Almannatryggingar

Mánudaginn 22. janúar 2001, kl. 21:50:59 (4094)

2001-01-22 21:50:59# 126. lþ. 63.1 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 126. lþ.

[21:50]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Össur Skarphéðinsson fór mikinn hér í ræðustól og talaði um að engar nýjar hugmyndir hefðu komið frá meiri hlutanum og umræðan væri tilfinningahlaðin. Mér fannst tilfinningarnar hjá hv. þm. vera miklar og út af fyrir sig er ekkert skrýtið við það. Stjórnarandstaðan segist hafa komist að þeirri niðurstöðu að brotið sé gegn stjórnarskránni og mannréttindum með því að gera þetta frv. hér að lögum. Minni hlutinn kemur hér með dæmi um að ívilnandi ákvæði í þessu frv. séu íþyngjandi og nýtt réttarástand verði til, eins og fram kemur á bls. 8. Virtir lögfræðingar úti í bæ skilji í raun ekki meininguna í þessu, finnst þetta einhver golfranska sem í raun sé ekki til í lagamáli og þess vegna ekki hægt að nota hana til að komast að þeirri niðurstöðu að verið sé að brjóta stjórnarskrána, sem er mjög alvarleg ásökun.

Mjög virtir lögmenn eins og Sigurður Líndal prófessor, einn af helstu mentorum okkar í lögfræði, hefur í viðtölum við heilbr.- og trn. staðfest að það sé ekki verið að brjóta stjórnarskrána og ekki brotin mannréttindi á öryrkjum með þessu frv.

Mér finnst með ólíkindum hvernig stjórnarandstaðan hefur látið í þessu máli og einnig að Samfylkingin hafi ákveðið að þrýsta á forseta Íslands um að hann undirriti ekki þessi lög. (Gripið fram í: Hvað segirðu?) Ég er að velta því fyrir mér: Í hvaða fasa er þessi umræða hjá Samfylkingunni þegar á að fara að blanda forseta Íslands inn í málið? Er það örvæntingin eða hvað rekur forustumenn Samfylkingarinnar til að koma með það inn í umræðuna að nú sé ástæða til að forseti Íslands neiti að undirrita lögin?