Almannatryggingar

Mánudaginn 22. janúar 2001, kl. 22:00:47 (4099)

2001-01-22 22:00:47# 126. lþ. 63.1 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 126. lþ.

[22:00]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég var ekki staddur í nefndinni þegar þeir vísu menn sem hv. þm. nefndi komu til fundar við hana. Sitthvað hef ég séð eftir sumum þessara manna í nál., bæði meiri hluta og minni hluta. Hvað varðar t.d. lögspekinginn Eirík Tómasson blasir það við að sá ágæti prófessor sagði, ekki bara við heilbr.- og trn., heldur við þjóðina alla á næstsíðasta degi liðinnar aldar, að ljóst væri af dómi Hæstaréttar að óheimilt væri að skerða tekjutryggingu öryrkja með tekjum maka. Hann sagði að þetta væri bindandi fyrir ríkisstjórnina. Þetta hefur lagaprófessorinn ekki borið til baka gagnvart þeim áheyrendahópi sem á þetta hlýddu og þangað til hann gerir það hlýt ég að vera þeirrar skoðunar að hann hafi meint það sem hann sagði.

Herra forseti. Ég er náttúrlega ekki alveg klár á því sem Sigurður Líndal sagði en ég er hins vegar klár á sannfæringu minni. Ég hef farið ofan í þennan dóm. Er það þannig, herra forseti, að menn þurfi helst að vera með lögfræðipróf til þess að vera gjaldgengir í þessari umræðu eins og stundum hefur örlað á í þessari umræðu? Ég hef það litla vit sem mér var gefið af guði og ég hef reynt að beita því. Ég hef legið í þessum dómi, ég hef legið í sérálitinu, ég hef legið í ummælum manna. Það liggur fyrir að á fyrstu dögunum eftir að dómurinn kom fram var umræddur lagaprófessor á þessari skoðun, þá var meira að segja Jón Steinar Gunnlaugsson hæstaréttarlögmaður líka á þessari skoðun eins og ég hef rakið hér.