hann sé stoltur af því sem liggur nú eftir sem verk þessara tveggja daga, þ.e. frv. þar sem menn eru t.d. að beita afturvirkum lögum til að kroppa 8 þúsund kall af öryrkjum sem búið er að dæma tiltekinn rétt? Er hann stoltur af því að fyrningarrétturinn skuli bara vera fjögur ár? Er hann sem góður og gegn sjálfstæðismaður stoltur af þessum vinnubrögðum?