Almannatryggingar

Mánudaginn 22. janúar 2001, kl. 20:46:52 (4083)

2001-01-22 20:46:52# 126. lþ. 63.1 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 126. lþ.

[20:46]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Ég vil bara segja varðandi síðustu orð hv. þm. að samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef og rannsóknum sem ég hef látið gera fyrir mig persónulega er ekki verið að brjóta stjórnarskrána með því frv. sem hér er lagt fram. Það er heldur ekki verið að brjóta lög með þeim og ekki brotið gegn mannréttindum með þeim. Það er niðurstaðan sem ég hef komist að.

Varðandi viðhorfsbreytingar í almannatryggingum um heiminn þá eru tekjutengingar viðhafðar í öllum Evrópuríkjunum með misjöfnum hætti. Um það er ekki nokkur ágreiningur. Viðhorfsbreytingarnar geta svo sem falist í öðru. Ég hef heyrt hér heima að það ætti bara að henda út öllum tekjutengingum eins og þær leggja sig. (ÖS: Landsfundur Sjálfstfl.) Ýmsir hafa haldið því fram en við vitum vel að ef það væri gert yrði það ekki í kjölfar dóms. Það tekur áraraðir að breyta skattkerfinu til að slíkt geti gengið upp. Ég tek ekki undir að gera eigi byltingu að þessu leyti.

Ég held að með þessum aðgerðum ríkisstjórnarinnar og þingmeirihlutans sé reynt að uppfylla þann dóm sem felldur var af Hæstarétti eins ítarlega og kostur er. Að öðru leyti lít ég svo á að menn muni halda áfram að reyna að bæta kjör öryrkja eins og lýst hefur verið yfir úr þessum ræðustól fyrr.