Almannatryggingar

Mánudaginn 22. janúar 2001, kl. 21:15:02 (4088)

2001-01-22 21:15:02# 126. lþ. 63.1 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 126. lþ.

[21:15]

Lúðvík Bergvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Hæstv. utanrrh. orðaði það svo að sér þyki leitt að beita hafi þurft þeirri orðnotkun sem hér hafi átt sér stað úr þessum stóli. En hvernig hefur ríkisstjórnin hagað sér í þessu máli? Hún lagði ekki einu sinni lykkju á leið sína til að tala við þá sem betur höfðu í málsókninni. Túlkaði einhliða og nákvæmlega hver eignarréttindi fælust í þeim kröfuréttindum sem viðkomandi hafði náð. Og hvað leyfir hæstv. ráðherra sér svo að segja? Hann kvartar undan því að hæstv. ríkisstjórn sé skömmuð fyrir þetta háttalag og jafnvel þó að einhver hvöss orð séu notuð. Hvað kallar hæstv. utanrrh. það að verða undir í máli, stofna eigin sveit til þess að finna út úr því hvað felst í þessum dómi, koma síðan með það á hið háa Alþingi og keyra það í gegn í andstöðu við þá sem unnu málið? Hvað kallar hann það annað en yfirgang? Hefðu ekki allflestir tekið það upp hjá sjálfum sér að ræða við hann sem deilt hafði verið við í nokkur ár um málið? Ekki þessi ríkisstjórn. Ekki nokkur.

Svo leyfir hæstv. utanrrh. sér að koma hingað upp og saka minni hlutann eða þann sem hefur mótmælt þessu frv. harðlega um að nota of stór orð. Virðulegi forseti. Ég þori næstum því að fullyrða að sjaldan eða aldrei hafi verið komið fram af eins miklum valdhroka í nokkru máli og í þessu máli. (Gripið fram í.)