Almannatryggingar

Mánudaginn 22. janúar 2001, kl. 21:13:32 (4087)

2001-01-22 21:13:32# 126. lþ. 63.1 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 126. lþ.

[21:13]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Ég tel að hér sé ekkert gamanmál á ferðinni og það sé alveg með eindæmum að hv. þm. segi: ,,Ég notaði orðið öryrkjamafían í gamni.`` Hann sagði jafnframt að ekkert siðferðilegt álitamál hefði komið upp í þessu máli. Hver hefur sagt það? Það var sagt að slík álitamál (Gripið fram í.) hefðu ekki verið rædd sérstaklega í heilbr.- og trn. Það var sagt. En það heitir á máli stjórnarandstöðunnar að það hafi bara ekkert siðferðilegt álitamál komið upp í þessu máli. Auðvitað hafa mörg siðferðileg álitamál komið upp í þessu máli eins og mörgum öðrum. Það liggur alveg ljóst fyrir.

En mér þykir afar leitt að það skuli þurfa að ræða þetta mál með þessum hætti sem hér er gert. Ég tel að öll þau sem hér eru beri virðingu fyrir þeim sem minna mega sín í þjóðfélaginu, vilji rétta þeirra hlut og það hefur ekkert annað komið fram í þessari umræðu. Og þar sem orðið stormsveit er notað, hvenær var það þá notað og í hvaða samhengi var það mest notað í mannkynssögunni, hv. þm.?