Almannatryggingar

Mánudaginn 22. janúar 2001, kl. 21:17:17 (4089)

2001-01-22 21:17:17# 126. lþ. 63.1 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 126. lþ.

[21:17]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Stjórnarandstaðan hafði þá skoðun í upphafi umræðunnar að ekki þyrfti að leggja fram neitt frv. heldur væri hægt að framfylgja dómi Hæstaréttar beint og án nokkurra aðgerða Alþingis. Nú hefur komið fram í áliti minni hluta heilbr.- og trn. að stjórnarandstaðan telur nauðsynlegt að leggja fyrir Alþingi nýtt frv. sem allra fyrst til að fullnægja dómi Hæstaréttar. Ég hlustaði vandlega á ræðu hv. þm. og hann vék ekki einu orði að þessari afstöðubreytingu stjórnarandstöðunnar og reyndi ekki að skýra á nokkurn hátt hvers vegna stjórnarandstaðan hefði kúvent í þessu máli. Fróðlegt væri að fá skýringar á því.

Ég hnaut líka um orðalag hv. þm. eins og hæstv. utanrrh. Þingmaðurinn talaði um að þingmenn hlytu að hafa sérstakt geðslag og átti þá við stjórnarþingmenn. Hvað á þingmaðurinn við þegar hann segir um okkur sem erum í stjórnarliðinu að við þurfum að hafa sérstakt geðslag til að ákveða innihald að kröfurétti? Ég áttaði mig ekki alveg á því hvað þingmaðurinn meinar en ég skildi tóninn í orðunum þannig að þetta væri neikvæð merking. Þingmaðurinn talaði um stormsveit, nefnd fjögurra lögfræðinga er kölluð stormsveit. Þingmaðurinn hefur ekki fengist til að útskýra hvað hann átti við með því. Stormsveit er þekkt fyrirbæri úr mannkynssögunni og menn líkja ekki fjórum valinkunnum lögfræðingum í þjóðfélaginu við stormsveit að gamni sínu. Það er alveg augljóst mál að hv. þm. verður að útskýra hvað hann átti við með þessu orðfæri.